Monday, May 30, 2005

Kakósúpa er ekki matur!

Ég er dálítið óþolinmóð þessa dagana, við erum búin að pakka niður búslóðinni og skilum íbúðinni af okkur á morgun. Það er tæp vika og ég vil eiginlega drífa þetta af en samt ekki. Ég átti frábæra helgi, var með kveðjupartí fyrir saumaklúbbinn á föstudaginn , fór í innflutningspartí hjá Lindu á laugardagskvöldið og svo matarboð hjá góðum vinum okkar Gísla og Auju í gærkvöld. Svo fór seinasta vika í kveðjukaffihúsaferðir, ég var mjög góður viðskiptavinur á Kaffi Nauthól. Það var mjög gaman hjá Lindu á laugardaginn , hún á heiður skilinn fyrir skemmtilegt partí, það var líka gaman að hitta allt hitt fólkið sem hún umgengst.
Mér finnst dálítið leiðinlegt að kveðja fjölskyldu, vini og vinnufélaga en það er samt mjög jákvætt að hafa svona mikið af skemmtilegu fólki til að kveðja. Það væri ekkert sérlega sniðugt ef allir væru rosa fegnir að losna við okkur:)
Ég er súr útí mötuneytið í dag, það er kakósúpa í matinn. Það er ótrúlegt að kakósúpa og tvíbökur skuli teljast matur í dag.

Wednesday, May 25, 2005

Gott líf!

Lífið er fallegt í dag, það er reyndar alltaf jafnfallegt en suma daga tek ég ekki eftir því. Oftast er það vegna þess að ég er föst inní rassgatinu á sjálfri mér, veltandi mér uppúr því sem ég hef ekki í staðinn fyrir það sem ég hef. Ég sé ekki hvað lífið er dásamlegt þar , það er dimmt þarna inni, þið skiljið!
Ég er gífurlega gæfusöm og þakklát fyrir allt stórkostlega fólkið sem ég þekki og nennir að umgangast mig. Mig skortir ekki neitt og lífið er æði. Mér þykir vænt um ykkur!

Tuesday, May 24, 2005

Rúv og Stalín - góðir félagar!

Ég er búin að eiga mjög skrítin samskipti við RÚV undanfarnar vikur. Ég var mjög hissa þegar ég var að segja upp áskriftinni(nauðungarskattinum) því þeir vildu kvittun af farseðlinum mínum eða farmskrá sem staðfestingu að ég sé að fara úr landi. Ég meina! ætla þeir að fylgja mér upp í flugvél til að tryggja að ég sé örugglega að fara. Þetta er mega paranoia! Ég ákvað að vera kurteis, senda þeim staðfestinguna og sagði upp frá og með 31.maí(skila íbúðinni þá og fæ að lúlla hjá foreldrunum þangað til ég fer). Svo fékk ég póst frá þeim í dag sem er þessi:

Sæl,

Hvert flytur þú þá? ef þú flytur inná heimili þar sem annar aðili greiðir afnotagjaldið þá þurfum við að fá nafn hans og kennitölu svo hægt sé að fella niður afnotagjald þitt. Ath. niðurfelling miðast við að þið hafið sama lögheimili.

Ég skil þetta þannig að þeir vilji vita hvar ég er niðurkomin frá 1-5.júní(flýg þá). Ég geri ráð fyrir að þeir vilji koma í veg fyrir að ég sé að horfa á sjónvarpið MITT heima hjá foreldrum mínum og fá að rukka mig fyrir þessa 5 daga sem um ræðir. Upphæðin eru heilar 450 kr (2.705/6=). Mér finnst þetta aðeins of langt gengið. Ég vissi að RÚV ætti bágt fjárhagslega en ekki svona. Þeim kemur ekki við hvar ég sef á næturnar. Það er svona einhver rússneskur Stalínfílingur í þessu. Það er alveg gífurlega freistandi að segja þeim að fara í rassgat en ég finn bara svo til með starfsfólkinu þarna. Það heyrir örugglega "farðu í rassgat" og þaðan af verra 5 sinnum á dag. Ætli ég leysi þetta ekki þannig að ég afhendi ónýta sjónvarpið mitt 31.maí , þá geta þeir ekki sagt neitt. Við ætlum að kaupa nýtt sjónvarp í Danmörkinni múúúhahahahahahahahaha!

Monday, May 23, 2005

Meira feitt fólk í Eurovision!

Rosalega er Eurovision skemmtileg, jafnvel þegar hún er skítléleg eins og hún var núna með örfáum undantekningum. Ég var sátt við Dani(að sjálfsögðu:), Norðmenn og síðan sérstaklega Möltu. Flott lag og feit kona, það er eitthvað sem sést ekki í Eurovision í dag. Mér fannst hressandi að sjá konu sem var ekki stereotýpan(43kíló,sæt,í stuttu pilsi, flegnum bol og getur varla sungið) Gott hjá henni!! Hún Selma okkar stóð sig ágætlega en skar ekki úr að mínu mati nema að því leyti að hún var með verri stílista en hinar. Það voru hreinlega of mörg svipuð lög í keppninni. Ég skildi þetta ekki með grísk-sænsku stelpuna sem vann, hún var ekki með neitt spes lag. En frekar hún en drengirnir frá Lettlandi, þeir voru alveg agalegir.
Ég er búinn að vera pakka niður dóti í dag, ógeðslega dugleg. Því oftar sem ég flyt því auðveldara er að henda dótinu mínu, t.d þá tímdi ég að henda í dag spennugjafanum sem ég smíðaði þegar ég var 18 ára í grunndeild RAF. Ég meina come on! hvað get ég notað 30v spennugjafa í? ég held reyndar meira að segja að hann virki ekki. En svo reyndi ég að gefa Ísfólkssafnið mitt sem ég hef ekki lesið síðan ég var 15 ára en ég fékk það ekki af mér.
Kannski í næstu flutningum.

Ég og minn heittelskaði Posted by Hello

Sunday, May 22, 2005

Niðurtalning!

Í dag eru tvær vikur þangað til við flytjum út. Þetta er búið að líða rosalega hratt, eiginlega alltof hratt. Ég ætla að halda úti þessu bloggi næstu mánuði svo vinir og vandamenn geti fylgst með danska menningarsjokkinu með mér. Ég er farin að hlakka til að fara núna þó að ég eigi eftir að gera milljón hluti áður en ég fer. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að fara að því að kveðja alla sem mér finnst ég þurfa að kveðja. Það vantar auka 20 tíma í sólarhringinn.
Ég var í enn einu nostalgíukastinu í dag, var að horfa á Esjuna og pæla í hvernig ég ætti að koma þessu flotta fjalli með til Danmerkur. Danmörk er frábær að mörgu leyti en það vantar allt sem heitir landslag í þetta land! En það er nóg af trjám þannig að þau verða að duga, svo er nú stutt til annara landa.

Loksins!

Jæja nú er komið að því!