Thursday, September 29, 2005

Vinnan mín er svo friðsæl, ég held að ég hafi aldrei verið í vinnu þar sem er svona mikil ró og friður. Ég tek varla eftir því að ég sé að vinna, ég er bara að spjalla allan daginn. Ég er ægilega ánægð með þetta enn sem komið er.
Ég hef tekið eftir því að hér er mikið fleira eldra fólk á ferli en heima og hef verið að pæla afhverju. Ég held að það sé útaf því að hérna dettur engum í hug að vinna fram yfir sextugt og svo er það bara að dingla sér. Íslendingar taka þetta aðeins öðruvísi, þeir hætta útkeyrðir 67 ára með sjöfalt brjóstklos, með slitgigt og líkþorn á öllum tám. Talandi um Ísland þá ætla ég að heiðra klakann með nærveru minni frá 29.nóv til 5.des. Þið getið byrjað að hlakka til núna!
Annars er ég dáldið heltekin af jólaföndri þessa dagana, mig hlakkar geðveikt til jólanna. Ég fann þessa fínu handavinnubúð niðri í bæ og stefni á að eyða peningum þar eftir helgi.

Monday, September 26, 2005

Ég og Sigga tækluðum restina af flóamarkaðnum í gær og komumst að því að við erum stórhættulegar saman. Það er gífurlega efnahagslega óhagkvæmt fyrir okkur að versla saman, við töldum hvor annari trú til skiptis um að þetta væri algjörlega nauðsynlegt sem okkur langaði í og þetta væri nú svo ódýrt!! Það er kominn halli á fjárlögin eftir þessa ferð. Svo fórum við í bíó í gærkvöldi á Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna, Johnny Depp er svo frábær í þessari myndi, mæli með henni. Er að pæla að skipta um au pair, sigga er ekki búin að vaska upp einu sinni síðan hún kom! Þetta er engin frammistaða.

Saturday, September 24, 2005

fló!

Loksins er uppvaskari nr.2 kominn, Sigga vinkona átti í mestu vandræðum með að komast útúr Svíþjóð í dag vegna verslunaráráttu(ekki hennar samt!). Við fórum beint á risaflóamarkað, hann var það stór að við komumst bara yfir 1/3 í dag og ætlum að gera aðra atlögu á morgun. Við fórum á dáldið föndurfyllerí og fylltum á lagerinn fyrir jólaföndrið. Svo fórum við á tíbetskan veitingastað og borðuðum afar góðan mat. Það er búið að vera geðveikt veður í dag 20 stiga hiti og yndislegheit. Ég ætti kannski alltaf að vera með gesti,sólin virðist skína þegar það sefur einhver í stofunni hjá mér.

Thursday, September 22, 2005

Ódýrt!

Ég er komin með dáldið danskt verðskyn núna en það er tveir hlutir sem ég missi mig algjörlega ennþá yfir. Það eru slúðurblöð og kjöttilboð. Ég kaupi slúðurblöðin bara vegna þess að þau eru fjórum sinnum ódýrari hérna en heima. Ég græt líka yfir kjöttilboðum í stórmörkuðum vegna þess að ég á svo lítinn frysti. Ég verð algerlega vitstola þegar ég sé 10 kjúklinga á 1600kr íslenskar og ég get ekki keypt þá út af frystinum. Ég ætti kannski að vera þakklát fyrir litla frystinn minn annars ætti ég heila nautgripahjörð og kjúklingabú í frystikistunni. Núna verð ég allavegana að éta úr frystinum til að búa til meira pláss.
Vinnan er mjög skemmtileg, hitti fullt af krúttlegu fólki og er komin heim kl 15 á daginn. Svo vinnur maður bara 35 tíma. Ekki slæmt!
Sigga vinkona kemur á laugardagsmorgun og svo málum við bæinn rauðan um helgina.

Monday, September 19, 2005

Vinnan lítur vel út, þetta er voða rólegt og afslappað. Ég fæ nýtt hjól(meira að segja flott merki),hjálm, bakpoka,regnföt og endurskinsmerki, það á sko ekkert að koma fyrir mig í umferðinni. Mér líst mjög vel á fólkið þarna ,góður mórall og svo framvegis.
Svo fíla ég bara eldra fólk, mér finnst æðislegt þegar fólk gerir nákvæmlega það sem því dettur í hug þó að það sé komið á aldur. Aldís vinkona á ömmu sem stingur af ein til Kína þegar henni dettur það í hug.

