Friday, December 22, 2006

Homebase

Þá er ég lent hjá mömmu í jólasæluna. Ég er búin að eiga dáldið viðburðarríka viku. Afar kurteis maður gerði heiðarlega tilraun til að bakka yfir mig á þriðjudaginn. Hann náði reyndar bara scooternum og skemmdi hann dáldið. Minn heittelskaði varð gífurlega glaður(ekki misskilja samt, hann varð ekkert glaður yfir að fólk reyni að keyra yfir mig, það verður fyrst eftir að hann er búinn að líftryggja mig:) og vonast eftir að fá nýjan scooter handa mér útúr tryggingunum. Ég kíkti á Vagn afa á miðvikudag og fékk kaffi, svo var julefrokost í skólanum og tjúttaði fram eftir nóttu. Klakinn tók á móti mér með milljón metrum á sekúndu,við áttum þá verstu lendingu sem við höfum upplifað, vélin hrundi niður á flugbrautina. En ég skildi það alveg svosum þegar ég sá veðrið, við vorum heppin að það var yfirhöfuð hægt að lenda, við hefðum getað lent á Egilstöðum. Ég át á mig gat á jólahlaðborðinu í Perlunni á fimmtudaginn, þvílíkt og annað eins gúmmelaði, dádýrasteikin var algjört æði. Ég hef ekki verið með gemsann í lagi síðastliðna tvo daga og hef notið þess í botn að taka frí frá honum. Fólk hefur reyndar bent mér á að ég þurfi nú ekki að hafa kveikt á gemsanum núna þegar hann er kominn í lag en ég er fíkill og er algjörlega um megn að hafa ekki kveikt á gemsanum. Ég er með 693-0444.
Það komust ekki út jólakort þetta árið vegna aumingjaskapar og leti. Gleðileg jól og farsælt komandi ár til ykkar allra og ekki vera að fara á einhvern bömmer yfir þessu. Við elskum ykkur ennþá þó að við sendum ykkur ekki jólakort. Knús á línuna

Saturday, December 16, 2006

Menn eru orðnir ágætlega örvæntingafullir þegar þeir eru farnir að hakka sig inn á bloggsíðuna mína og segja fréttir af mér óspurðri. Ég var nú reyndar ekki búin að fatta hvað það er langt síðan ég bloggaði, þetta er persónulegt met. Og það hefur nú ekki verið það að ég hef ekki haft neitt að segja, ég hef bara ekki haft tíma til að skrifa það niður. En nú er þetta að verða búið,eitt verkefni eftir , þar að segja ævisagan. Það er dáldið fyndið þegar ég er búin að pressa 30 árum niður á 12 síður þá virkar líf mitt eins og eitt season i Days of our lives. Þvílík og önnur eins dramatík, svo virka ég mikið ruglaðri á pappír en ég man það inn í hausnum á mér. En svona er þetta, ég þekki engan sem hefur lifað sléttu og felldu lífi þar sem allt var æði alltaf. En ég þekki aftur á móti fullt af fólki sem reynir að láta sem að lífið sé alltaf í lagi. "Ég hef það fínt" Alltaf!!!
Ég fór í jólainnkaup í dag með Betu systur og náði næstum því öllum jólagjöfum sem er talsvert afrek miðað við að hálf sænska þjóðin og 1/4 af íslensku þjóðinni var að gera það sama í Strikinu í dag. Ég fann líka diskahilluna sem okkur vantaði og núna er eldhúsið hrein fullkomnun!
Ég á tvo skóladaga eftir, eitt verkefni, tvær kvöldvaktir og einn julefrokost í skólanum. Eftir það get ég sest upp í flugvél á fimmtudaginn og slappað af. Ég hlakka til að fara í Perluna á fimmtudagskvöldið á jóla hlaðborð og chilla með familiunni yfir jólin. Það verður algjört æði!

Undskyld mine kone ikke skriver !!!!

Hej Anders her, jeg har "hacket" mig her ind på Ásdís blog for at fortælle jeg lidt, så I kan følge med. og ja hun skriver sku for lidt !!!!!!

