Wednesday, May 31, 2006

Ég komst í vinnuna á síðasta mánudag heil á húfi þökk sé lestarkerfinu. Ég er orðin fín í hnénu svo að mér hefur ekki tekist að skemma neitt mikilvægt. En þetta kostaði mig viku frá vinnu og mér tókst að gera einfaldlega ekkert af viti hérna heima fyrir(enda engin ástæða til). Það var reyndar einn jákvæður póll í þessu, þegar ég kom aftur í vinnuna þá var hún frú R. svo glöð og þakklát að sjá mig að hún hefur ekkert verið óþolandi í þessari viku(og þetta er eldri kona sem mig langar að kæfa með kodda svona einu sinni í viku). Ég ætti kannski að gera þetta reglulega, mæta ekki hjá henni í viku og þá verður hún svo auðveld viðureignar eftirá.
Pétur vinur okkar er búinn að vera í heimsókn hjá okkur og við erum búin að leika túrista út um allt. Við kíktum í anddyrið á einu nýlistasafni, tveimur höllum og einni dómkirkju. Það er ekki að við séum svona yfirborðskennd, við vorum of nísk fyrir nýlistasafnið og allt hitt var lokað. En við erum allavegana búin að sjá framan á fullt af byggingum. Svo fórum við á smörrebröd stað í gærkvöldi, svona ekta danskan, mjög gott en það vall majones út úr eyrunum á mér eftir á. Þetta er afar mikið feitmeti, það er ekkert skrýtið að Danir séu feitir.
Fór á X-men og hún var ekkert spes, það eina sem gerir hana þess virði að sjá hana eru vöðvarnir á Wolverine!

Tuesday, May 23, 2006

Hvað meinaru!

Ég lenti í slysi númer 2 í gær annan mánudaginn í röð, rann til í bleytu og tók svona Tom Cruise, Mission impossible 3 fall af hjólinu, mjög dramatískt. Mér er hreinlega ekki farið að standa á sama hérna, ég er búin að vera með bílpróf í 12 ár og aldrei lent í neinu fyrr en núna og það eru 2 vikur í röð. Og ég meiddi mig á sömu stöðum í seinustu viku bara aðeins meira í þetta skiptið. Núna er ég með bólgið hné(sömu megin og sama hné og í síðustu viku) og fasta öxl þannig að ég kemst ekki í vinnuna. Það fyndna er að ég var á leiðinni heim til að kaupa lestarmiðann af því ég er svo leið á að keyra þetta. Svo núna verður hann pottþétt keyptur eða ég verð að hætta að mæta í vinnuna á mánudögum(sem er ekki slæm hugmynd). Helvítis helvíti!

Friday, May 19, 2006

júróvisjón

ja, þetta er ekki gæfulegt ástand, íslendingar hafa ekkert verið að deyja úr velgengni hingað til í júróvisjón en ég held að ég geti fullyrt það að aldrei hafi verið búað á íslenska lagið áður en það var flutt(kannski eftir á en ef svo er þá hefur það verið verðskuldað). Eitthvað hefur hún Sylvía elskan farið fyrir brjóstið á grikkjunum. Þetta er hálfgerð synd að hún fór svona herfilega yfir strikið í húmornum vegna þess að þetta er virkilega fyndið lag. En ljósi punkturinn í þessu öllu er að það er alveg sama hvað við sendum næsta ár það getur ekki fengið verri móttökur en í ár.
Ég var hrifin af Litháen,geðveikur húmor og svo náttúrulega finnsku orkarnir. En ég held að Úkraína taki þetta, ég hafði rétt fyrir mér með Ruslönu hérna um árið þannig að ég ætla að veðja aftur á sama hest. Eigiði gleðilegt júróvísjón!

