Thursday, November 17, 2005

Brrrr

Það er svo kalt í Danmörkinni að það er ekki fyndið. Það eru 0 gráður og mér finnst ég búa á Norðurpólnum. Mig rámar einhvernveginn ekki í að það sé svona kalt á Íslandi.
Prófið gekk fínt, ég hef ekki hugmynd um hvað ég fæ í einkunn en ég náði því og vel það. Ritgerðarefnið í prófinu fjallaði um að hvernig ætti að bæta heilbrigði almennings í landinu. Ég samdi þvílíka talibana fjallræðu um skaðsemi reykinga og hvað ætti að gera til að laga ástandið. Svo fór ég að pæla í því í morgun hvort kennarinn minn reyki og ég held að hún geri það. Svo reykir kannski prófdómarinn líka og svo verða þau ekkert sérlega ánægð með mig. Danir eru nefnilega ótrúlega viðkvæmir gagnvart þessari umræðu, pólítíkusar þora ekki að minnast á reykingabann nema að þeir séu leiðir á starfinu sínu og vilji ekki láta kjósa sig aftur. Það má nefnilega ekki skerða persónulegt frelsi reykingamannsins til að reykja nákvæmlega þar sem honum sýnist, sama hvort það fer á taugarnar á einhverjum öðrum eður ei. Þetta er svo klikkuð þjóð,Danir lifa víst líka skemur en aðrar norðurlandaþjóðir. Það er sígaretturnar, bjórinn og majónesið og trúleysið held ég.
Trúmál er líka ótrúlega viðkvæmt, hérna vill fólk frekar heyra mig tala um kynlífið mitt en trúna mína. Þetta er eina landið sem ég veit um þar sem er bannað að minnast á trú sína í starfsumsókn. Ég fékk fullt af atvinnuviðtölum heima út á búddismann, fólki fannst þetta ægilega spennandi. En hérna yrði ég örugglega rekin.
Ég sá alveg ótrúlegan hlut heima hjá eldri konu í dag, það var öskubakki skrúfaður í vegginn við hliðina á klósettpappírnum. Pælið í því að sitja á dollunni að skíta og reykja í leiðinni! Ótrúlegt! Það er eitthvað mikið að!

Tuesday, November 15, 2005

læseforståelse

Ég held að ég eigi skemmtilegustu systur í heimi, það var geðveikt gaman um helgina. Ég myndi taka þær með á eyðieyju. Ég er nú helvíti heppin því að það er til fullt af fólki sem finnst ættingjar sínir ekki það skemmtilegasta í heimi. Erna fór í morgun, ég þarf eiginlega að vinna í því að hún flytji til Danmerkur.
Ég er ægilega klár, ég fékk 13 í æfinga lesskilningsprófinu. Svo er það alvara lífsins ámorgun, aðalprófið er kl.9 í fyrramálið. Þetta á eftir að ganga fínt.
Ég er að upplifa það að ég sé of góð í vinnunni minni. Ein eldri daman sem ég er hjá fær þunglyndiskast þegar ég er í fríi í vinnunni. Hún verður svo skelfilega leið þegar ég á fríhelgi en hún er reyndar dramadrottning dauðans. Svo byrjaði íslensk kona í vinnunni í dag, hún heitir Þórunn og það er bara ekki sjens fyrir greyið Danina að bera þetta fram. Ásdís er slæmt en Þórunn! Ég myndi bara breyta því í Tóta.
Úps! Ég fór með poka út í búð í gær en það var reyndar óvart. Þar fór það!