Ásdís har travlt for tiden, mest med skolen og arbejdet. Hun har lige haft en samtale på skolen hvor eleverne for en slags feedback fra lærerne om hvordan det går, og hun fik en masse ros. Det er jo klart hun er jo super elev, hvad skulle de ellers sige.
Hun er ved at være færdig med en stor opgave om sin livshistorie, som lyder som om det har været spændene men også et stort arbejde.
Ellers glæder hun sig helt vildt til at komme til Island, lige nu er hun ude og shoppe julegaver med Elo.
Anders over and out

Monday, November 27, 2006

Bond

Ég er bara helvíti ánægð með nýja Bondarann, þetta var eiginlega sú besta Bond mynd sem ég hef séð lengi. Það var mikið að þeir gerðu mynd eftir bókinni, yfirleitt hafa þeir stolið titlinum og skáldað svo í eyðurnar. Í þessari þá náðu þeir að fylgja söguþræðinum nokkurn veginn, ég er einlægur Fleming aðdáandi og á allar Bond bækurnar og það er nú þrátt fyrir að Fleming hafi verið argasta karlremba og kvenfyrirlítari. Bondinn í þessari mynd er líka grófari og meira rough týpa en áður hefur sést og það er hann nefnilega í bókunum. Og svo spillir ekki að nýji bondinn er búinn að vera MIKIÐ í ræktinni og er alveg hellings ber að ofan í myndinni. Þannig að það er eitthvað fyrir alla.
By the way þá er ég komin með nýtt heimanúmer fyrir löngu síðan 58590044

Thursday, November 23, 2006

flensborg

Ligg í sjálfsvorkunn með hita og kvebb en get þó glatt mig yfir minni eigin smekkvísi. Dúkurinn er kominn á gólfið og hann er geðveikt flottur. Þannig að þetta er eiginlega bara búið og það er ekki mér að þakka, það er minn heittelskaði sem er búinn að standa fyrir þessu öllu saman. Það er gott að eiga svona duglegan håndværker eiginmann.
Við ætlum að halda upp á þetta með að skreppa á nýja Bondarann um helgina, við höfum ekki farið á bíó í milljón ár(þegar maður er með 40 sjónvarpsstöðvar þá minnkar þörfin fyrir bíó).
Mér hefur fundist nóvember erfiður með skóla, vinnu og eldhús og svo framvegis og það er aðallega af því að ég er ekki góð í að skera niður í félagslífinu eða segja nei við aukavinnu. Og ég hef farið flatt á því áður að yfirplana mig og ætla svo mikið og fatta bara ekki hvar mín takmörk liggja. Það fór ekki vel á sínum tíma og tók mig marga mánuði að jafna mig andlega og líkamlega. Besta vinkona mín minnti mig á þetta í gær(takk elskan) og ég ætla að minnka verulega við mig. Ég verð að gera það af því að það er haugur af verkefnum fram að jólum og ég er orðin drulluþreytt á því að koma ólesin í skólann af því að ég hef ekki tíma. Það er helvítis bömmer að vera veik núna því að grúppan mín á að leggja fram verkefni á morgun og þær verða að gera það án mín.
Ég var í ræktinni á þriðjudaginn í fyrsta skipti í tvo mánuði og það var mjög fríkað. Ég gat hlaupið í 30 mín á hlaupabrettinu án þess að blása úr nös. Þetta gat ég ekki fyrir 2 mánuðum, ég skil þetta ekki alveg. Ég fór líka á vigtina og er búin að léttast um 3 kíló! Að fara ekki í ræktina svínvirkar greinilega!

Wednesday, November 22, 2006

Malmú!

Skrapp til útlanda um helgina og heimsótti nágrannaþjóðina. Malmö var alveg jafn hugguleg og síðast og kaffið var alveg jafn gott og seinast. Ég næ þessu ekki með kaffið, hvað eru Svíar að gera við kaffið þarna hinum megin við sundið? Ég hreinlega uppljómaðist yfir cafe latteinu mínu það var svo gott. Ég opna kannski bara sænskt kaffihús hérna og verð geðveikt rík.
Ég átti bágt með mig og þurfti að halda fast í budduna. Þarna gat maður eytt alveg helling af pening í jólapunt og dót fyrir heimilið. En ég stóðst þrekraunina og hélt mig við budgettið(en ég keypti diskamottur, gat ekki annað).
Eldhúsið gengur vel, dúkurinn fer á í dag og þá kemur næsta projekt á dagskrá, að gera skrifstofuna mönnum bjóðandi. Og svo ætlum við að halda housewarming þann 9. des svo við getum montað okkur af nýja eldhúsinu.

