Thursday, October 27, 2005

Lesbíska jólaframhjáhaldið!

Haldið þið ekki að ég sé komin í skemmtinefnd fyrir jólahlaðborðið sem ég ætla ekki á! Ég er snilli, við vorum á fundi í dag, framhjáhaldið var svosum ekki rætt en þetta er örugglega þögult samkomulag um svoleiðis hluti. Reyndar er mjög erfitt að halda framhjá því að það vinnur bara einn karlmaður þarna og hann er næstum því kona. Maður verður þá bara að halla sér að sama kyni. Ég er agalegur pervert í dag, snúum okkur að öðrum æðri og andlegri málefnum. Ég er með skóþráhyggju, er búin að velta mér upp úr því hvort ég eigi að kaupa ákveðna skó í 3 daga. Mér finnst þeir nefnilega dáldið dýrir. Agaleg vandamál í þessu lífi!

Wednesday, October 26, 2005

Það hefur hægst mikið á blogginu hjá mér að undanförnu, aðallega vegna leti og svo líka að ég er komin í rútínu með vinnu og svoleiðis. Ég skrapp reyndar til Svíþjóðar á sunnudaginn í ljósgjöf, Svíþjóð er gífurlega krúttleg, sérlega húsin og svo er svo fyndið að hlusta á fólk tala. Svo var líka ánægjulegt að sjá sjóndeildarhringinn á Skáni. Þessi tré hérna í Baunalandinu koma nefnilega í veg fyrir slíkt. Eins og sönnum íslendingi sæmir þá verð ég að sjá langt frá mér öðru hvoru. Ég átti hálfs árs án sykurs afmæli um daginn og svo er ég búin að vera án brauðs í eina og hálfa viku. Það gengur ótrúlega vel, ég hef aldrei borðað eins flottan mat á ævinni.
Ég fíla vinnuna mína ofboðslega vel, það er mjög góð tilfinning að vinna við eitthvað þar sem ég geri eitthvað fyrir aðra. Það er svona þemavika í dag,við sátum í tvo tíma og diskúteruðum vinnuna og hvað er hægt að gera betur. Við gerðum leikfmi í gær og sungum morgunsöng í morgunsárið. Þið kannist örugglega við þetta, þetta er eitthvað sem háskólamenntuðu fólki í starfsmannahaldi dettur í hug og finnst alveg gífurlega sniðugt.
Mér og minn heittelskaði erum ægilega heppin þetta árið. Við föttuðum að með því að fara til Íslands í nóvember þá sleppum við julefrokostinum í vinnunni. Því að það er víst gömul hefð í Baunalandi að halda framhjá makanum í jólahlaðborðinu. Þannig að við sleppum við hjónaskilnaðinn þetta árið! Hjúkk!
Ég og minn heittelskaði erum einnig að pæla í að flytja út í sveit á næstu árum. Ég væri alveg til í hús út í sveit sem er svona hálftíma til klst frá Köben, hafa eplatré og kartöflur í garðinum, rollur og hænsni og eitt stykki hest. Það er hálfgerð geðveiki að kaupa sér eitthvað innan borgarmarka, við fengum mesta lagi 3 herbergja íbúð á leiðinlegum stað miðað við okkar tekjur. Það þarf líka að nýta þessa bóndamenntun af Hvanneyri sem Anders hefur í eitthvað. Það væri samt best að gera þetta með einhverjum og við eigum slatta af vinum sem hafa áhuga. Þá verður maður ekki alveg eins einmana. http://www.home.dk/sag/201-2933?fromSite=Boligsiden. Hérna er hús sem okkur finnst girnilegt.

Saturday, October 22, 2005

Tuesday, October 18, 2005

Litli prins

Krónprinsinn var sýndur í vikunni í fyrsta skipti opinberlega. Það voru þvílík herlegheit kringum þetta, bein útsending og ég veit ekki hvað og hvað. Mary leit alveg ótrúlega vel út miðað við að hún fæddi barn á laugardaginn En maður hefur víst ekkert val um að líta eitthvað öðruvísi út ef maður er prinsessa. Ég er alveg rosalega skotin í kóngafjölskyldunni, ég er aðeins farin að skilja afhverju það eru 3 tímarit helguð konungsfjölskyldunni í þessu landi. Það er viss glamúr yfir þessu. Ég ætla að kíkja á bókasafnið og finna einhverjar kóngabækur.
Ég held að ég sé að verða dönsk, ég skammaði Anders um daginn á dönsku og svo velti ég því fyrir mér að taka poka með mér útí súpermarkaðinn. Þegar ég geri það einn daginn þá er síðasta vígið fallið.
Mamma átti afmæli á miðvikudaginn og hetjan ég mundi eftir því. Það er svo furðulegt að mér finnst foreldrar mínir ekkert eldast, þau eru búin að vera jafngömul í 10 ár. Móðir mín elskuleg á nú hrós skilið, hún nennti að ganga með mig í níu mánuði og ala mig upp eftir það. Uppeldið var nú stærsta afrekið því ég var nú ekki sú auðveldasta. En hana hefur örugglega ekki grunað hversu skrýtin ég ætti eftir að verða seinna á lífsleiðinni. En það byrjaði ekki fyrr en eftir að hún hætti að ala mig upp, þannig að það er algjörlega á mína ábyrgð.
Ég fór á þá fyndnustu mynd sem ég hef séð í gær "The 40 year old virgin". Hún er kannski komin og farin á Íslandi. Þið verðið að sjá þessa mynd!

