Saturday, April 28, 2007

Framkvæmdir

Það er allt að verða vitlaust, við keyptum nýjan sófa um daginn fyrir peningana sem frúin hjá skattayfirvöldunum gaf okkur og svo fórum við í Ikea og það fer aldrei vel. Maður kemur alltaf útúr þeirri búð með eitthvað sem maður ætlaði ekki að kaupa, þökk sé djöfullegri innanbúðarhönnun sem krefst þess að maður labbi í gegnum alla! búðina þó að maður ætli bara kaupa einn púða. Maður getur ekki einu sinni fengið sér pulsu án þess að þramma í gegnum allt draslið.
Það voru keyptir borðstofustólar,diskar, baðherbergisskápar og ljós, sem betur fer var borðstofuborðið sem okkur langaði í uppselt. Við föttuðum nefnilega á leiðinni heim að okkur vantaði ekki borðstofuborð, við gleymdum því bara inn í búðinni. Borðstofustólarnir voru reyndar alveg nauðsynlegir af því að þeir gömlu voru svo óþægilegir að fólk fór snemma heim úr matarboðum vegna yfirvofandi brjóskloss. Og við leggjum ekki í vana okkar að bjóða fólki í mat sem við nennum ekki að hafa allt kvöldið(nema kannski tengdó :) þannig að núna er það leyst. Minn heittelskaði er líka búin að mála loftin hvít og skifta um klósett og vask. Hann er svona handlaginn au naturel og getur greinilega bara allt. Þannig að klósettferðir eru hættar að valda þunglyndi á þessum bæ.

Tuesday, April 24, 2007

sommertime

Það er búin að vera hinn fínasti sumardagur í dag, 18 gráður held ég. Ég er búin að eiga letidag í dag, byrjaði daginn að fara í morgunmat til Lóu og Sigrúnar og svo kíktum ég og Olla á búðirnar í fiskitorginu, mér tókst að kaupa boli og geðveikt flottan kjól. Svo nennti ég ekki heim til mín og sleikti sólina með Lóu restina af deginum. Ekki leiðinlegt líf!
Það má finna ýmislegt að Baunaveldinu stundum en á þessum árstíma er allt fyrirgefið. Öll tré standa í blóma í öllum regnbogans litum og allt er svo fallegt í sólinni. Dæs:) lífið er gott.

Monday, April 16, 2007

tannsi

Afhverju er svona grautfúlt að fara til tannlæknis? Ég er nú ekki með neina tannlæknafóbíu en þetta er eins mini pynting i hvert einasta skipti. Er þetta svona mikill viðbjóður af því að:
A: Það er önnur manneskja með puttana uppí munninum á manni og tannlæknar nota reyndar hanska en so what! Ekki gaman!
B:Maður veit rauninni ekkert hvað er að fara gerast og heldur tryllt í þá von að tannsinn viti það! Hann tekur upp borinn og svo bíður maður í spenningskasti eftir hvort þetta er slæmur bor eða ekki, þeir geta verið frá bara pirrandi til algjörlega óþolandi þannig að manni langar að skalla tannlækninn.
C:Það er vont bragð af öllu sem fer upp í munninn á manni alveg sama hvað það, deyfilyf og allt hitt draslið sem þeir nota.
D:Raunveruleg hætta á að drukkna í eigin munnvatni vegna þess að maður vill ekki kyngja öllu draslinu sem þeir eru að setja uppí mann

Ég auglýsi eftir tannlækni sem er með nuddstól og deyfingu með jarðaberjabragði eða sem er ennþá betra;fulla svæfingu þannig að þetta ógeð fari alveg framhjá manni.
En ég er ánægð að þetta er búið, ég fór til Svíþjóðar og fékk krónuna þar, það var helmingi ódýrara en að láta gera hana hér. Og þrátt fyrir að vera drulluillt í kjaftinum þá varð ég sjálfsögðu að fá mér kaffibolla áður en ég fór í lestina aftur, það er svo geðveikt gott. Það er í rauninni betra bragð af öllum mat og drykk í Svíþjóð, ég veit ekki afhverju en því miður á það ekki við um tannlæknana.