Saturday, December 31, 2005

Gleðilegt árið!

Ég var að klára áramótaskaupið og það var nú bara helvíti fyndið. Fullt af ferskum leikurum, ég er bara ágætlega sátt. Hér er árið 2006 gengið í garð, flugeldarnir komnir á fullt og púðurlykt.
Ég var að kíkja á afrek ársins og ég er búin að vera dáldið dugleg.
1.Gifti mig og flutti á milli landa(bæði skuldlaust)
2. Lærði dönsku.
3.Komst að því að ég ætla aldrei að vinna sem póstberi!
4. Náði að vera góð við mína nánustu(svona 99%)
5. Náði ágætis hamingjuhlutfalli svona 85% en þarf að kyrja meira.

Nýársheitin 2006 eru:
1. Iðka meira
2.Vera óeigingjarnari á árinu
3. Fara í yoga

Gleðilegt ár öllsömul og þakka allt gamalt og gott. Þið eruð frábær. Skál!

Tuesday, December 27, 2005

Snjókorn falla!

Það snjóar bara í Danmörkinni, meira segja bara helling. Ég þurfti að skafa scooterinn til að komast heim úr vinnunni! Ég geri mér nú reyndar alveg grein fyrir að það er til fólk sem þarf að skafa fleiri fermetra en ég en samt! Ég vildi helst vera alveg laus við snjóinn.
Ég fékk nokkrar jólakortaeftirlegukindur í dag sem ég er mjög ánægð með. Þannig að það eru nokkrir lausir úr jólakortaskammarkróknum hjá mér. En það eru margir eftir þar inni!
Ég fór í danskt jólaboð í gær og það var hin besta skemmtun. Maður er rosalega lengi að borða af því að það eru svo margir réttir og það er líka minni hætta á að maður éti á sig gat. Systir mín kom með snilldarhugmynd um hvernig á að haga jólahaldi framvegis. Við stefnum að fara til Íslands annaðhvert ár og erum hérna hitt árið. Þannig að ég kem heim næstu jól!
Beta og Mikkel eru að koma til okkar í hangikjöt og spilamennsku í kvöld. Ég var að smakka það og það er geðveikt gott. Ég og Beta ætlum að taka drengina í nefið í Settlers í kvöld!

Sunday, December 25, 2005

Afi lesa!

jólahjól!

Gleðileg jól öll saman annars! Ég er búin að eiga ágætis jól með önd og lífrænt ræktuðum nautalundum,mmm! Fékk fullt af sniðugu dóti í jólagjöf og ég held að þetta séu rólegustu jól sem ég hef upplifað, bæði aðdragandinn og jólin sjálf. Mér fannst dáldið erfitt að komast í jólaskap því að hérna eru hlutirnir ekki eins og maður er vanur að hafa þá. En við hlustuðum á messuna á rúv.is og þá datt ég í stemmingu. Ég fór að pæla í því í gær að ég hef aldrei hlustað á prestinn, bara hlustað á lögin. Ég vona að hann hafi ekki verið að segja neitt merkilegt síðastliðin 29 ár. Svo er ég búin að eiga letidag í dag, horfa á vídeó og vera í náttfötum. Beta systir og Mikkel voru að fara, við spiluðum Settlers. Mig langar að taka það fram að við Beta unnum í bæði skiptin! Yeeaaah!
Svo var hún litla systir mín að slá í gegn í háskólanum og fékk þessar frábæru einkunnir. Það mætti halda að hún sé skyld mér:)
Þessi mynd hér að neðan er af barnabarni fjölskyldunnar, hundi litlu systur minnar. Hún Doppa var í pössun hjá afa og ömmu á aðfangadagskvöld og fékk nýsjálenskar nautalundir(eins og sjá má á svipnum)

Barnabarnið!


Thursday, December 15, 2005

Velsæld!

Ég hef akkurat ekkert annað betra að gera en að hengja upp jólaskraut heima hjá mér og horfa á vídeó. Þetta er mjög skrýtið ástand, ég er ekki með neinn lista í höfðinu sem mér finnst ég þurfa að gera. Ég er nú venjulega með svoleiðis í gangi. Það er bara algjör friður og afslappelsi í gangi. Ég á nú reyndar eftir að gera nokkra hluti fyrir jól en mér finnst ég hafa allan tímann í heiminum og það er nú afar furðulegt svona rétt fyrir jól. Ég er orðin ligegladari en andskotinn!

Monday, December 12, 2005

Baunajólin

Ég og minn heittelskaði vorum þvílíkt dugleg um helgina,tókum og þrifum íbúðina hátt og lágt,þvoðum þvott og ég veit ekki hvað og hvað. Síðan kíkti ég á byggðasafn bæjarins, þar var jólamarkaður og alls kyns sniðugt dót. Svo skoðaði ég nokkra krúttlega bóndabæi með stráþaki. Þetta var mjög huggulegt.
Danir eru mikið rólegri en Íslendingar í jólatíðinni og ég er búin að uppgötva hluta af ástæðunni. Ég fór í rúmfatalagerinn á Íslandi, þar var hálf búðin undirlögð undir jóladót. Ég fann jóladúka þar en svo fylltist ég danskri nísku og ákvað að fá þetta ódýrara í Nískulandinu. Svo kem ég heim og ætla að gera þvílík kaup. En svo er næstum ekkert jóladót í rúmfatalagernum hérna. Þvílík vonbrigði! Ástæðan fyrir því að Danir eru ekki jafnklikkaðir og íslendingar er einfaldlega sú að þeir hafa ekki nærri jafnmikið framboð á ónauðsynlegum hlutum til þess að kaupa. Svo gefa Danir ekki eins dýrar gjafir og íslendingar. Þannig að fjárhagur heimilisins fer ekki á hliðina útaf jólunum hérna. Sem er bara mjög skynsamt! En ég sakna ljósanna, þeir eru ekki duglegir við það hér.
Ég ætlast til að fá fullt af jólakortum, helst handföndruðum en ég neita ekki að lesa þau þó að þau séu keypt í Bónus. Hérna er adressan svo að þið getið látið til ykkar taka.
Ásdís Óladóttir eða Anders Larsen
Buddingevej 60
2800 Lyngby
Danmörk

Friday, December 09, 2005

Ásdís snilli, taka 2

Í dag er góður dagur, ég grætti engin gamalmenni og ég fékk 10 í munnlega prófinu.
Sem þýðir að ég get haldið áfram í dönsku eftir áramót(það þurfti 10 í meðaleinkunn). En þó það sé nú fínt þá er dönsk málfræði ekki það skemmtilegasta í heimi, ég held að ég hafi skrópað núna jafn mikið og ég mætti. En batnandi manneskju er best að lifa, hver veit nema að ég læri að læra heima eftir áramót :).
Ég upplifði mjög furðulegan hlut í dag, hausinn á mér eyddi lunganum úr deginum í að velta sér uppúr því hvað ég hefði átt að segja í prófinu til að standa mig betur þrátt fyrir að hafa fengið 10. Það er varla hægt að gera mikið betra en það . Ég er svo rugluð!

Wednesday, December 07, 2005

Ásdís snilli!

Dönskuguðirnir eru mér alveg fáránlega hliðhollir þessa dagana, ég fékk 10 og 13 í skriflega prófinu. Þetta á ég engan veginn skilið. Verð að muna að kaupa geit og slátra henni útí garði þeim til heiðurs.
Er komin með snert af brjósklosi eftir ferðina til Íslands. Foreldrar mínir versluðu jólagjafir eins þau hafi ekki séð okkur systur í 20 ár,svo var það hangilærið, grafni silungurinn, 2 kíló af nammi og hunangs cheerios pakkinn. Ekki misskilja mig samt, það er ekki hægt að fá of margar jólagjafir.
Það var dáldið skrýtið að koma til Íslands, myrkrið var dáldið sjokkerandi. En það vandist á svona 2 dögum. Þetta var alltof stuttur tími til að hitta alla sem maður vildi hitta og framkvæma allt sem maður ætlaði að gera. Það þarf að taka minnst 10 daga í þetta. En ég held samt að ég hafi náð því mikilvægasta, hinir fá bara jólakort í staðinn!
Ég fattaði líka eitt í Íslandsferðinni, ég skila aldrei kveðjum. Fólk var alltaf að biðja að heilsa hinum og þessum ,samt aðallega manninum mínum. Og ég gleymi þessu alltaf. Svo fór ég að pæla hvort að ég væri svona stjarnfræðilega mikill egóisti að ég gleymi öllu sem kemur mér ekki beint við. En svo getur líka verið að allir gleymi þessu eins og ég og það sé algjörlega merkingarlaust að biðja heilsa einhverjum eða segjast ætla að gera það.

Thursday, November 17, 2005

Brrrr

Það er svo kalt í Danmörkinni að það er ekki fyndið. Það eru 0 gráður og mér finnst ég búa á Norðurpólnum. Mig rámar einhvernveginn ekki í að það sé svona kalt á Íslandi.
Prófið gekk fínt, ég hef ekki hugmynd um hvað ég fæ í einkunn en ég náði því og vel það. Ritgerðarefnið í prófinu fjallaði um að hvernig ætti að bæta heilbrigði almennings í landinu. Ég samdi þvílíka talibana fjallræðu um skaðsemi reykinga og hvað ætti að gera til að laga ástandið. Svo fór ég að pæla í því í morgun hvort kennarinn minn reyki og ég held að hún geri það. Svo reykir kannski prófdómarinn líka og svo verða þau ekkert sérlega ánægð með mig. Danir eru nefnilega ótrúlega viðkvæmir gagnvart þessari umræðu, pólítíkusar þora ekki að minnast á reykingabann nema að þeir séu leiðir á starfinu sínu og vilji ekki láta kjósa sig aftur. Það má nefnilega ekki skerða persónulegt frelsi reykingamannsins til að reykja nákvæmlega þar sem honum sýnist, sama hvort það fer á taugarnar á einhverjum öðrum eður ei. Þetta er svo klikkuð þjóð,Danir lifa víst líka skemur en aðrar norðurlandaþjóðir. Það er sígaretturnar, bjórinn og majónesið og trúleysið held ég.
Trúmál er líka ótrúlega viðkvæmt, hérna vill fólk frekar heyra mig tala um kynlífið mitt en trúna mína. Þetta er eina landið sem ég veit um þar sem er bannað að minnast á trú sína í starfsumsókn. Ég fékk fullt af atvinnuviðtölum heima út á búddismann, fólki fannst þetta ægilega spennandi. En hérna yrði ég örugglega rekin.
Ég sá alveg ótrúlegan hlut heima hjá eldri konu í dag, það var öskubakki skrúfaður í vegginn við hliðina á klósettpappírnum. Pælið í því að sitja á dollunni að skíta og reykja í leiðinni! Ótrúlegt! Það er eitthvað mikið að!

