Saturday, December 31, 2005

Gleðilegt árið!

Ég var að klára áramótaskaupið og það var nú bara helvíti fyndið. Fullt af ferskum leikurum, ég er bara ágætlega sátt. Hér er árið 2006 gengið í garð, flugeldarnir komnir á fullt og púðurlykt.
Ég var að kíkja á afrek ársins og ég er búin að vera dáldið dugleg.
1.Gifti mig og flutti á milli landa(bæði skuldlaust)
2. Lærði dönsku.
3.Komst að því að ég ætla aldrei að vinna sem póstberi!
4. Náði að vera góð við mína nánustu(svona 99%)
5. Náði ágætis hamingjuhlutfalli svona 85% en þarf að kyrja meira.

Nýársheitin 2006 eru:
1. Iðka meira
2.Vera óeigingjarnari á árinu
3. Fara í yoga

Gleðilegt ár öllsömul og þakka allt gamalt og gott. Þið eruð frábær. Skál!

Tuesday, December 27, 2005

Snjókorn falla!

Það snjóar bara í Danmörkinni, meira segja bara helling. Ég þurfti að skafa scooterinn til að komast heim úr vinnunni! Ég geri mér nú reyndar alveg grein fyrir að það er til fólk sem þarf að skafa fleiri fermetra en ég en samt! Ég vildi helst vera alveg laus við snjóinn.
Ég fékk nokkrar jólakortaeftirlegukindur í dag sem ég er mjög ánægð með. Þannig að það eru nokkrir lausir úr jólakortaskammarkróknum hjá mér. En það eru margir eftir þar inni!
Ég fór í danskt jólaboð í gær og það var hin besta skemmtun. Maður er rosalega lengi að borða af því að það eru svo margir réttir og það er líka minni hætta á að maður éti á sig gat. Systir mín kom með snilldarhugmynd um hvernig á að haga jólahaldi framvegis. Við stefnum að fara til Íslands annaðhvert ár og erum hérna hitt árið. Þannig að ég kem heim næstu jól!
Beta og Mikkel eru að koma til okkar í hangikjöt og spilamennsku í kvöld. Ég var að smakka það og það er geðveikt gott. Ég og Beta ætlum að taka drengina í nefið í Settlers í kvöld!

Sunday, December 25, 2005

Afi lesa!

jólahjól!

Gleðileg jól öll saman annars! Ég er búin að eiga ágætis jól með önd og lífrænt ræktuðum nautalundum,mmm! Fékk fullt af sniðugu dóti í jólagjöf og ég held að þetta séu rólegustu jól sem ég hef upplifað, bæði aðdragandinn og jólin sjálf. Mér fannst dáldið erfitt að komast í jólaskap því að hérna eru hlutirnir ekki eins og maður er vanur að hafa þá. En við hlustuðum á messuna á rúv.is og þá datt ég í stemmingu. Ég fór að pæla í því í gær að ég hef aldrei hlustað á prestinn, bara hlustað á lögin. Ég vona að hann hafi ekki verið að segja neitt merkilegt síðastliðin 29 ár. Svo er ég búin að eiga letidag í dag, horfa á vídeó og vera í náttfötum. Beta systir og Mikkel voru að fara, við spiluðum Settlers. Mig langar að taka það fram að við Beta unnum í bæði skiptin! Yeeaaah!
Svo var hún litla systir mín að slá í gegn í háskólanum og fékk þessar frábæru einkunnir. Það mætti halda að hún sé skyld mér:)
Þessi mynd hér að neðan er af barnabarni fjölskyldunnar, hundi litlu systur minnar. Hún Doppa var í pössun hjá afa og ömmu á aðfangadagskvöld og fékk nýsjálenskar nautalundir(eins og sjá má á svipnum)

Barnabarnið!


Thursday, December 15, 2005

Velsæld!

Ég hef akkurat ekkert annað betra að gera en að hengja upp jólaskraut heima hjá mér og horfa á vídeó. Þetta er mjög skrýtið ástand, ég er ekki með neinn lista í höfðinu sem mér finnst ég þurfa að gera. Ég er nú venjulega með svoleiðis í gangi. Það er bara algjör friður og afslappelsi í gangi. Ég á nú reyndar eftir að gera nokkra hluti fyrir jól en mér finnst ég hafa allan tímann í heiminum og það er nú afar furðulegt svona rétt fyrir jól. Ég er orðin ligegladari en andskotinn!

