Monday, February 27, 2006

Oooohhhh!

Það er allt að gerast þessa dagana, við erum ekki búin að klára að taka uppúr kössunum og það er búið að bjóða okkur aðra íbúð, mikið ódýrari og með möguleikann á að kaupa seinna meir. Undir venjulegum kringumstæðum þá væru þetta gleðifréttir en ég hreinlega meika ekki einu sinni tilhugsunina um að flytja eftir 3 mánuði. Ég þarf alltaf ágætis tíma á milli flutninga til að geta gleymt því aðeins hvað það er drulluleiðinlegt að flytja. En við þurfum framtíðarhúsnæði og íbúðin sem við erum í núna er það ekki. Svona er þetta bara!

Saturday, February 25, 2006

Ennþá allt í rúst,American Idol er tekið við af Beverly Hills, við eigum svo mikið drasl það er eiginlega ekki fyndið. Fólkið sem hjálpaði okkur með að flytja fékk brjóstklos bara við að sjá hrúguna sem þurfti að flytja á milli bæjarhluta. Annaðhvort okkar hjónakornanna er með söfnunaráráttu og það er ekki ég! Til dæmis komst ég að því að við eigum 5 borð, 1 stofuborð,2 borðstofuborð og 2 skrifborð og þetta fluttum við allt frá Íslandi. Þetta er nú eitthvað grunsamlegt og það er ótrúlegt að ég hafi ekki tekið eftir þessu þegar við fluttum á milli landa. Nýja íbúðin er að venjast en mér finnst skrýtið að eiga nágranna alltí einu og svo er svo mikill umgangur við götuna,það eru alltaf einhver hljóð í gangi sem ég er ekki vön.
Ég fór á kynningarkvöld hjá skólanum sem ég ætla að sækja og ég varð ennþá sannfærðari um að þetta er það rétta fyrir mig. Ef ég kemst ekki inn þá verð ég brjáluð. Á þessari kynningu sá ég þessa stelpu sem ég kannaðist við og ég var eiginlega pottþétt á því strax að þetta var íslensk stelpa. Ég fer og spjalla við hana og kemst að við vorum saman í Flensborg og svo þekkir hún vinkonu mína hérna úti og býr í gömlu íbúðinni hennar. Ég held að ég hafi aldrei hitt íslending í Baunalandi sem þekkti ekki einhvern sem ég þekkti. Við erum svo sveitó! Minn heittelskaði kemur heim á morgun og ég hlakka geðveikt til!

Wednesday, February 22, 2006

Hafernir

Það er svo langt síðan ég bloggaði seinast að það mætti halda að ég væri dauð. Ég er það samt ekki,bara dáldið þreytt. Við fluttum seinustu helgi og búum núna á Austurbrú niðri í bæ. Það er nú ekki oft sem að maður flytur í niður í bæ í stærri íbúð og sparar þvílíkt í leigu. En við vorum heppin. Það er allt í rúst í nýju íbúðinni og aðalástæðan fyrir því er að ég get ekki hætt að horfa á sjónvarp. Við keyptum sjónvarp þegar við fluttum eftir 8 mánaða fráhald og núna er rassinn á mér heftaður við sófann. Þeir eru að endursýna Beverly hills 90210 frá 1995,get ekki misst af því!
Annars er allt gott að frétta, ég er að vinna í skólaumsókninni þessa dagana,ég þarf að skila henni fyrir 15 mars. Ég þarf að skrifa meistarastykki um sjálfa mig sem lýsir því hversu æðisleg ég er og afhverju skólinn ætti að vera þakklátur fyrir að ég hef áhuga á þessu námi. Það er fínt í vinnunni, rólegt eins og venjulega. Minn heittelskaði er á skíðum í Svíþjóð með börnin í ungdómsklúbbnum þannig að ég er dáldið lónlý. En Beverly Hills reddar þessu! Ég lærði nýtt danskt orðatiltæki um daginn "að vera hress eins og haförn" þeir segja þetta í alvöru;). En ég veit ekki hvernig Danir hafa komist að því að hafernir séu hressari en aðrir fuglar. Hérna hljóta að liggja einhverjar rannsóknir að baki!

Monday, February 06, 2006

Allah

Jæja nú er þessari bloggleti lokið, ég er orðin kvefuð aftur og ég bara fatta þetta ekki. Það eru rétt komnar 3 vikur síðan ég var veik síðast. Þetta er reyndar aðeins mildari útgáfa af flensunni sem ég var með seinast þannig að ég býst ekki við ég liggi eins lengi núna. Úti er reyndar íslensk snjókoma þannig að þetta er ekki með öllu illt!
Hér er allt búið að vera að ganga af göflunum út af þessum teikningum. Danir eru orðnir óvinsælli en Bush í miðausturlöndum(og það þarf nú heilmikið til!). O g allt þetta vesen er vegna þess að einhver skítableðill á Norður Jótlandi ákvað að vera fyndinn eina helgina og gera grín að Múhammeð til tilbreytingar. Hér er búið að diskútera málið til helvítis, það er enginn fær um að diskútera eins lengi og ítarlega eins og Danir.
Ég hef oft kvartað yfir gúbbífiskaminni íslendinga, Davíð hækkaði skattana í dag en á morgun kjósum við hann samt af því að við erum búin að steingleyma hvað hann gerði í gær. En jákvæði póllinn í því er kannski að þá þurfum við ekki að hlusta á fjölmiðla nauðga sama málefninu í margar vikur.
En mér finnst persónulega að Norður Jótarnir hefðu aðeins átt að hugsa sig um áður en þeir gerðu þetta. Að sjálfsögðu hefur maður rit og tjáningarfrelsi til að birta næstum því hvað sem er. En það þýðir ekki að maður eigi að birta hvað sem bara af því bara"bara af því að enginn segir mér hvað ég má og ekki má".
Þeir voru örugglega ekki búnir að búast við því að þetta myndi setja eitt stærsta fyrirtæki landsins á hliðina eða hvað þetta myndi skapa mikla hættu fyrir Dani í útlöndum. En þeir hljóta nú að hafa búist við ansi hörðum viðbrögðum. En þetta snýst í rauninni ekki um þessar teikningar, teikningarnar voru dropinn sem fyllti mælinn. Þetta sýnir einfaldlega hvernig samskipti Dana og útlendinga(sér í lagi múslima) eru í þjóðfélaginu og ástandið er bara helvíti slæmt.