Tuesday, November 15, 2005

læseforståelse

Ég held að ég eigi skemmtilegustu systur í heimi, það var geðveikt gaman um helgina. Ég myndi taka þær með á eyðieyju. Ég er nú helvíti heppin því að það er til fullt af fólki sem finnst ættingjar sínir ekki það skemmtilegasta í heimi. Erna fór í morgun, ég þarf eiginlega að vinna í því að hún flytji til Danmerkur.
Ég er ægilega klár, ég fékk 13 í æfinga lesskilningsprófinu. Svo er það alvara lífsins ámorgun, aðalprófið er kl.9 í fyrramálið. Þetta á eftir að ganga fínt.
Ég er að upplifa það að ég sé of góð í vinnunni minni. Ein eldri daman sem ég er hjá fær þunglyndiskast þegar ég er í fríi í vinnunni. Hún verður svo skelfilega leið þegar ég á fríhelgi en hún er reyndar dramadrottning dauðans. Svo byrjaði íslensk kona í vinnunni í dag, hún heitir Þórunn og það er bara ekki sjens fyrir greyið Danina að bera þetta fram. Ásdís er slæmt en Þórunn! Ég myndi bara breyta því í Tóta.
Úps! Ég fór með poka út í búð í gær en það var reyndar óvart. Þar fór það!

Sunday, November 13, 2005

Kellingarhelgin mikla

Þetta hefur farið sómasamlega fram hingað til. Fórum í Lyngby Storcenter í gær og fórum svo út að borða á mexikóskan veitingastað. Við vorum alveg búnar á því eftir það og fórum snemma heim. Það getur tekið á að tala svona mikið og ég tala nú ekki um ef maður þarf að gera eitthvað annað í leiðinni eins og að labba. Þessi goðsögn um að konur geti gert fleiri en einn hlut í einu er bara bull. Ég get ekki labbað hratt og talað í einu.
Svo byrjuðum við daginn á risa brunch heima hjá Betu,beikon,egg,pönnukökur og det hele. Svo fórum við á risa flóamarkað þar sem hún litlasystir mín, föndurdrottning norðursins tapaði sér algjörlega. Við fundum föndurbásinn og hún byrjaði að froðufella af gleði. Það er bara eins gott að hún á ekki við blóðþrýstingsvandamál að stríða annars held ég að þetta hefði riðið henni að fullu. Ég hef bara aldrei séð hana svona upprifna áður, hún verslaði hálfan básinn og fékk slatta ókeypis því að hún var svo góður kúnni. Hún á eftir að falla í Háskólanum af því að hún verður að föndra jólakort.

Thursday, November 10, 2005

Ásdís fiskibolla

Maðurinn minn elskulegur eldaði fiskibollur handa mér í kvöld og þær runnu ljúflega niður. Síðan arkaði ég glöð í skólann, svo fór ég úr jakkanum og upp reis þessi hrikalegi fnykur. Ég lyktaði eins og fiskimjölsverksmiðja, ég var búinn að gleyma hvað fiskibollufnykur festist í fötum. Það eina sem ég gat gert var að renna upp vindþéttu flíspeysunni og vona að hún kæfði þetta svona aðeins. Þau voru nú voðalega vinaleg, stelpan við hliðina á mér sagðist finna til svengdar við lyktina af mér og þýski strákurinn sagði að þetta væri voða íslensk lykt. Þetta er svo pínlegt að vera að kæfa aðra og sjálfa mig úr fýlu.
Burtséð frá þessu þá var þetta ágætis kvöld, ég fékk 8 í æfingaskriftarprófinu þrátt fyrir að fyrir að hafa beitt þeirri frægu " læra ekki rassgat heima allt haustið" aðferðinni. Hvenær ætli ég læri að læra heima?
Haustið er alveg óendanlegt hérna, það eru ennþá lauf á trjánum og grasið er grænt. Mjög skrýtið, svo verður bara vetur í 4 mánuði frá des fram í mars. Ekki leiðinlegt! Ég finn mikinn mun á birtunni hér, ég verð ekki eins þung og heima. Hérna er ennþá bjart kl 7 á morgnana.
Erna litlasystir ætlar að koma í helgarferð núna um helgina. Það verður alveg svakaleg kellingarhelgi, hanga í búðum og borða á veitingastöðum. Vitið þið að orðið "kelling" er alveg geðveikt ljótt í Danmörku. Ef þú kallar danska konu kellingu þá færðu einn á lúðurinn eða þaðan af verra. Ég er komin með mikin fiðring útaf Íslandsferð, ég hlakka til að hitta fjölskyldu og vini og komast í mömmumat. Mömmumatur er besti matur í heimi.

Wednesday, November 02, 2005

tímateppa

Ég aulaðist niður í Köben á annatíma í morgun. Það var það mikil umferðarteppa að menn sátu á umferðareyjum og dreifðu dagblöðum svo fólki leiddist ekki! Það keyra tugþúsundir manna inn í Köben á hverjum morgni til þess að vinna. Er þetta nútímalífið? Fólk eyðir 2-3 tímum á dag í bíl til þess að eiga fyrir lífinu sínu. Ég vona það þeirra vegna að vinnan þeirra sé þess virði að leggja svona mikið á sig. Mér finnst nú þessum tíma betur varið í eitthvað annað eins og að eyða honum með fjölskyldunni.
Ég veit ekki hversu skemmtileg vinnan mín þyrfti að vera til að ég gerði þetta. Kannski ef ég bjargaði 15 börnum frá hungri í Sómalíu bara með því að mæta í vinnuna. Jú ætli það ekki.

Tuesday, November 01, 2005

Ég er í áfalli! Maðurinn minn er búinn að raka af sér skeggið! Þetta er sko ekki maðurinn sem ég giftist!

Thursday, October 27, 2005

Lesbíska jólaframhjáhaldið!

Haldið þið ekki að ég sé komin í skemmtinefnd fyrir jólahlaðborðið sem ég ætla ekki á! Ég er snilli, við vorum á fundi í dag, framhjáhaldið var svosum ekki rætt en þetta er örugglega þögult samkomulag um svoleiðis hluti. Reyndar er mjög erfitt að halda framhjá því að það vinnur bara einn karlmaður þarna og hann er næstum því kona. Maður verður þá bara að halla sér að sama kyni. Ég er agalegur pervert í dag, snúum okkur að öðrum æðri og andlegri málefnum. Ég er með skóþráhyggju, er búin að velta mér upp úr því hvort ég eigi að kaupa ákveðna skó í 3 daga. Mér finnst þeir nefnilega dáldið dýrir. Agaleg vandamál í þessu lífi!

Wednesday, October 26, 2005

Það hefur hægst mikið á blogginu hjá mér að undanförnu, aðallega vegna leti og svo líka að ég er komin í rútínu með vinnu og svoleiðis. Ég skrapp reyndar til Svíþjóðar á sunnudaginn í ljósgjöf, Svíþjóð er gífurlega krúttleg, sérlega húsin og svo er svo fyndið að hlusta á fólk tala. Svo var líka ánægjulegt að sjá sjóndeildarhringinn á Skáni. Þessi tré hérna í Baunalandinu koma nefnilega í veg fyrir slíkt. Eins og sönnum íslendingi sæmir þá verð ég að sjá langt frá mér öðru hvoru. Ég átti hálfs árs án sykurs afmæli um daginn og svo er ég búin að vera án brauðs í eina og hálfa viku. Það gengur ótrúlega vel, ég hef aldrei borðað eins flottan mat á ævinni.
Ég fíla vinnuna mína ofboðslega vel, það er mjög góð tilfinning að vinna við eitthvað þar sem ég geri eitthvað fyrir aðra. Það er svona þemavika í dag,við sátum í tvo tíma og diskúteruðum vinnuna og hvað er hægt að gera betur. Við gerðum leikfmi í gær og sungum morgunsöng í morgunsárið. Þið kannist örugglega við þetta, þetta er eitthvað sem háskólamenntuðu fólki í starfsmannahaldi dettur í hug og finnst alveg gífurlega sniðugt.
Mér og minn heittelskaði erum ægilega heppin þetta árið. Við föttuðum að með því að fara til Íslands í nóvember þá sleppum við julefrokostinum í vinnunni. Því að það er víst gömul hefð í Baunalandi að halda framhjá makanum í jólahlaðborðinu. Þannig að við sleppum við hjónaskilnaðinn þetta árið! Hjúkk!
Ég og minn heittelskaði erum einnig að pæla í að flytja út í sveit á næstu árum. Ég væri alveg til í hús út í sveit sem er svona hálftíma til klst frá Köben, hafa eplatré og kartöflur í garðinum, rollur og hænsni og eitt stykki hest. Það er hálfgerð geðveiki að kaupa sér eitthvað innan borgarmarka, við fengum mesta lagi 3 herbergja íbúð á leiðinlegum stað miðað við okkar tekjur. Það þarf líka að nýta þessa bóndamenntun af Hvanneyri sem Anders hefur í eitthvað. Það væri samt best að gera þetta með einhverjum og við eigum slatta af vinum sem hafa áhuga. Þá verður maður ekki alveg eins einmana. http://www.home.dk/sag/201-2933?fromSite=Boligsiden. Hérna er hús sem okkur finnst girnilegt.