Friday, September 16, 2005

Skemmtilegheit

Rosalega borgar sig að vera skemmtilegur. Ég fékk vinnu í heimahjúkrun, byrja á mánudag kl.8. Það verður gott að hafa reglulegan vinnutíma.

Thursday, September 15, 2005

Barnalán!

Það hrynja inn börnin þessa dagana, María systir hennar Siggu var að eignast litla stelpu, Goggi var að eignast strák og svo má ekki gleyma Britney Spears sem var að eignast strák í vikunni. Ægileg hamingja! Talandi um börn, þá hef ég verið að vinna á leikskóla í afleysingum í vikunni. Ég hef bara ekki upplifað eins erfiða viku ever. Ég tala nefnilega ekki barnadönsku og þau horfa bara á mig eins og ég sé fáviti. Það kom ein lítil til mín um daginn og sagði að hún þyrfti að búa til pulsur. Ég fatta ekki neitt og það tekur mig heillangan tíma að fatta að barnið ætlar að fara á klósettið að kúka. Þetta kenna Danir börnunum sínum "að búa til pulsur"!!! Hvað er eiginlega að þessu fólki? Ég er búinn að missa varanlega lyst á pulsum.
Ég hef verið að pirrast yfir hvað atvinnuleit gengur hægt en ég fékk mjög áhugavert svar við umsókn um daginn. Í bréfinu stóð að ég hefði semsagt ekki fengið starfið og það hefðu 196 manns sótt um starfið. Ég tek það fram að starfið var aðstoðarmanneskja á leikskóla. Ég finnst það bara ekkert skrýtið núna að ég hafi ekki fengið starfið. 196 manns! Það ætti kannski að láta Dani vita að það er mannekla á íslenskum leikskólum!
Ég fór reyndar í viðtal í morgun og ég er nokkuð pottþétt um að fá vinnuna, ég var svo rífandi skemmtileg í viðtalinu þó að ég segi sjálf frá. Ég fæ að vita það í fyrramálið.
Uppvaskarinn minn fór heim í morgun,sniff. Núna verð ég að gera eitthvað í eldhúsinu sjálf. En þetta er allt í lagi, það er tæp vika í næsta uppvaskara.

Wednesday, September 14, 2005

Himneskt!

Ég og uppvaskarinn minn fórum í dekurbað í dag í Frederiksbergs sundlauginni. Við vorum þar í 3 tíma og þetta var svo gott. Það var heitapottur með nuddi, saltvatnspottur, nuddsturtur, sítrónugufa, myntugufa,olíuböð, nuddstólar og ég veit ekki hvað og hvað. Síðan endaði maður sæluna með því að skrúbba sig allan uppúr olíu og salti. Það er mjög erfitt að slaka svona mikið á, ég er alveg búin á því!

Sunday, September 11, 2005

Dejlig weekend

Minn heittelskaði bauð mér út að borða á föstudagskvöldið á japanskan veitingastað og þar fékk ég það rosalegasta sushi sem ég hef smakkað. Ég man bara ekki eftir því að hafa orðið svona agndofa yfir mat áður, sushiið var svo gott að ég var hreinlega hissa. Hver biti var opinberun! Ég fer þarna pottþétt aftur
Svo var mér boðið í grill á laugardagskvöldið hjá gömlum björgunarsveitarfélögum( ekki það að við séum eitthvað gömul, heldur er bara langt síðan við byrjum í björgunarsveitinni). Þekkjandi mína menn ágætlega, þá mætti ég með ananas á grillið svo að það væri eitthvað jurtakyns að borða og bjargaði þeim þar með frá skyrbjúg. Salat og annarslags græn vitleysa er nefnilega bara fyrir kellingar! Hvað er þetta eiginlega með menn og kjöt og svo konur og salat!
Svo var kvöldinu eytt útí garði við gítarundirspil og rifjaðar upp gamlar fylleríssögur og skandalar sem maður er sem betur fer löngu hættur að gera. Ég vona það allavegana. Þetta var rosalega notalegt kvöld og ég náði að halda mér vakandi fram yfir miðnætti sem er mjög öflugt af minni hálfu.