Sunday, October 16, 2005

brrrrr!

Það er opinberlega komið haust í Baunalandi og það er skítakuldi. Það er búið að vera brjálað útstáelsi á mér um helgina,var í kveðjupartíi hjá Jóhönnu plastfrænku í gær. Hún er að flytja til Parísar á morgun og ætlar að að sjarmera frakkann upp úr skónum. Svo var ég að föndra með Betu í dag og svo fór ég á fund.
Ég er ekkert smá glötuð, Erna litlasystir átti afmæli í gær og ég gleymdi því. Það er ekki eins og ég eigi margar systur, ég á nú að geta haft stjórn á þessu. Ég vinn víst ekki "Best sister of the year award" þetta árið. Þar fór það! Ég er bara með eina afsökun af viti, danski krónprinsinn fæddist á laugardaginn og mér varð svo mikið um að ég gleymdi Ernu.
Ég er í vetrarfríi í dönskuskólanum þessa vikuna og finnst það mjög ljúft. Ég er ekki alveg að fatta þetta, við erum búin að tala um danska pólitík í mánuð og það er svo leiðinlegt. Afar tilgangslaust þegar tekið er tillit til þess að það er enginn í bekknum með atkvæðisrétt.

Thursday, October 13, 2005

Langlífi!

Ég var að tala við konu í dag sem er 100 ára gömul. Hún var orðin dáldið þreytt á þessu og þakkaði(eða ekki!) háan aldur mikilli hreyfingu, reykleysi og hóflegri áfengisneyslu. Þannig að maður verður að passa sig að vera ekki of healthy, þetta gæti endað í því að maður lifi lengur en maður nenni.
Lífið mitt er svo frábært þessa dagana, ég veit svei mér þá ekki hvað ég gæti beðið um meira. Jú reyndar, ýsu, rosalega væri ég til í ýsu. Fiskneyslan er fyrir neðan allar hellur síðan ég flutti hingað. En það er nú bara lúxusvandamál.
Ég ætla að eyða kvöldinu í að sauma jólakort. Stórt knús til allra!

Tuesday, October 11, 2005

sól, sól skín á mig

Alveg ógeðslega var leiðinlegt í skólanum í kvöld, þessi kennari gæti svæft spíttfíkil. Annars allt fínt að frétta, hér er ennþá bongóblíða. Ég sat með Betu systur úti á kaffihúsi í dag og við sleiktum sólina. Það var allt fínt að frétta frá Skotlandi, þar er allt við sama heygarðshornið, óvenjulega mikið af ljótu fólki miðað við höfðatölu og egg og beikon í öll mál.
Inga Þyri frænka var víst að meika það áfram í Idolinu heima. Til hamingju með það elskan! Það getur verið hagkvæmt að eiga fræga ættingja seinna meir. Ég ætla að elda íslenska rollu handa systur minni á morgun og hafa það huggó.

Monday, October 03, 2005

Mér tókst að eyðileggja líf gamallar konu í dag. Ég fór að versla fyrir hana og það voru ekki til jógúrtbollurnar sem hún vildi í búðinni. Hún var alveg miður sín og horfði á mig eins ég hefði drepið uppáhaldskettlinginn hennar. Svona getur þetta verið, vonandi verður hún búin að jafna sig á morgun.
Beta systir skrapp til Skotlands að leita að Loch Ness skrímslinu og drekka sig fulla að sjálfsögðu. Það er viðurkennd staðreynd í Skotlandi að það er auðveldara að koma á auga á Nessie undir áhrifum. Það er eins gott að hún komi með myndir heim.
Í Danmörku er ennþá funhiti og haustið rétt að byrja. Það hefur víst verið snjór uppí eyru heima undanfarið, ég er voða fegin að sleppa við það.

Sunday, October 02, 2005

Hamingja!

Ég er alveg ógeðslega hamingjusöm í dag!
Vildi bara láta ykkur vita.