Saturday, October 22, 2005

Tuesday, October 18, 2005

Litli prins

Krónprinsinn var sýndur í vikunni í fyrsta skipti opinberlega. Það voru þvílík herlegheit kringum þetta, bein útsending og ég veit ekki hvað og hvað. Mary leit alveg ótrúlega vel út miðað við að hún fæddi barn á laugardaginn En maður hefur víst ekkert val um að líta eitthvað öðruvísi út ef maður er prinsessa. Ég er alveg rosalega skotin í kóngafjölskyldunni, ég er aðeins farin að skilja afhverju það eru 3 tímarit helguð konungsfjölskyldunni í þessu landi. Það er viss glamúr yfir þessu. Ég ætla að kíkja á bókasafnið og finna einhverjar kóngabækur.
Ég held að ég sé að verða dönsk, ég skammaði Anders um daginn á dönsku og svo velti ég því fyrir mér að taka poka með mér útí súpermarkaðinn. Þegar ég geri það einn daginn þá er síðasta vígið fallið.
Mamma átti afmæli á miðvikudaginn og hetjan ég mundi eftir því. Það er svo furðulegt að mér finnst foreldrar mínir ekkert eldast, þau eru búin að vera jafngömul í 10 ár. Móðir mín elskuleg á nú hrós skilið, hún nennti að ganga með mig í níu mánuði og ala mig upp eftir það. Uppeldið var nú stærsta afrekið því ég var nú ekki sú auðveldasta. En hana hefur örugglega ekki grunað hversu skrýtin ég ætti eftir að verða seinna á lífsleiðinni. En það byrjaði ekki fyrr en eftir að hún hætti að ala mig upp, þannig að það er algjörlega á mína ábyrgð.
Ég fór á þá fyndnustu mynd sem ég hef séð í gær "The 40 year old virgin". Hún er kannski komin og farin á Íslandi. Þið verðið að sjá þessa mynd!

Sunday, October 16, 2005

brrrrr!

Það er opinberlega komið haust í Baunalandi og það er skítakuldi. Það er búið að vera brjálað útstáelsi á mér um helgina,var í kveðjupartíi hjá Jóhönnu plastfrænku í gær. Hún er að flytja til Parísar á morgun og ætlar að að sjarmera frakkann upp úr skónum. Svo var ég að föndra með Betu í dag og svo fór ég á fund.
Ég er ekkert smá glötuð, Erna litlasystir átti afmæli í gær og ég gleymdi því. Það er ekki eins og ég eigi margar systur, ég á nú að geta haft stjórn á þessu. Ég vinn víst ekki "Best sister of the year award" þetta árið. Þar fór það! Ég er bara með eina afsökun af viti, danski krónprinsinn fæddist á laugardaginn og mér varð svo mikið um að ég gleymdi Ernu.
Ég er í vetrarfríi í dönskuskólanum þessa vikuna og finnst það mjög ljúft. Ég er ekki alveg að fatta þetta, við erum búin að tala um danska pólitík í mánuð og það er svo leiðinlegt. Afar tilgangslaust þegar tekið er tillit til þess að það er enginn í bekknum með atkvæðisrétt.

Thursday, October 13, 2005

Langlífi!

Ég var að tala við konu í dag sem er 100 ára gömul. Hún var orðin dáldið þreytt á þessu og þakkaði(eða ekki!) háan aldur mikilli hreyfingu, reykleysi og hóflegri áfengisneyslu. Þannig að maður verður að passa sig að vera ekki of healthy, þetta gæti endað í því að maður lifi lengur en maður nenni.
Lífið mitt er svo frábært þessa dagana, ég veit svei mér þá ekki hvað ég gæti beðið um meira. Jú reyndar, ýsu, rosalega væri ég til í ýsu. Fiskneyslan er fyrir neðan allar hellur síðan ég flutti hingað. En það er nú bara lúxusvandamál.
Ég ætla að eyða kvöldinu í að sauma jólakort. Stórt knús til allra!

Tuesday, October 11, 2005

sól, sól skín á mig

Alveg ógeðslega var leiðinlegt í skólanum í kvöld, þessi kennari gæti svæft spíttfíkil. Annars allt fínt að frétta, hér er ennþá bongóblíða. Ég sat með Betu systur úti á kaffihúsi í dag og við sleiktum sólina. Það var allt fínt að frétta frá Skotlandi, þar er allt við sama heygarðshornið, óvenjulega mikið af ljótu fólki miðað við höfðatölu og egg og beikon í öll mál.
Inga Þyri frænka var víst að meika það áfram í Idolinu heima. Til hamingju með það elskan! Það getur verið hagkvæmt að eiga fræga ættingja seinna meir. Ég ætla að elda íslenska rollu handa systur minni á morgun og hafa það huggó.

Monday, October 03, 2005

Mér tókst að eyðileggja líf gamallar konu í dag. Ég fór að versla fyrir hana og það voru ekki til jógúrtbollurnar sem hún vildi í búðinni. Hún var alveg miður sín og horfði á mig eins ég hefði drepið uppáhaldskettlinginn hennar. Svona getur þetta verið, vonandi verður hún búin að jafna sig á morgun.
Beta systir skrapp til Skotlands að leita að Loch Ness skrímslinu og drekka sig fulla að sjálfsögðu. Það er viðurkennd staðreynd í Skotlandi að það er auðveldara að koma á auga á Nessie undir áhrifum. Það er eins gott að hún komi með myndir heim.
Í Danmörku er ennþá funhiti og haustið rétt að byrja. Það hefur víst verið snjór uppí eyru heima undanfarið, ég er voða fegin að sleppa við það.

Sunday, October 02, 2005

Hamingja!

Ég er alveg ógeðslega hamingjusöm í dag!
Vildi bara láta ykkur vita.

Thursday, September 29, 2005

Vinnan mín er svo friðsæl, ég held að ég hafi aldrei verið í vinnu þar sem er svona mikil ró og friður. Ég tek varla eftir því að ég sé að vinna, ég er bara að spjalla allan daginn. Ég er ægilega ánægð með þetta enn sem komið er.
Ég hef tekið eftir því að hér er mikið fleira eldra fólk á ferli en heima og hef verið að pæla afhverju. Ég held að það sé útaf því að hérna dettur engum í hug að vinna fram yfir sextugt og svo er það bara að dingla sér. Íslendingar taka þetta aðeins öðruvísi, þeir hætta útkeyrðir 67 ára með sjöfalt brjóstklos, með slitgigt og líkþorn á öllum tám. Talandi um Ísland þá ætla ég að heiðra klakann með nærveru minni frá 29.nóv til 5.des. Þið getið byrjað að hlakka til núna!
Annars er ég dáldið heltekin af jólaföndri þessa dagana, mig hlakkar geðveikt til jólanna. Ég fann þessa fínu handavinnubúð niðri í bæ og stefni á að eyða peningum þar eftir helgi.

Monday, September 26, 2005

Ég og Sigga tækluðum restina af flóamarkaðnum í gær og komumst að því að við erum stórhættulegar saman. Það er gífurlega efnahagslega óhagkvæmt fyrir okkur að versla saman, við töldum hvor annari trú til skiptis um að þetta væri algjörlega nauðsynlegt sem okkur langaði í og þetta væri nú svo ódýrt!! Það er kominn halli á fjárlögin eftir þessa ferð. Svo fórum við í bíó í gærkvöldi á Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna, Johnny Depp er svo frábær í þessari myndi, mæli með henni. Er að pæla að skipta um au pair, sigga er ekki búin að vaska upp einu sinni síðan hún kom! Þetta er engin frammistaða.

Saturday, September 24, 2005

fló!

Loksins er uppvaskari nr.2 kominn, Sigga vinkona átti í mestu vandræðum með að komast útúr Svíþjóð í dag vegna verslunaráráttu(ekki hennar samt!). Við fórum beint á risaflóamarkað, hann var það stór að við komumst bara yfir 1/3 í dag og ætlum að gera aðra atlögu á morgun. Við fórum á dáldið föndurfyllerí og fylltum á lagerinn fyrir jólaföndrið. Svo fórum við á tíbetskan veitingastað og borðuðum afar góðan mat. Það er búið að vera geðveikt veður í dag 20 stiga hiti og yndislegheit. Ég ætti kannski alltaf að vera með gesti,sólin virðist skína þegar það sefur einhver í stofunni hjá mér.

Thursday, September 22, 2005

Ódýrt!

Ég er komin með dáldið danskt verðskyn núna en það er tveir hlutir sem ég missi mig algjörlega ennþá yfir. Það eru slúðurblöð og kjöttilboð. Ég kaupi slúðurblöðin bara vegna þess að þau eru fjórum sinnum ódýrari hérna en heima. Ég græt líka yfir kjöttilboðum í stórmörkuðum vegna þess að ég á svo lítinn frysti. Ég verð algerlega vitstola þegar ég sé 10 kjúklinga á 1600kr íslenskar og ég get ekki keypt þá út af frystinum. Ég ætti kannski að vera þakklát fyrir litla frystinn minn annars ætti ég heila nautgripahjörð og kjúklingabú í frystikistunni. Núna verð ég allavegana að éta úr frystinum til að búa til meira pláss.
Vinnan er mjög skemmtileg, hitti fullt af krúttlegu fólki og er komin heim kl 15 á daginn. Svo vinnur maður bara 35 tíma. Ekki slæmt!
Sigga vinkona kemur á laugardagsmorgun og svo málum við bæinn rauðan um helgina.