Tuesday, November 14, 2006

E-efni

Ég er að sjá fyrir endann á eldhús vitleysunni. Það verður hægt að vaska upp og jafnvel elda mat um helgina, jibbí! Uppþvottavélin kom í gær þannig að nú hefst nýtt tímabil í hjónabandinu. Hér eftir verður ekki hægt að rífast um hver á að vaska upp! Við erum búin að vera eldhúslaus núna í 3 vikur og erum búin að lifa á frönskum, pizzum og öðrum tilbúnum réttum. Maginn á mér er farinn í verkfall og vill fara á hráfæði. Hann er búinn að fá fleiri E-efni síðastliðnar 3 vikur en síðustu 3 ár. Það kom mér ótrúlega á óvart þegar ég var að versla allt junkfoodið hvað það er ódýrt. Það er t.d hægt að fá hálft kíló af frönskum fyrir 70 kall ísl. og pizzu fyrir 100 kall. Það er hægt að verða alveg ótrúlega feitur fyrir engan pening. Það er kannski þessvegna að Danir eru að hrynja niður úr offitu, þeir eru of nískir til að gera annað.
Minn heittelskaði er með flensu og hálsbólgu þessa dagana en ég held að þetta sé E-efna eitrun.
Nýja eldhúsið er rosalega fallegt, það var sett borðplata á í gær og sagað fyrir vaskinum. Svo kemur píparinn á morgun þannig að það ætti að vera hægt að vera þarna inni í næstu viku. Myndirnar koma seinna, myndavélin er í viðgerð
sayonara

Monday, October 30, 2006

Rass

Síðasti föstudagur var mjög interessant í skólanum. Ég fékk að pota í rassvöðvana á öðru fólki og það var potað í rassvöðvana á mér. Rass er vanmetið fyrirbæri, þetta var hið áhugaverðasta mál. Svo fengum við jiu jitsu kennslu í hádeginu og þar kenndi jiu jitsu gúrú bekkjarins okkur fantabrögð sem var ógeðslega gaman. Núna hálfvorkenni ég þeim sem mæta mér í dimmu sundi.
Operation "Eldhúsendurnýjun" gengur vel, við fengum rafvirkja um helgina sem fór hamförum upp um alla veggi og við náðum að ryðja gamla eldhúsinu út á ruslahaug. Ég er svo fegin að losna við þetta eldhús út úr íbúðinni, það var svo greasy og ógeðslegt. Maður gat fundið steikingarlyktina af frikadellum og fiskefiletum 30 ár aftur í tímann, ojbara!

Sunday, October 22, 2006

Bavíanar

Þetta er búin að vera geðveik helgi, ég er búin að vera vinna eins og bavíani. Ég tók tvöfalda vakt á föstudaginn,dagvakt á gamla staðnum og kvöldvakt á nýja staðnum og svo er ég búin að vera helgina á gamla staðnum plús að standa í framkvæmdum heimafyrir og ég tala nú ekki um heimavinnuna. Minn heittelskaði er búinn að vera á útopnu hérna á heimafrontinum, setja saman skápa, brjótandi niður veggi og þar fram eftir götunum. Við erum komin með hurðargat frá eldhúsi inn í stofu og það er flottara en við vorum búin að reikna með. Það gefur mikið meira ljós í íbúðina og gerir hana stærri á alla vegu. Næsta verkefni á dagskrá er svo að ráðast á eldhúsinnréttinguna. Við dugleg!

Thursday, October 19, 2006

Áfram með forfeðrapælingar!
Hann ,Ólafur afi missti mömmu sína 1 árs gamall og var settur á sveitina og var síðan komið fyrir á hinum og þessum bæjum sem áttu ekki nógu mörg börn til að þræla út. Hann fékk takmarkaðan kærleik, barinn reglulega og lítið sem ekkert að borða. Samkvæmt öllum viðurkenndum uppeldis og sálfræðibókum miðað við þetta uppeldi(eða miseldi) þá hefði Ólafur afi átt að vera argasti psykopati eða að minnsta kosti alki. En nei, Ólafur afi var góður kall sem kom með flugelda handa barnabörnunum á gamlárskvöld og forðaði þeim frá því að borða augun,eyrun og alla aukahúðina(sem enginn vill) á sviðunum. Geri aðrir betur! En kannski vorum við systurnar of vel aldar , ef við hefðum verið sveltar dáldið þá hefðum við étið eyrun með bestu lyst.

afmælispóstur!

