Saturday, August 13, 2005

gay pride

Helvíti góður dagur, var í fríi í vinnunni. Ég er búinn að vera niðri í bæ á Gay Pride og það var ógeðslega flott. Þetta er dáldið mikið stærra batterí en heima. Ég komst í þvílíkt stuð og langar út að djamma en vandamálið er að ég þekki bara óvirka alkóhólista sem eiga börn og það nennir enginn út með mér. Minn heittelskaði er á ráðstefnu í Kolding svo að það er ekkert gagn af honum.
Ég ákvað í gær að hætta í vinnunni, ég ætla að segja upp á mánudaginn, fyrir því liggja margar ástæður. Í fyrsta lagi þá hafa þeir ekki staðið við sitt launalega séð og því sem þeir hafa lofað, í öðru lagi er þetta drulluerfitt. Seinasta vika var algjörlega skelfileg, var að vinna 9-10 tíma á dag og það lítur ekki út fyrir að breyting verði á, ég tala nú ekki um hvernig það verður þegar það byrjar að snjóa. Ég játa mig sigraða, ég nenni ekki að vera hörkutól lengur. Mér hefur alltaf fundist ægilega flott að vinna erfiða vinnu, ég hlýt að hafa verið einhver togarafyllibyttutöffari í fyrra lífi með tattú á öllum útlimum sem grenjaði bara þegar hann var fullur.
Kannski fer ég að vinna á leikskóla eða verð heimavinnandi húsmóðir í bili. Ég má nú alveg láta til mín taka á húsmóðursviðinu, það hefur verið fátt um fína drætti þar síðan ég flutti út. Ekki það að ég hafi verið neitt sérstaklega dugleg áður en ég flutti hingað, þvert á móti. Ég fæ mér rúllur í hárið, bleikan slopp og inniskó í stíl , byrja að drekka martini ,þykist þrífa og hugsa um blómin allan daginn.
Svo var ég að fá gleðifréttir frá Íslandi, Sigga vinkona var að kaupa sér íbúð og Bjartur líka. Þau keyptu sér í sitthvorum stigaganginum í sömu blokkinnni, þetta er sko sönn vinátta. Eða þetta var með ráðum gert, núna þarf Sigga ekki að taka leigubíl heim þegar það er partí hjá Bjarti. Þetta er æði, það er svo gaman að eignast heimili. Til lukku með þetta bæði tvö!

2 comments:

Linda Björk said...

hva bara húsmóðir þegar ég kem til Danaveldis..... það var nú kannski full langt gengið. Er alveg hæf til þess að sjá um mig sjálf ;)

Anonymous said...

Hvað geri ég ekki fyrir þig, hætti í vinnunni og allt saman!