Monday, September 19, 2005

Vinnan lítur vel út, þetta er voða rólegt og afslappað. Ég fæ nýtt hjól(meira að segja flott merki),hjálm, bakpoka,regnföt og endurskinsmerki, það á sko ekkert að koma fyrir mig í umferðinni. Mér líst mjög vel á fólkið þarna ,góður mórall og svo framvegis.
Svo fíla ég bara eldra fólk, mér finnst æðislegt þegar fólk gerir nákvæmlega það sem því dettur í hug þó að það sé komið á aldur. Aldís vinkona á ömmu sem stingur af ein til Kína þegar henni dettur það í hug.

Friday, September 16, 2005

Skemmtilegheit

Rosalega borgar sig að vera skemmtilegur. Ég fékk vinnu í heimahjúkrun, byrja á mánudag kl.8. Það verður gott að hafa reglulegan vinnutíma.

Thursday, September 15, 2005

Barnalán!

Það hrynja inn börnin þessa dagana, María systir hennar Siggu var að eignast litla stelpu, Goggi var að eignast strák og svo má ekki gleyma Britney Spears sem var að eignast strák í vikunni. Ægileg hamingja! Talandi um börn, þá hef ég verið að vinna á leikskóla í afleysingum í vikunni. Ég hef bara ekki upplifað eins erfiða viku ever. Ég tala nefnilega ekki barnadönsku og þau horfa bara á mig eins og ég sé fáviti. Það kom ein lítil til mín um daginn og sagði að hún þyrfti að búa til pulsur. Ég fatta ekki neitt og það tekur mig heillangan tíma að fatta að barnið ætlar að fara á klósettið að kúka. Þetta kenna Danir börnunum sínum "að búa til pulsur"!!! Hvað er eiginlega að þessu fólki? Ég er búinn að missa varanlega lyst á pulsum.
Ég hef verið að pirrast yfir hvað atvinnuleit gengur hægt en ég fékk mjög áhugavert svar við umsókn um daginn. Í bréfinu stóð að ég hefði semsagt ekki fengið starfið og það hefðu 196 manns sótt um starfið. Ég tek það fram að starfið var aðstoðarmanneskja á leikskóla. Ég finnst það bara ekkert skrýtið núna að ég hafi ekki fengið starfið. 196 manns! Það ætti kannski að láta Dani vita að það er mannekla á íslenskum leikskólum!
Ég fór reyndar í viðtal í morgun og ég er nokkuð pottþétt um að fá vinnuna, ég var svo rífandi skemmtileg í viðtalinu þó að ég segi sjálf frá. Ég fæ að vita það í fyrramálið.
Uppvaskarinn minn fór heim í morgun,sniff. Núna verð ég að gera eitthvað í eldhúsinu sjálf. En þetta er allt í lagi, það er tæp vika í næsta uppvaskara.

Wednesday, September 14, 2005

Himneskt!

Ég og uppvaskarinn minn fórum í dekurbað í dag í Frederiksbergs sundlauginni. Við vorum þar í 3 tíma og þetta var svo gott. Það var heitapottur með nuddi, saltvatnspottur, nuddsturtur, sítrónugufa, myntugufa,olíuböð, nuddstólar og ég veit ekki hvað og hvað. Síðan endaði maður sæluna með því að skrúbba sig allan uppúr olíu og salti. Það er mjög erfitt að slaka svona mikið á, ég er alveg búin á því!

Sunday, September 11, 2005

Dejlig weekend

Minn heittelskaði bauð mér út að borða á föstudagskvöldið á japanskan veitingastað og þar fékk ég það rosalegasta sushi sem ég hef smakkað. Ég man bara ekki eftir því að hafa orðið svona agndofa yfir mat áður, sushiið var svo gott að ég var hreinlega hissa. Hver biti var opinberun! Ég fer þarna pottþétt aftur
Svo var mér boðið í grill á laugardagskvöldið hjá gömlum björgunarsveitarfélögum( ekki það að við séum eitthvað gömul, heldur er bara langt síðan við byrjum í björgunarsveitinni). Þekkjandi mína menn ágætlega, þá mætti ég með ananas á grillið svo að það væri eitthvað jurtakyns að borða og bjargaði þeim þar með frá skyrbjúg. Salat og annarslags græn vitleysa er nefnilega bara fyrir kellingar! Hvað er þetta eiginlega með menn og kjöt og svo konur og salat!
Svo var kvöldinu eytt útí garði við gítarundirspil og rifjaðar upp gamlar fylleríssögur og skandalar sem maður er sem betur fer löngu hættur að gera. Ég vona það allavegana. Þetta var rosalega notalegt kvöld og ég náði að halda mér vakandi fram yfir miðnætti sem er mjög öflugt af minni hálfu.

Friday, September 09, 2005

Au pair

Ég er að fatta hagkvæmni þess að hafa gesti, Linda er búin að vera vaskandi upp síðan hún kom sem mér finnst alveg æðislegt. Ég er eiginlega dáldið leið yfir því að hún fór til Þýskalands, núna þarf ég að vaska upp sjálf. Svo kemur Sigga eftir tvær vikur og ég læt hana ryksuga líka. Svo þarf hver gestur eftir það að toppa það sem síðasti gerði. Það verður þá ægilega hreint hérna um jólin!

Thursday, September 08, 2005

Letidýr!

Það er komið sumar aftur í Danmörku, 24 stiga hiti í dag. Ég og Linda vorum að kafna og gerðum fátt lítið af viti nema að sitja á kaffihúsi og sólbrenna. Reyndar fórum við í siglingu en það var bara af því að við gátum setið á rassgatinu. Það er alveg brjálaður gestagangur, tengdó kom í dag og Bjartur kemur á morgun. Nóg félagslíf framundan sem er ekkert nema sniðugt.

Sunday, September 04, 2005

Dönskuséní!

Ég er byrjuð í dönskuskóla og ég er bara nokkuð klár. Öll þessi ár í barna og framhaldsskóla þar sem maður kvartaði mikið undan hverskonar þrældómur það væri að þurfa að læra dönsku eru að skila sér núna. Ég hefði nú aldrei trúað því þá að það ætti einhvern tímann eftir að gagnast mér þetta dönskunám. Ég er alveg þvílíkt heppin, ég sé það að fólk frá öðrum löndum eins og Búlgaríu og Afríku á í alveg svakalegu basli, jafnvel eftir mörg ár í skóla. Ég tek 9.bekkjarpróf í dönsku í nóvember og svo er það stúdentsprófið í vor.
Mér gengur alltaf betur að tala en mig vantar aðallega orðaforðann. Ég verð orðin fín um jól. Talandi um jól þá var ég að heyra að vinkonurnar heima eru að fara að byrja á jólaföndrinu. Það er nú ekki seinna vænna. Ég verð að fara að byrja að sauma út jólakortin fyrir þessi jól. Það fengu færri en vildu á seinasta ári vegna framleiðsluleysis af minni hálfu.
Ég kem ekki heim um jólin, jólin verða víst dönsk þetta árið mínus snafs og svínasteik.

Thursday, September 01, 2005

Sýndarmennskan í hnallþórunum!

Ég er eiginlega búin að komast að þeirri niðurstöðu að þessi tendens til að baka ægilega mikið af kökum og þrífa allt hátt og lágt þegar ég er með gesti er bara sýndarmennska. Ég er bara hrædd um hvað fólk heldur ef ég geri það ekki og svo vil ég fá klapp á bakið fyrir kökubakstur. Ég vil ekki að fólk haldi að það sé eitthvað að þannig að það verður allt að vera voða fínt á yfirborðinu. En staðreyndin er sú að það er nú yfirleitt drasl hjá mér(nema þegar koma gestir) og heimilislífið mitt er ágætlega heilbrigt. Kannski ætti ég bara hætta að standa í þessu , hafa óhreina þvottinn á sófanum og gefa fólki myglað matarkex og sykurlausan appelsínusvala. En ætli fólk myndi þá ekki hætta að nenna koma til mín!
Það sem ég er að reyna að koma orðum að er að það eru svo margar óskrifaðar reglur sem eru í gangi sem maður hlýðir ósjálfrátt. T.d að vinna nógu djöfulli mikið þá reddast þetta!, borga reikningana á réttum tíma, kaupa hluti sem maður þarf ekki vegna þess að hinir eiga svoleiðis, vera í vinnu sem öðrum finnst flott,eiga fínt heimili, garð,bíl og mann og ég tala nú ekki um börn sem koma vel fyrir út ávið og alls ekki viðurkenna að það sé ekki allt í gúddí inn á heimilinu. Álit annara getur haft gífurleg áhrif á gjörðir manns.
Sem betur fer verður maður frjálsari fyrir þessum hlutum eftir því sem maður verður eldri en ég er greinilega ekki ennþá orðin frjáls fyrir marengstertunum. Svo finnst mér reyndar gaman að baka.

Wednesday, August 31, 2005

Ég er að fíla Scooterinn minn í tætlur, ótrúlega auðvelt að komast á milli staða og svo lærir maður að rata um borgina. Ég er ekki búinn að keyra neina saklausa Dani niður og þeir hafa ekki keyrt á mig og ég held að það sé því algjörlega að þakka hversu góðir og tillitsamir bílstjórar Danir eru. Ef ég væri á Íslandi hefði verið búið að keyra á mig á degi 2.
Fékk nett menningarsjokk á sunnudaginn, fór í danskt barnaafmæli og ég hreinlega vissi ekki að það væri löglegt að halda afmæli án þess að hafa minnsta kosti eina marengs og 1 heitan rétt. Húsfreyjan bakaði rúnstykki og svo var álegg og ávextir. Svo voru tvær kökur sem voru úr búðinni og vatn, ávaxtasafi og kaffi. Þetta var mjög huggulegt en ekki alveg það sem ég er vön. Ég efast um að ég gæti haldið afmælisveislu án þess að hafa gos og baka svona 5 kökur + heita rétti +osta og eitthvað meira. Ég var að pæla hvort þetta er gamla húsfreyjusyndromið "það verður að vera til nóg og það verður að vera flott" ,svo er þetta líklega álit annara. Svo var ég að ræða þetta við systur mína og Danir kunna víst alls ekki að baka. Þeir kaupa einhverja ömurlega botna út í búð og setja eitthvað ógeðkrem á milli. Við systurnar ættum að kannski að stofna kaffihús og mennta baunana um hvernig tertur eiga að vera.