Tuesday, May 16, 2006

Ásdís Skaðvaldur

Já, mér tókst að keyra aftan á bíl í gær, alveg ekta mánudagur. Bíllinn fyrir framan bremsaði dáldið harkalega og ég var ekki nógu vakandi. En það góða við að keyra um á plasthjóli er að maður nær ekki valda neinum skemmdum af viti, bíllinn slapp með rispu á stuðaranum. Scooterinn er pínu ljótari að framan, hann brotnaði aðeins en keyrir fínt. Ég er smá aum í skrokknum eftir höggið en það gengur fljótt yfir.
Ég keypti mér sólbrillur um daginn með styrk, ég hef ekki gengið með brillur í 2 ár núna. Ég týndi seinasta pari við grunsamlegar aðstæður. Þvílíkur munur, ég sééé!!!!. Ég rata mikið betur núna af því að ég sé nefnilega hvað göturnar heita núna. En málið er að það er dáldið fáránlegt að horfa á sjónvarp og lesa bækur með sólgleraugu. Það er rosa kúl, ég sé mjög skýrt en það er dáldið dimmt svona innandyra. Svo næsta skref er að kaupa venjulegar brillur!
Fór í viðtal í dag útaf skólanum og það gekk vel. Núna er bara að bíða til 28.júlí. Þá gerast stórir hlutir. Ég og minn heittelskaði erum í meiriháttar skipulagningu þessa dagana varðandi heimilisstörf, núna gerum við matseðil fyrir heila viku og kaupum inn EINU sinni inn í viku. Það er æði, ég var alltaf úti í búð hérna áður annanhvern dag og brjótandi heilann um hvað í andskotanum við ættum að éta þetta kvöldið. Núna er ég laus við þær pælingar, dejligt!

Tuesday, May 09, 2006

sumar

Það hefur verið ákveðið í ár að sleppa vorinu og fara beint yfir í sumarið. Það er búið að vera yndislegt veður og 20 stiga hiti í viku. Það er ekki hægt að keyra á scooternum með hanska, það er of heitt. Þetta er algjör snilld, trén eru að springa út í blómum, kirsuberjatrén og magnólíutrén eru svo falleg, ég gæti eytt heilum degi í að horfa á þau. Svo er komin þessi útlandalykt í loftið, svona heit gola með blómalykt. Æði!
Mér finnst alveg gífurlega gaman að brúnkuáráttu Dana, hér í landi er samasemmerki að líta vel út og vera brúnn. Ég hef tekið eftir fullt af fólki sem er grunsamlega dökk sólbrúnt svona í byrjun sumars, það er búið að liggja í sólarbekkjum svo að það sé hægt að taka sig vel út í stuttbuxunum. Ég á ekki mikinn sjens í brúnkukeppnina með mín kríthvítu gen og verð líklega eina hvíta manneskjan í Danmörku í sumar. Ég meina ,það verður einhver að vera það!
Ég ætla að fara að þvo stofugluggana, það sér ekki til sólar fyrir skít.

Friday, May 05, 2006

Pappírsbrúðkaup

Jæja þá er maður búin að þrauka 1 ár í hjónabandi, djöfull erum við dugleg! Þessi dagur verður nú alltaf merkilegri og merkilegri. Einn af mínum fastakúnnum Vagn Lund var að fræða mig um það í dag var Danmörk var frelsuð undan nasistunum í den tid. Vagn man vel eftir þessu, það var þvílík gleði!
Ég var vakin með blómum frá mínum heittelskaða og þar með hefur hann unnið sér inn bónusstig sem ættu að endast fram á haust. Ég væri reyndar alveg til í að vakna svona á hverjum morgni. Ef maður fær blóm í rúmið þá verður maður svakalega glaður.
Við ætlum að fara og borða besta sushi í heimi í kvöld og hygge okkur
knús

Wednesday, May 03, 2006

Sumarið komið!

Haldið ekki að sumarið sé komið í Baunalandinu. Það var 20 stiga hiti í dag,alveg ótrúlegt! Ég verð að fara að kaupa sumarföt bráðum. Hafið þið séð þátt sem heitir Felicity,undarlegur þáttur sem virðist snúast um samband tveggja háskólakrakka og vina þeirra. Ég sá þátt um daginn sem var bara absúrd, allir voru búnir að vera með öllum og voru í því að spurja hvorn annan hvort þeir mættu deita þeirra fyrrverandi sem þeir þó höfðu verið með áður. Afar undarlegt en þetta er eins og með bílslys, maður verður að horfa.
Fór á nýjustu Woody Allen myndina, og hún var bara helvíti góð, rosalega öflugir leikarar