Monday, December 12, 2005

Baunajólin

Ég og minn heittelskaði vorum þvílíkt dugleg um helgina,tókum og þrifum íbúðina hátt og lágt,þvoðum þvott og ég veit ekki hvað og hvað. Síðan kíkti ég á byggðasafn bæjarins, þar var jólamarkaður og alls kyns sniðugt dót. Svo skoðaði ég nokkra krúttlega bóndabæi með stráþaki. Þetta var mjög huggulegt.
Danir eru mikið rólegri en Íslendingar í jólatíðinni og ég er búin að uppgötva hluta af ástæðunni. Ég fór í rúmfatalagerinn á Íslandi, þar var hálf búðin undirlögð undir jóladót. Ég fann jóladúka þar en svo fylltist ég danskri nísku og ákvað að fá þetta ódýrara í Nískulandinu. Svo kem ég heim og ætla að gera þvílík kaup. En svo er næstum ekkert jóladót í rúmfatalagernum hérna. Þvílík vonbrigði! Ástæðan fyrir því að Danir eru ekki jafnklikkaðir og íslendingar er einfaldlega sú að þeir hafa ekki nærri jafnmikið framboð á ónauðsynlegum hlutum til þess að kaupa. Svo gefa Danir ekki eins dýrar gjafir og íslendingar. Þannig að fjárhagur heimilisins fer ekki á hliðina útaf jólunum hérna. Sem er bara mjög skynsamt! En ég sakna ljósanna, þeir eru ekki duglegir við það hér.
Ég ætlast til að fá fullt af jólakortum, helst handföndruðum en ég neita ekki að lesa þau þó að þau séu keypt í Bónus. Hérna er adressan svo að þið getið látið til ykkar taka.
Ásdís Óladóttir eða Anders Larsen
Buddingevej 60
2800 Lyngby
Danmörk

Friday, December 09, 2005

Ásdís snilli, taka 2

Í dag er góður dagur, ég grætti engin gamalmenni og ég fékk 10 í munnlega prófinu.
Sem þýðir að ég get haldið áfram í dönsku eftir áramót(það þurfti 10 í meðaleinkunn). En þó það sé nú fínt þá er dönsk málfræði ekki það skemmtilegasta í heimi, ég held að ég hafi skrópað núna jafn mikið og ég mætti. En batnandi manneskju er best að lifa, hver veit nema að ég læri að læra heima eftir áramót :).
Ég upplifði mjög furðulegan hlut í dag, hausinn á mér eyddi lunganum úr deginum í að velta sér uppúr því hvað ég hefði átt að segja í prófinu til að standa mig betur þrátt fyrir að hafa fengið 10. Það er varla hægt að gera mikið betra en það . Ég er svo rugluð!

Wednesday, December 07, 2005

Ásdís snilli!

Dönskuguðirnir eru mér alveg fáránlega hliðhollir þessa dagana, ég fékk 10 og 13 í skriflega prófinu. Þetta á ég engan veginn skilið. Verð að muna að kaupa geit og slátra henni útí garði þeim til heiðurs.
Er komin með snert af brjósklosi eftir ferðina til Íslands. Foreldrar mínir versluðu jólagjafir eins þau hafi ekki séð okkur systur í 20 ár,svo var það hangilærið, grafni silungurinn, 2 kíló af nammi og hunangs cheerios pakkinn. Ekki misskilja mig samt, það er ekki hægt að fá of margar jólagjafir.
Það var dáldið skrýtið að koma til Íslands, myrkrið var dáldið sjokkerandi. En það vandist á svona 2 dögum. Þetta var alltof stuttur tími til að hitta alla sem maður vildi hitta og framkvæma allt sem maður ætlaði að gera. Það þarf að taka minnst 10 daga í þetta. En ég held samt að ég hafi náð því mikilvægasta, hinir fá bara jólakort í staðinn!
Ég fattaði líka eitt í Íslandsferðinni, ég skila aldrei kveðjum. Fólk var alltaf að biðja að heilsa hinum og þessum ,samt aðallega manninum mínum. Og ég gleymi þessu alltaf. Svo fór ég að pæla hvort að ég væri svona stjarnfræðilega mikill egóisti að ég gleymi öllu sem kemur mér ekki beint við. En svo getur líka verið að allir gleymi þessu eins og ég og það sé algjörlega merkingarlaust að biðja heilsa einhverjum eða segjast ætla að gera það.