Wednesday, August 24, 2005

Scooterinn minn!

Hún á afmæli í dag!

Ég gleymi því alltaf hvað ég er gömul með reglulegu millibili, ég þarf yfirleitt að hugsa mig um. En ég er tvítug í níunda skiptið í dag, ekki misskilja mig samt. Ég hef engan áhuga að vera tvítug aftur, ég var svo vitlaus á þeim aldri. Í rauninni verður þetta betra með hverju árinu og fór ekki að verða skemmtilegt að neinu viti fyrr en eftir að ég varð 25 ára. Ég fékk alveg geðveika afmælisgjöf frá mínum heittelskaða, hann gaf mér scooter, svona lítið mótorhjól. Ég kann ekki að keyra á því en í hausnum á mér er ég kominn með mótorhjólapróf, búinn að fá mér svartan leðurgalla og Harley Davidson. Djöfull væri ég flott á Harley Davidson. Brumm,Brumm

Sunday, August 21, 2005

Ég er orðin svo geðveikt brún, ég held meira að segja að ég sé brúnni núna en þegar ég fór með mömmu og pabba til Mallorca ´89. Og það er nú mikið sagt.
Í dag er fínn dagur en minn heittelskaði vill eyðileggja það með því að þvo þvott, þrífa íbúðina og bjóða tengdamömmu í kaffi. Það er nú aðeins of mikið af því góða.!

Wednesday, August 17, 2005

sól og sumar

Og svo var sól aftur í dag,þvílík lukka.
Danir eru svo innilega fyndnir á stalínskan máta. Það er alveg rosalegur munur á íslendingum og Dönum í hugsunarhætti. Danir eru mjög uppteknir af því að það eigi allt að vera sanngjarnt og allir eigi að fá það sama, það er svona nettur kommúnismi í þeim. Sem er fínt upp að vissu marki nema ókostirnir við það eru líka að það eigi allir að vera eins og maður má ekki að skara of mikið framúr. Ég hef rekið mig á það þegar ég er að sækja um vinnu þá má ég ekki segja hversu frábær starfskraftur ég er. Það sem íslendingum finnst heilbrigt sjálfstraust, upplifa Danir sem hroka og mont. T.d þá hefur íbúðaverð þrefaldast á nokkrum árum hérna eins og heima og það er farið að tala um að skattleggja þá sem voru það heppnir að hafa keypt nógu snemma. Íslendingar myndu bara öfundast í hljóði og hugsa "En hann heppinn!"og búið mál. En Danir hugsa "afhverju á hann að fá meira en ég? er hann eitthvað betri en ég? Skattleggjum hann! Einstaklingsframtakið er ekki alveg eins metið hérna og heima. En Danir eru á hinn bóginn með eitt það besta velferðar og menntunarkerfi í heimi þannig að þeir hljóta að vera gera eitthvað rétt.
Ég er eitthvað svo ægilega hamingjusöm, ég veit að maður á ekki að vera það þegar maður er atvinnulaus en skítt með það. Ég er það bara.

Monday, August 15, 2005

Arbejdsløs!

Jæja, þá er að hefja vinnuleitina aftur, það er nú samt mjög jákvætt að vera gera þetta í annað skipti. Núna veit ég hvað ég á að gera og það er rosa plús. Svo er ég ekki eins óörugg í dönskunni. Þetta er dáldið spennandi hvar ég enda í þetta skipti.
Og vitið þið hvað! Það er búin að vera sól í allan dag, það hefur ekki gerst í mánuð:)

Saturday, August 13, 2005

gay pride

Helvíti góður dagur, var í fríi í vinnunni. Ég er búinn að vera niðri í bæ á Gay Pride og það var ógeðslega flott. Þetta er dáldið mikið stærra batterí en heima. Ég komst í þvílíkt stuð og langar út að djamma en vandamálið er að ég þekki bara óvirka alkóhólista sem eiga börn og það nennir enginn út með mér. Minn heittelskaði er á ráðstefnu í Kolding svo að það er ekkert gagn af honum.
Ég ákvað í gær að hætta í vinnunni, ég ætla að segja upp á mánudaginn, fyrir því liggja margar ástæður. Í fyrsta lagi þá hafa þeir ekki staðið við sitt launalega séð og því sem þeir hafa lofað, í öðru lagi er þetta drulluerfitt. Seinasta vika var algjörlega skelfileg, var að vinna 9-10 tíma á dag og það lítur ekki út fyrir að breyting verði á, ég tala nú ekki um hvernig það verður þegar það byrjar að snjóa. Ég játa mig sigraða, ég nenni ekki að vera hörkutól lengur. Mér hefur alltaf fundist ægilega flott að vinna erfiða vinnu, ég hlýt að hafa verið einhver togarafyllibyttutöffari í fyrra lífi með tattú á öllum útlimum sem grenjaði bara þegar hann var fullur.
Kannski fer ég að vinna á leikskóla eða verð heimavinnandi húsmóðir í bili. Ég má nú alveg láta til mín taka á húsmóðursviðinu, það hefur verið fátt um fína drætti þar síðan ég flutti út. Ekki það að ég hafi verið neitt sérstaklega dugleg áður en ég flutti hingað, þvert á móti. Ég fæ mér rúllur í hárið, bleikan slopp og inniskó í stíl , byrja að drekka martini ,þykist þrífa og hugsa um blómin allan daginn.
Svo var ég að fá gleðifréttir frá Íslandi, Sigga vinkona var að kaupa sér íbúð og Bjartur líka. Þau keyptu sér í sitthvorum stigaganginum í sömu blokkinnni, þetta er sko sönn vinátta. Eða þetta var með ráðum gert, núna þarf Sigga ekki að taka leigubíl heim þegar það er partí hjá Bjarti. Þetta er æði, það er svo gaman að eignast heimili. Til lukku með þetta bæði tvö!

Sunday, August 07, 2005

Roskilde

Þetta er búin að vera frábær helgi, vorum með Beggu og Björgvin í grillmat í gærkvöldi, þau eru í stuttri heimsókn. Þetta var virkilega skemmtileg kvöldstund. Svo fór ég til Roskilde til vinafólks sem er nýbúið að kaupa sér hús. Roskilde er mjög krúttlegur bær rétt fyrir utan Köben. Húsið er rosalega huggulegt, stór garður með flottu kirsuberjatré,3 eplatrjám,perutré og tómötum og agúrku í gróðurhúsinu. Þetta er eitthvað svo innilega ekki íslenskt. Ég fíla þetta í tætlur.

Wednesday, August 03, 2005

Heppin!

Það hafa nokkrir aðilar minnst á það við mig undanfarið að ég sé heppin, að þetta Danmerkurdæmi gangi svo vel, komin með vinnu og svo framvegis. Ég er það að vissu leyti en það hefur ekki svo mikið með heppni að gera, ekki í eiginlegri merkingu. Ég er mjög lukkuleg með að hafa látið verða af þessu og mér finnst lífið einhvernveginn betra, mér finnst ég aðallega hafa grætt tíma. Ég upplifi að meðaldagurinn hafi lengst um 5 tíma, ég hef meiri tíma til að vera til. Ég hef mikið meiri tíma til að iðka og því meira sem ég iðka því meiri tíma hef ég(skrýtin þversögn,en samt sönn). Á síðastliðnum árum hef ég lært smám saman að treysta því að lífið verði alltí lagi og hætta að reyna stjórna útkomunni. Og þegar ég hætti að reyna að hafa kverkatak á allri minni tilveru þá fer ég að sjá alla möguleikana. Hlutirnir æxlast reyndar mjög sjaldan eins og ég held að þeir geri. T.d þessi vinna hjá póstinum, ég fékk hugdettu eitt kvöldið að það væri ágætt að vinna hjá póstinum, sótti um á netinu um laugardagsvinnu, fór í viðtal, bað um heilsdagsvinnu, fékk hana og frétti svo eftirá að þetta er ein best borgaða vinnan sem maður fær í Danmörku ómenntaður. Þeir báðu ekki um cv, þeir hafa ekki hugmynd hvar ég var að vinna áður. Eins og ég eyddi miklum tíma í þetta cv og ætlaði aldeilis að sigra Dani með flottri starfsferilsskrá! Svona er þetta, íbúðin kom uppí hendurnar á okkur, frænka hans Anders sagði okkur að kíkja í ákveðið dagblað á ákveðnum degi,þar var íbúðin. Svona hefur þetta verið í ár, eftir að ég hætti að vera svona óttaslegin yfir því að hvað gæti gerst og byrjaði að treysta því að það sem gerist er það rétta. Það eru nefnilega engar tilviljanir og það er tilgangur með öllu. Lífið mitt gengur einhvernveginn best þegar ég er ekkert að skipta mér alltof mikið af því, almættið hefur bara mikið meiri yfirsýn og ímyndunarafl en ég.

póstur

Ég er orðin opinberlega dönsk,ég gleymdi að það var verslunarmannahelgi á mánudaginn,var alveg brjáluð að reyna að hringja í bankann og náði aldrei í gegn. Ég var farinn að hafa virkilegar áhyggjur af íslendingum,ég var orðin sannfærð um að öll íslenska þjóðin væri öll í einu að hækka yfirdráttinn í gegnum símann eftir sumarfrís-mínusinn.
Fór á skemmtilega mynd um daginn A lot like love með Ashton Kutcher. Hún kom skemmtilega á óvart og þá sérstaklega hann. Mér hefur aldrei fundist hann sérstaklega sjarmerandi hingað til, en hann var bara mjög heillandi í þessari mynd. Ég tek það fram að hér er um eðal stelpumynd að ræða.
Ég var að uppgötva mjög skemmtilega fordóma sem ég hef gagnvart fólki með leiðinlega póstkassa eða póstlúgur. Ég er alveg sannfærð um það að fólk sem er með póstkassana sína út við hlið er alveg ótrúlega gott og örlátt. En fólkið sem er með þröngar og leiðinlegar póstlúgur eru skítakarakterar. Þetta er ekkert rosalega vísindaleg niðurstaða en það er örugglega eitthvað til í þessu. Hvernig er póstlúgan þín? Ertu Dalai Lama eða skítakarakter?
Ég er búinn að vera að vinna með honum Vagn undanfarnar vikur. Hann er búinn að vera póstberi í 40 ár og hann er frá Jylland. Ég skil ekki orð af því sem hann segir en það er víst allt í lagi því að það gerir það enginn annar heldur, hvort sem það eru danir eða einhverjir aðrir. Það hefur virkað fínt að kinka kolli öðru hverju. Hann Vagn vinnur svo hratt að ég á í mesta basli með að ná í skottið á honum. Hann er ótrúlegur,ég sé hann í rauninni aldrei vinna, pósturinn hverfur upp í hillur, hverfur niðri í tösku, hann er Harry Potter póstsins. Ég þarf að hafa mig alla við til að hann þurfi ekki að bíða helminginn af deginum eftir mér. En svona er þetta, maður biður um að komast í form og fær Harry Potter póstsins sem einkaþjálfa.