Friday, September 09, 2005

Au pair

Ég er að fatta hagkvæmni þess að hafa gesti, Linda er búin að vera vaskandi upp síðan hún kom sem mér finnst alveg æðislegt. Ég er eiginlega dáldið leið yfir því að hún fór til Þýskalands, núna þarf ég að vaska upp sjálf. Svo kemur Sigga eftir tvær vikur og ég læt hana ryksuga líka. Svo þarf hver gestur eftir það að toppa það sem síðasti gerði. Það verður þá ægilega hreint hérna um jólin!

Thursday, September 08, 2005

Letidýr!

Það er komið sumar aftur í Danmörku, 24 stiga hiti í dag. Ég og Linda vorum að kafna og gerðum fátt lítið af viti nema að sitja á kaffihúsi og sólbrenna. Reyndar fórum við í siglingu en það var bara af því að við gátum setið á rassgatinu. Það er alveg brjálaður gestagangur, tengdó kom í dag og Bjartur kemur á morgun. Nóg félagslíf framundan sem er ekkert nema sniðugt.

Sunday, September 04, 2005

Dönskuséní!

Ég er byrjuð í dönskuskóla og ég er bara nokkuð klár. Öll þessi ár í barna og framhaldsskóla þar sem maður kvartaði mikið undan hverskonar þrældómur það væri að þurfa að læra dönsku eru að skila sér núna. Ég hefði nú aldrei trúað því þá að það ætti einhvern tímann eftir að gagnast mér þetta dönskunám. Ég er alveg þvílíkt heppin, ég sé það að fólk frá öðrum löndum eins og Búlgaríu og Afríku á í alveg svakalegu basli, jafnvel eftir mörg ár í skóla. Ég tek 9.bekkjarpróf í dönsku í nóvember og svo er það stúdentsprófið í vor.
Mér gengur alltaf betur að tala en mig vantar aðallega orðaforðann. Ég verð orðin fín um jól. Talandi um jól þá var ég að heyra að vinkonurnar heima eru að fara að byrja á jólaföndrinu. Það er nú ekki seinna vænna. Ég verð að fara að byrja að sauma út jólakortin fyrir þessi jól. Það fengu færri en vildu á seinasta ári vegna framleiðsluleysis af minni hálfu.
Ég kem ekki heim um jólin, jólin verða víst dönsk þetta árið mínus snafs og svínasteik.

Thursday, September 01, 2005

Sýndarmennskan í hnallþórunum!

Ég er eiginlega búin að komast að þeirri niðurstöðu að þessi tendens til að baka ægilega mikið af kökum og þrífa allt hátt og lágt þegar ég er með gesti er bara sýndarmennska. Ég er bara hrædd um hvað fólk heldur ef ég geri það ekki og svo vil ég fá klapp á bakið fyrir kökubakstur. Ég vil ekki að fólk haldi að það sé eitthvað að þannig að það verður allt að vera voða fínt á yfirborðinu. En staðreyndin er sú að það er nú yfirleitt drasl hjá mér(nema þegar koma gestir) og heimilislífið mitt er ágætlega heilbrigt. Kannski ætti ég bara hætta að standa í þessu , hafa óhreina þvottinn á sófanum og gefa fólki myglað matarkex og sykurlausan appelsínusvala. En ætli fólk myndi þá ekki hætta að nenna koma til mín!
Það sem ég er að reyna að koma orðum að er að það eru svo margar óskrifaðar reglur sem eru í gangi sem maður hlýðir ósjálfrátt. T.d að vinna nógu djöfulli mikið þá reddast þetta!, borga reikningana á réttum tíma, kaupa hluti sem maður þarf ekki vegna þess að hinir eiga svoleiðis, vera í vinnu sem öðrum finnst flott,eiga fínt heimili, garð,bíl og mann og ég tala nú ekki um börn sem koma vel fyrir út ávið og alls ekki viðurkenna að það sé ekki allt í gúddí inn á heimilinu. Álit annara getur haft gífurleg áhrif á gjörðir manns.
Sem betur fer verður maður frjálsari fyrir þessum hlutum eftir því sem maður verður eldri en ég er greinilega ekki ennþá orðin frjáls fyrir marengstertunum. Svo finnst mér reyndar gaman að baka.