Sunday, November 13, 2005

Kellingarhelgin mikla

Þetta hefur farið sómasamlega fram hingað til. Fórum í Lyngby Storcenter í gær og fórum svo út að borða á mexikóskan veitingastað. Við vorum alveg búnar á því eftir það og fórum snemma heim. Það getur tekið á að tala svona mikið og ég tala nú ekki um ef maður þarf að gera eitthvað annað í leiðinni eins og að labba. Þessi goðsögn um að konur geti gert fleiri en einn hlut í einu er bara bull. Ég get ekki labbað hratt og talað í einu.
Svo byrjuðum við daginn á risa brunch heima hjá Betu,beikon,egg,pönnukökur og det hele. Svo fórum við á risa flóamarkað þar sem hún litlasystir mín, föndurdrottning norðursins tapaði sér algjörlega. Við fundum föndurbásinn og hún byrjaði að froðufella af gleði. Það er bara eins gott að hún á ekki við blóðþrýstingsvandamál að stríða annars held ég að þetta hefði riðið henni að fullu. Ég hef bara aldrei séð hana svona upprifna áður, hún verslaði hálfan básinn og fékk slatta ókeypis því að hún var svo góður kúnni. Hún á eftir að falla í Háskólanum af því að hún verður að föndra jólakort.

Thursday, November 10, 2005

Ásdís fiskibolla

Maðurinn minn elskulegur eldaði fiskibollur handa mér í kvöld og þær runnu ljúflega niður. Síðan arkaði ég glöð í skólann, svo fór ég úr jakkanum og upp reis þessi hrikalegi fnykur. Ég lyktaði eins og fiskimjölsverksmiðja, ég var búinn að gleyma hvað fiskibollufnykur festist í fötum. Það eina sem ég gat gert var að renna upp vindþéttu flíspeysunni og vona að hún kæfði þetta svona aðeins. Þau voru nú voðalega vinaleg, stelpan við hliðina á mér sagðist finna til svengdar við lyktina af mér og þýski strákurinn sagði að þetta væri voða íslensk lykt. Þetta er svo pínlegt að vera að kæfa aðra og sjálfa mig úr fýlu.
Burtséð frá þessu þá var þetta ágætis kvöld, ég fékk 8 í æfingaskriftarprófinu þrátt fyrir að fyrir að hafa beitt þeirri frægu " læra ekki rassgat heima allt haustið" aðferðinni. Hvenær ætli ég læri að læra heima?
Haustið er alveg óendanlegt hérna, það eru ennþá lauf á trjánum og grasið er grænt. Mjög skrýtið, svo verður bara vetur í 4 mánuði frá des fram í mars. Ekki leiðinlegt! Ég finn mikinn mun á birtunni hér, ég verð ekki eins þung og heima. Hérna er ennþá bjart kl 7 á morgnana.
Erna litlasystir ætlar að koma í helgarferð núna um helgina. Það verður alveg svakaleg kellingarhelgi, hanga í búðum og borða á veitingastöðum. Vitið þið að orðið "kelling" er alveg geðveikt ljótt í Danmörku. Ef þú kallar danska konu kellingu þá færðu einn á lúðurinn eða þaðan af verra. Ég er komin með mikin fiðring útaf Íslandsferð, ég hlakka til að hitta fjölskyldu og vini og komast í mömmumat. Mömmumatur er besti matur í heimi.

Wednesday, November 02, 2005

tímateppa

Ég aulaðist niður í Köben á annatíma í morgun. Það var það mikil umferðarteppa að menn sátu á umferðareyjum og dreifðu dagblöðum svo fólki leiddist ekki! Það keyra tugþúsundir manna inn í Köben á hverjum morgni til þess að vinna. Er þetta nútímalífið? Fólk eyðir 2-3 tímum á dag í bíl til þess að eiga fyrir lífinu sínu. Ég vona það þeirra vegna að vinnan þeirra sé þess virði að leggja svona mikið á sig. Mér finnst nú þessum tíma betur varið í eitthvað annað eins og að eyða honum með fjölskyldunni.
Ég veit ekki hversu skemmtileg vinnan mín þyrfti að vera til að ég gerði þetta. Kannski ef ég bjargaði 15 börnum frá hungri í Sómalíu bara með því að mæta í vinnuna. Jú ætli það ekki.

Tuesday, November 01, 2005

Ég er í áfalli! Maðurinn minn er búinn að raka af sér skeggið! Þetta er sko ekki maðurinn sem ég giftist!