Friday, July 22, 2005

TV

Ég er búin að fatta ástæðuna fyrir þessari trylltu vinnugleði í manninum mínum síðan við komum hingað. Við erum nefnilega sjónvarpslaus! Svona virkar þetta víst , ekkert sjónvarp og maðurinn minn fer út í garð að smíða skóhillur úr eldiviðnum. Þá vitið þið það dömur!
Eini mínusinn við framtakssemina í honum er sá að ég þarf alltaf að vera hjálpa honum við eitthvað, halda í málbandið og sv.frv. Og ég er alltof þunglynd og löt til þess. Það er ekki á allt kosið í þessu lífi.

Wednesday, July 20, 2005

innflytjendablús

Haldið að það hafi ekki rignt á mig í dag! Ég var bara stórhneyksluð, danska rigningin hefur sýnt þá tillitsemi hingað til að láta sjá sig eftir að ég er búin í vinnunni eða á nóttunni. En þetta er svo sem ekki slæmt, ég er búinn að vinna tæpa mánuð og það er fyrst að rigna á mig núna. Ég er öll að hressast líkamlega, tek varla eftir brekkunni og það eru að koma í ljós vöðvar undan appelsínuhúðinni(ég hefði aldrei trúað þessu). Sef mikið minna og ét ægilega hollan mat. Svo er ég búinn að ná góðri vaxtarræktarbrúnku á handarbökunum.
Ég er búin að greina mig með innflytjendaþunglyndi, ég er búin að vera svo einmana og með heimþrá. Þetta er víst eitthvað sem allir fá við að skipta um land. En ég var náttúrulega með félagslíf á við 12 manns heima á klakanum þannig viðbrigðin eru kannski dáldið svakaleg. En það eina sem maður getur gert í stöðunni er að kyrja meira og keep busy. Fór t.d í gær til Jóhönnu plastfrænku í mat, það var rosa skemmtilegt. Ég þarf að gera meira af svona hlutum.

Tuesday, July 12, 2005

Heitara í dag en í gær

Í dag var hægur dagur, ég er farinn að skilja afhverju allt gengur hægt fyrir sig í heitum löndum, það er einfaldlega ekki annað inn í myndinni. Ég reyndi að bera voða hratt út í dag en það var ekki sjens, skrokkurinn sagði bara nei. Ég fékk að bera út hjá forsætisráðherranum, ég held að hann hafi ekki verið heima, hann svaraði allavegana ekki dyrabjöllunni. Ég lenti í hundi í dag og það endaði með að ég þurfti að biðja eigandann að fjarlægja hann, hann hleypti mér ekki út. Þetta er rosalega óþægilegt, hann urraði og gelti eins brjálaður og ég þorði ekki að snúa baki í hann og stinga hann af. Ég var hrædd um að hann myndi bíta mig í rassinn.
Plúsinn við að bera út í svona hita að það keppast allir við að bjóða manni eitthvað kalt að drekka. Það var kona sem gaf mér ísvatn í dag og bjargaði lífi mínu. Rosalega indæl kona, ég skal sko kyrja fyrir henni. Ég er ægilega dösuð eftir daginn, ég nenni akkurat ekki neinu. Maðurinn minn er á útopnu smíðandi skóhillur út í garði, ég skil ekki hvernig hann getur þetta. Ég ætla að kíkja á ströndina á morgun eftir vinnu og gá hvort það virkar eitthvað betur. Það má alveg fara að rigna bráðum.

Monday, July 11, 2005

Heatwave

Hitabylgjan er í fullum gangi, 30 stig á daginn og 18 stig á nóttunni. Ég átti í vandræðum með að sofa í nótt, þó með alla glugga opna. Þetta er samt farið að venjast aðeins, ég er hætt við að segja upp hjá póstinum vegna veðurs.
Ég er á hraðri framabraut í póstinum, átti að fá að bera út póst hjá Fogh forsætisráðherra þessa vikuna en það klikkaði aðeins í morgun. Kannski fæ ég gera það á morgun, segið svo að maður sé ekki að meika það í lífinu!
Fór með Betu í bæinn á laugardag og við áttum hið skemmtilegasta systrakvöld. Svo fórum við hjónin og hún í bíó á War of the worlds. Ég hef ekki farið á svona spennandi mynd í mörg ár, ég vissi ekki hvert ég ætlaði, nagaði allar neglur niður í kviku og kleip manninn minn þess á milli. Cruisarinn var bara frábær í þessari mynd og stóð sig virkilega vel. Endirinn var dáldið antiklimax miðað við heildina en ég mæli með henni.
Svo fórum við í grillpartí til Lóu mágkonu og hún var með íslenska rollu í boðstólum. Alltaf er rollan góð. Ef þið keyrið á rollu í sumarfríinu þá megið þið endilega senda mér.

Friday, July 08, 2005

Andsk,helvítis,djö!!!!

Djöfull er ömurlegt að vera póstberi í 24 stiga hita. Ég svitnaði lítrum í dag, ég veit ekki hvaðan allt þetta vatn kom. Jörðin vöknaði þar sem ég stóð, það hefði verið hægt að virkja mig. Þetta er kannski hugmynd fyrir Landsvirkjun,lífræn svitavirkjun í staðinn fyrir að drekkja Íslandi. Sniðugt! Ég á að vinna á morgun og það á að vera heitara ef eitthvað er. Ég meika þetta ekki!

Thursday, July 07, 2005

Ásdís massi

Jæja,menn eru farnir að kvarta yfir að ég bloggi ekki nógu mikið. Ég verð víst að gera eitthvað í því. Ég er bara búinn að vera svo þreytt eftir vinnuna að ég hef ekki meikað að skrifa. Póstútburður í Danmörku er einfaldlega sú mesta töffaravinna sem ég hef lent í. Ég er með krónískar harðsperrur út um allt, alltaf! Ég er algjörlega búinn eftir vinnuna þegar ég kem heim á daginn. Ég er búinn að vinna þarna í 10 daga núna og ég finn að skrokkurinn er að taka aðeins við sér, þetta er að verða aðeins léttara. Ég hafði meira að segja brekkuna á leiðinni í vinnuna í dag án þess að stoppa. Ég verð eins og Magga steri eftir 3 mánuði, þarf að kaupa 2 sæti í flugvélum af því að ég verð svo herðabreið:). Ég fékk reyndar snilldarhugmynd í dag þegar ég var að bera út póst í tuttugasta og sjötta stigaganginn(nb danir trúa ekki á að hafa póstkassa niðri á 1.hæð, það virðist vera einhvers konar guðlast). Ég fór að pæla í að það er fullt af fólki á Íslandi að borga formúgu fyrir einkaþjálfun í hverjum mánuði, ég get skipulagt pakkaferðir fyrir þetta fólk og það getur komið og borið út póst með mér. Það getur verið í pósteinkaþjálfun hjá mér og fengið laun fyrir það(ég fengi að vísu prósentur, selvfölgelig). Póstburður þjálfar allt sem þjálfa þarf, t.d
Þolþjálfun: Klukkutíma hjólatúr til og frá vinnu(upp brekkuna miklu, svínvirkar) + að hlaupa undan hundum
Axlir,handleggir, bak: Bera pósttöskur og kassa og henda 30 kílóa pósthjóli inn og útúr bíl
Rass og læri: Hlaupa upp 40 stigaganga á dag,það ætti að duga
Svo verður fólk svo þreytt eftir daginn að það nennir ekkert á Strikið eða tívolí að eyða peningum.
Er þetta góður díll eða hvað? Áhugasamir hafi samband hið fyrsta!

Tuesday, June 28, 2005

Fyrsti dagurinn í vinnunni búinn! Þetta var alls ekki eins erfitt og ég hélt en vandamálið er hitinn. Ég brann á enninu og handleggjunum þrátt fyrir sólkrem. Það er langerma skyrta og derhúfa á morgun til að hlífa húðinni. Ég verð í þjálfun hjá honum Martin Frandsen út vikuna sem er hinn skemmtilegasti gaur.:)
Vitið þið hvað? Rúmið kom í dag og það er ggeeeeeeððððveikt þægilegt. Þetta rúm er hverrar krónu virði!

Friday, June 24, 2005

Pósturinn Ásdís og kötturinn ?

Ég er komin með vinnu, nananananaanana!!! Djöfull er það æðislegt. Ég byrja hjá Post Danmark á þriðjudaginn, verð í hlutastarfi í júlí og svo fastráðning og fullt starf í ágúst. Ýhhaaa!
Þetta er mjög erfið vinna líkamlega þannig að ég kemst kannski í form í fyrsta skipti á ævinni. Ég er nú búinn að vera að plana það að koma mér form frá fæðingu. Ég er með B.A gráðu í að hugsa um hvernig ég ætla að koma mér í form en framkvæmdin hefur verið lítil sem engin. Kannski gerir Post Danmark fyrir mig það sem ég get ekki gert sjálf.
Ég er ógeðslega lukkuleg með hverfið sem ég bý í, það er stöðuvatn rétt hjá og æðislegt útivistarsvæði, svo er Kringlan í 5 mín fjarlægð. Ég þarf ekki að fara niður í bæ til þess að gera neitt í rauninni. Svo get ég hjólað í vinnuna(upp brekkuna reyndar) en ég neita að láta það fara í taugarnar á mér.
Það hefur verið geggjað veður síðastliðna daga og jarðaberjatíminn í Danmörku er í full swing. Ég borða jarðaber í öll mál(nema í gærkvöldi, það er ekki hægt að blanda jarðaberjum við hakk og spagettí, svo vel fari).
Ég held að ég fari bara á ströndina núna:)

Thursday, June 23, 2005

Brekkur!

Það er alls ekki gott að flytja í 25 stiga hita eins og við gerðum á mánudaginn. Ég rifja það alltaf upp þegar ég flyt, hvað það er rosalega leiðinlegt að flytja. Og svo í svona miðjum flutningum þá hata ég það virkilega og strengi þess heit að ætla aldrei að flytja aftur. En svo gleymi ég þessu þangað til næst. Það er rosa gott að vera kominn í sitt eigið og það er ekki reimt í húsinu þannig að ég sef fínt fyrir utan það að minn heittelskaði tekur of mikið pláss í rúminu. Við erum að bíða (ennþá) eftir fína Tempur rúminu og erum að sofa í alltof litlu rúmi núna. En vonandi kemur nýja rúmið á morgun eða laugardag.
Ég fór í atvinnuviðtal áðan hjá Post Danmark og mætti degi of snemma alveg óvart. Þannig að ég á að mæta aftur á morgun. Ég er mjög súr yfir einu, það er brekka á leiðinni í þessa vinnu. Þannig að ef ég fæ þessa vinnu þá þarf að hjóla hana á hverjum degi. Ykkur finnst þetta kannski dáldið fáránlegt en það eru bara 3 brekkur í Danmörku, það er brekkan hjá dýragarðinum, hæsta brekka Danmerkur, Himmelbjerget og svo er þessi sem ég var að kynnast í dag. Ég hélt með því að flytja til flatasta lands í heimi þá þyrfti ég ekki að hjóla upp brekkur næstu árin. En nei, svona er brekkukarmað mitt!

Friday, June 17, 2005

Gsm:60677811

Það var mikið! Ég hélt að þetta ætlaði ekki að hafast, djöfull er búið að vera ömurlegt að vera gemsalaus. Núna er ég kominn í siðmenninguna aftur. Við hittum leigusalann í dag og við fáum að flytja inn á mánudaginn.
Guð sé lof! Giftu fólki um þrítugt er ekki ætlað að flytja aftur inn á foreldra sína eða tengdaforeldra. Alveg sama hversu nice tengdaforeldrarnir eru, það er bara ekki gott. Þetta stríðir örugglega gegn einhverju náttúrulögmáli. Mig hlakkar svo til að koma dótinu fyrir og hreiðrast aðeins. Ég hlakka til að búa þarna, þetta er virkilega flott íbúð.
Það er sólskinshelgi framundan hjá okkur, ég ætla að flatmaga í sólinni um helgina.
Gleðilega þjóðhátíð

Tuesday, June 14, 2005

Buddinge vej 60 , Lyngby

Þá er heimilið komið, við fáum íbúðina sem við skoðuðum í dag. Nýstandsett,78 fm 2 herbergja á efri hæð í einbýlishúsi,fáum afnot af stórum garði og verönd, þvottahús í kjallara og svo er stutt í búð og lest niðri í bæ. Svo síðast en ekki síst þá er ekki langt í hana elsku Betu stórusystur,hún er í hjólafæri. Svo er líka stutt í dönskukúrsinn minn og skólann sem mig langar í eftir tvö ár. Það mætti halda að það sé einhver annar að skipuleggja þetta en ég, ég hef ekki svona gott ímyndunarafl. Við hjónin erum nú bara helvíti dugleg, ég hef nú ekki heyrt margar sögur af því að fólk reddi sér íbúð og vinnu á 8 dögum í Kaupmannahöfn, núna þarf ég bara að fá vinnu og þá er þetta orðið alltof gott til að vera satt.
Ég er svo hrikalega áttavillt hérna að það er eiginlega bara fyndið, ég á bágt með að muna hvort ég er að koma eða fara. Það eina sem ég veit að ég er í Köben...einhversstaðar! Svo hringi ég yfirleitt í minn heittelskaða og hann segir mér hvert ég á að fara:)
Við fengum búslóðina í dag og tróðum henni inn á gafl hjá tengdó, það var gaman að sjá dótið sitt aftur og þá sérstaklega hjólið! Ég fór og búddaðist í kvöld, danskir búddistar eru mjög fallegt fólk upp til hópa og kemur mjög vel fyrir. Ég hlakka til að kynnast þeim betur.
Planið á morgun er að fara með Betu að sálgreina tígrisdýrin í dýragarðinum og fara svo í yoga.
Gott plan!

Monday, June 13, 2005

240876-4230

Ég fékk nafnnúmer í dag og fékk að stofna bankareikning í Nordea Bank og ég þurfti bara að bíða í viku. Svo er gemsanúmerið víst á leiðinni þannig þetta er allt langt fram úr væntingum
Það er ótrúlegt hvað bankareikningur getur gert fyrir andlega líðan. Mér líður bara næstum því eins og ég eigi heima hérna. Ég fór í mollið í dag og eyddi fullt af peningum í föt vegna þess að það var rigning og það var ekkert annað að gera. Ég vona að það rigni ekki mikið meira í sumar, því að þá verð ég fátæk.
Gleðifréttir! Minn heittelskaði fékk vinnu í dag, hann er að fara að vinna á ungdomsklub í Rødovre. Svo erum við að fara að skoða íbúð á morgun og og sækja búslóðina. Svo er ég að fara að búddast annað kvöld og fæ að kynnast dönskum búddum. Nóg að gera!
Nam mjó hó renge kjó

Friday, June 10, 2005

Góður dagur!

Ég er búinn að vera í brúðkaupi í allan dag, Lóa systir hans Anders var að gifta sig. Mjög flott og intimat brúðkaup og ég snökti í athöfninni , hún var svo falleg. Ég er mikið viðkvæmari fyrir brúðkaupum eftir að ég gifti mig sjálf. Það er eitthvað við brúðkaup sem gerir mann svo ægilega glaðan og maður er glaður í viku á eftir.
Ég og minn heittelskaði sættumst á rúm og versluðum það í gær. Ég var voða bjartsýn og hélt að ég fengi að lúlla í nýja Tempur rúminu um helgina. En nei, þá kom til kasta náttúrulögmálið "það tekur allt 14 daga í Danmörku". Það tekur 14 daga að flytja rúmið á milli Óðinsvé og Köben, þeir fara kannski með þetta í hestvagni! Hver veit!
Ég sótti um 6 vinnur í gær, ægilega dugleg.
Veðrið er ekkert spes og verður það ekki næstu daga:(

Wednesday, June 08, 2005

Ásdís lestasvindlari!

Ég féll á danska samgönguprófinu í dag, ég var gripinn af eftirlitsmanni af því að ég hafði óvart borgað of lítið í lestina. Hann ætlaði að sekta mig um 4500 kall íslenskar en hann sá aumur á mér þegar ég útskýrði að ég væri stupid innflytjandi sem ætti ekki að fara út úr húsi án eiginmannsins. Hann fílaði slíka auðmýkt í tætlur og veitti mér áminningu en ég slapp við sekt. Hjúkk!!
Fór til systur minnar í morgun og hún hannaði starfsferilsskrána upp á nýtt á dönsku. Ég er með svo flotta starfsferilsskrá núna að menn þurfa að vera vanheilir á geði til að ráða mig ekki. En ég veit svosum ekkert um almenna andlega heilsu Dana, það verður bara að koma í ljós.
Geðveikt veður í dag og ég er bara að segja það til að svekkja ykkur:)

Tuesday, June 07, 2005

Í Danmörku tekur allt tvær vikur!

Þetta er nýtt mottó sem ég er að reyna að tileinka mér, það tekur allt alveg ógurlega tíma hérna og öllum virðist vera sama(nema mér af því að ég er snarbrjálaður íslendingur). Það tekur 8 daga að fá GSM númer,
8 daga! . Ég skil ekki hvað símafyrirtækið er að gera, kannski er það að handsauma símanúmerið í símakortið.
Það er búið að vera fínt veður í dag, meira segja í hlýrra lagi og svo fór ég í danskan súpermarkað og það gladdi mitt níska hjarta. Þar fékk ég: (eftirfarandi listi er í íslenskum)
rjómapeli: 60 kr
500 gr nautahakk: 260 kr (ekki einu sinni á tilboði)
kartöflur 2 kg : 100 kr
afskorin blóm(mjög flott) :220kr
Múhahahahaha!!!!
Lífið er gott í baunalandi!

Monday, June 06, 2005

Meee!

Fyrsti dagurinn í Baunalandi gekk ágætlega fyrir sig, ég skráði mig inn í landið og svoleiðis. Ég er að reka mig á það að það gerist allt hægar hér í kerfinu en á Íslandi en það mátti svosum alveg. Það var ágætis veður í dag nema að það var dáldið kalt á dönskum mælikvarða, svo kom suddi seinni partinn. Minn heittelskaði strunsaði með mig út um allan bæ til að skoða rúm, við fundum nokkra góða kandidata. Ég smakkaði furðulegan hlut í dag, rúnstykki með kjötbollu, rauðkáli, súrri gúrku og salati. Alls ekki vont en skrýtið! Bara Dönum dettur í hug svona samsetning. Ég finn að ég er strax farin að afíslenskast, ég er orðin rólegri og ég fæ nískuköst öðru hvoru. Ég verð orðinn ligeglad og nískari en andskotinn áður en haustar!
Ég rölti með Betu systur niður strikið og við nískuðumst saman. Þetta er orðið svo alvarlegt á fyrsta degi að ég bauð henni út að borða á pizzahlaðborð sem kostaði 49 kall (=ekki neitt). En hún er búinn að vera hérna svo lengi að henni fannst það allt í lagi. Hún er löngu orðin nísk.

Sunday, June 05, 2005

Baunaland

Er mætt til baunalandsins og finnst það dáldið absúrd. Það er merkilega aðstaða að hafa engan fastann punkt í lífinu, ég þarf ekki að vera neins staðar í vikunni ,ekkert plan. Ég sakna vinnunnar minnar fyrrverandi dáldið enda alveg frábær vinnustaður og og yndislegir vinnufélagar. Ég veit ekki hvort er hægt að gera betur í góðum móral og frábærum vinnufélögum, ég er spennt yfir því hvort Danmörk geti boðið betur á því sviði.
Þetta er búinn að vera skelfilegur tryllingur að koma sér frá Íslandi síðastliðna daga, ég missti algera stjórn á streitunni . Það var ekki fyrr en ég var kominn út á völl í dag að ég fór að slappa af. Ég kvaddi ekki alla eins og ég vildi og kom ekki öllu í verk sem ég ætlaði mér, reyndar var markið sett hátt og það hefði þurft fjórar Ásdísar til að klára þetta allt saman. Svona er fullkomnunaráráttan skemmtileg.
Bráðabirgðaplan vikunnar er að hanga í dýragarðinum, sækja um vinnur og chilla, meira veit ég ekki.
Þetta reddast einhvernveginn!
P.S Það er skýjað og rigning, þvílíkt hneyksli!

Thursday, June 02, 2005

Now there wont do any mitten-takes!

Ég týndi æðruleysinu mínu í gær og ég lýsi hér með eftir því. Ég er að tryllast úr stressi yfir öllum hlutunum sem ég þarf að gera áður en ég fer. Þetta var kannski full mikil bjartsýni að vera vinna fulla vinnu fram á síðasta dag og svo er ég búinn að bóka mig aðeins of mikið seinustu dagana. Ég og tímastjórnun eigum ekki saman þessa dagana en það er alltí lagi. Ég verð bara að massa þetta aðeins minna en ég ætlaði að gera. Ég er líka mjög illa sofin, fer seint að sofa og vakna kl 6 á morgnana útaf birtunni. Ég get ekki beðið eftir því að stíga upp í flugvél á sunnudaginn, það verður spennufall ,ég sofna örugglega og gleymi að fara út í Köben og enda í Hamborg. Jæja nóg af væli, ég var í æðislegu kveðjukaffihúsapartíi í gær, rosalega var gaman. Ég þekki alveg stórkostlega skemmtilegt fólk enda er ég nú ekki leiðinleg sjálf hahahahahaha. Mér finnst líka notalegt að vera hjá mömmu, ég fæ mömmumat á færibandi sem er ekki slæmt.

Monday, May 30, 2005

Kakósúpa er ekki matur!

Ég er dálítið óþolinmóð þessa dagana, við erum búin að pakka niður búslóðinni og skilum íbúðinni af okkur á morgun. Það er tæp vika og ég vil eiginlega drífa þetta af en samt ekki. Ég átti frábæra helgi, var með kveðjupartí fyrir saumaklúbbinn á föstudaginn , fór í innflutningspartí hjá Lindu á laugardagskvöldið og svo matarboð hjá góðum vinum okkar Gísla og Auju í gærkvöld. Svo fór seinasta vika í kveðjukaffihúsaferðir, ég var mjög góður viðskiptavinur á Kaffi Nauthól. Það var mjög gaman hjá Lindu á laugardaginn , hún á heiður skilinn fyrir skemmtilegt partí, það var líka gaman að hitta allt hitt fólkið sem hún umgengst.
Mér finnst dálítið leiðinlegt að kveðja fjölskyldu, vini og vinnufélaga en það er samt mjög jákvætt að hafa svona mikið af skemmtilegu fólki til að kveðja. Það væri ekkert sérlega sniðugt ef allir væru rosa fegnir að losna við okkur:)
Ég er súr útí mötuneytið í dag, það er kakósúpa í matinn. Það er ótrúlegt að kakósúpa og tvíbökur skuli teljast matur í dag.

Wednesday, May 25, 2005

Gott líf!

Lífið er fallegt í dag, það er reyndar alltaf jafnfallegt en suma daga tek ég ekki eftir því. Oftast er það vegna þess að ég er föst inní rassgatinu á sjálfri mér, veltandi mér uppúr því sem ég hef ekki í staðinn fyrir það sem ég hef. Ég sé ekki hvað lífið er dásamlegt þar , það er dimmt þarna inni, þið skiljið!
Ég er gífurlega gæfusöm og þakklát fyrir allt stórkostlega fólkið sem ég þekki og nennir að umgangast mig. Mig skortir ekki neitt og lífið er æði. Mér þykir vænt um ykkur!

Tuesday, May 24, 2005

Rúv og Stalín - góðir félagar!

Ég er búin að eiga mjög skrítin samskipti við RÚV undanfarnar vikur. Ég var mjög hissa þegar ég var að segja upp áskriftinni(nauðungarskattinum) því þeir vildu kvittun af farseðlinum mínum eða farmskrá sem staðfestingu að ég sé að fara úr landi. Ég meina! ætla þeir að fylgja mér upp í flugvél til að tryggja að ég sé örugglega að fara. Þetta er mega paranoia! Ég ákvað að vera kurteis, senda þeim staðfestinguna og sagði upp frá og með 31.maí(skila íbúðinni þá og fæ að lúlla hjá foreldrunum þangað til ég fer). Svo fékk ég póst frá þeim í dag sem er þessi:

Sæl,

Hvert flytur þú þá? ef þú flytur inná heimili þar sem annar aðili greiðir afnotagjaldið þá þurfum við að fá nafn hans og kennitölu svo hægt sé að fella niður afnotagjald þitt. Ath. niðurfelling miðast við að þið hafið sama lögheimili.

Ég skil þetta þannig að þeir vilji vita hvar ég er niðurkomin frá 1-5.júní(flýg þá). Ég geri ráð fyrir að þeir vilji koma í veg fyrir að ég sé að horfa á sjónvarpið MITT heima hjá foreldrum mínum og fá að rukka mig fyrir þessa 5 daga sem um ræðir. Upphæðin eru heilar 450 kr (2.705/6=). Mér finnst þetta aðeins of langt gengið. Ég vissi að RÚV ætti bágt fjárhagslega en ekki svona. Þeim kemur ekki við hvar ég sef á næturnar. Það er svona einhver rússneskur Stalínfílingur í þessu. Það er alveg gífurlega freistandi að segja þeim að fara í rassgat en ég finn bara svo til með starfsfólkinu þarna. Það heyrir örugglega "farðu í rassgat" og þaðan af verra 5 sinnum á dag. Ætli ég leysi þetta ekki þannig að ég afhendi ónýta sjónvarpið mitt 31.maí , þá geta þeir ekki sagt neitt. Við ætlum að kaupa nýtt sjónvarp í Danmörkinni múúúhahahahahahahahaha!

Monday, May 23, 2005

Meira feitt fólk í Eurovision!

Rosalega er Eurovision skemmtileg, jafnvel þegar hún er skítléleg eins og hún var núna með örfáum undantekningum. Ég var sátt við Dani(að sjálfsögðu:), Norðmenn og síðan sérstaklega Möltu. Flott lag og feit kona, það er eitthvað sem sést ekki í Eurovision í dag. Mér fannst hressandi að sjá konu sem var ekki stereotýpan(43kíló,sæt,í stuttu pilsi, flegnum bol og getur varla sungið) Gott hjá henni!! Hún Selma okkar stóð sig ágætlega en skar ekki úr að mínu mati nema að því leyti að hún var með verri stílista en hinar. Það voru hreinlega of mörg svipuð lög í keppninni. Ég skildi þetta ekki með grísk-sænsku stelpuna sem vann, hún var ekki með neitt spes lag. En frekar hún en drengirnir frá Lettlandi, þeir voru alveg agalegir.
Ég er búinn að vera pakka niður dóti í dag, ógeðslega dugleg. Því oftar sem ég flyt því auðveldara er að henda dótinu mínu, t.d þá tímdi ég að henda í dag spennugjafanum sem ég smíðaði þegar ég var 18 ára í grunndeild RAF. Ég meina come on! hvað get ég notað 30v spennugjafa í? ég held reyndar meira að segja að hann virki ekki. En svo reyndi ég að gefa Ísfólkssafnið mitt sem ég hef ekki lesið síðan ég var 15 ára en ég fékk það ekki af mér.
Kannski í næstu flutningum.

Ég og minn heittelskaði Posted by Hello

Sunday, May 22, 2005

Niðurtalning!

Í dag eru tvær vikur þangað til við flytjum út. Þetta er búið að líða rosalega hratt, eiginlega alltof hratt. Ég ætla að halda úti þessu bloggi næstu mánuði svo vinir og vandamenn geti fylgst með danska menningarsjokkinu með mér. Ég er farin að hlakka til að fara núna þó að ég eigi eftir að gera milljón hluti áður en ég fer. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að fara að því að kveðja alla sem mér finnst ég þurfa að kveðja. Það vantar auka 20 tíma í sólarhringinn.
Ég var í enn einu nostalgíukastinu í dag, var að horfa á Esjuna og pæla í hvernig ég ætti að koma þessu flotta fjalli með til Danmerkur. Danmörk er frábær að mörgu leyti en það vantar allt sem heitir landslag í þetta land! En það er nóg af trjám þannig að þau verða að duga, svo er nú stutt til annara landa.

Loksins!

Jæja nú er komið að því!