Já, hún uppáhaldsmóðir mín á afmæli í dag(ekki það að ég eigi margar), þetta er nú reyndar afmælisvika í familíunni. Erna systir átti afmæli á síðasta sunnudag og Lilja amma átti afmæli síðasta þriðjudag þar að segja ef hún væri enná lífi. Ég er í 100% framför með með að muna eftir afmælisdögum þetta árið,ég náði að hringja í litlusystur sama dag og hún átti afmæli. Því náði ég ekki í fyrra! þannig að það er þvílíkur success. Maður verður að gleðjast yfir litlu hlutunum í þessu lífi. Ég verð að leggja mig extra mikið fram við svona hluti þetta árið því að ég fer heim um jólin. Familían verður að vera í stuði til að elda oní mig stórsteikur og hangikjöt og så videre.
Ég stend í miklum forfeðrarannsóknum útaf verkefni í skólanum og það er ekkert skrýtið að ég sé svona skrýtin. Ég kem af gífurlega þjáðu fólki langt aftur í ættir, sultur, sjúkdómar, alkóhólismi og ungbarnadauði nema náttúrulega einn forfaðir minn sem var hirðstjóri yfir Íslandi sem hann leigði af Noregskonungi í 3 ár fyrir slikk. Ég geri ráð fyrir að hann hafi fengið nóg að borða.

Saturday, October 14, 2006

nååhh!

Jæja, þá er að taka sig saman í andlitinu og fara að blogga aftur. Ég fór á menningarnótt í gær, við hjónin byrjuðum á nútímalist frá Miðausturlöndum, það var mjög boring, of nútímalegt fyrir minn smekk. Svo fórum við á kirkjutónleika með renaissancetónlist og það var einfaldlega himneskt, gæsahúð,hrollur og allur pakkinn. Og tónleikarnir voru í uppáhaldskirkjunni minni, Marmor kirke, það er mjög sérstök stemming að vera þar inni, ég hef á tilfinningunni að Guð komi oftar við þar en í öðrum kirkjum. Svo kom röðin að gospeltónleikum í annarri kirkju, og mér fannst það bölvaður hávaði eftir hina tónleikana en minn heittelskaði halelújaði sig alveg í tætlur. Ég gafst upp og fór á kaffihús með Betu systur á meðan halelújahávaðinn var að klárast.
Skólinn er alveg frábær, ég náði loksins einhverri yfirsýn yfir þetta allt saman í vikunni. Einnig fékk ég tækifæri sem 1.árs nemandi að eyðileggja nokkur börn í síðustu viku. Við fórum að kenna 11 ára gömlum grislingum um líkamann og þau bíða þess örugglega aldrei bætur(svona er þetta að senda fólk út sem er búið að vera 1 mánuð í námi út að gera eitthvað). En þetta reddast örugglega fyrir þau ef þau taka rispu hjá sjúkraþjálfara og sálfræðingi í nokkur ár.

Monday, September 25, 2006

Joggingskólinn hluti 1

Mitt stærsta problem í dag er að ég á ekki nógu margar joggingbuxur, skólinn er afslappaðri en allt sem afslappað er! Það er bara jogginggallinn á morgnana og svo greiðir maður sér ef maður ætlar vera extra fínn þann daginn. Ég meira að segja fór í skólann í seinustu viku án þess að setja á mig maskara, pælið í því!Fyrsta vikan með nýju fólki og maður er það afslappaður að maskarinn gleymist! Hérna fínn ég virkilegan mun á íslensku og dönsku skólakerfi. Við gerum verkefni sem við skilum ekki inn, ræðum alveg svakalega mikið um málin og þetta fjallar mest um það að upplifa sjálfan sig og skrifa sig og sínar tilfinningar niður. Ég náttúrulega íslendingur spyr alltaf "hvenær eigum við að skila þessu?" Og þá fæ ég yfirleitt svarið "nei nei ekkert vera að því,þetta er fyrir þiiiiig!"! Þessu þarf víst að venjast.

Monday, September 18, 2006

Þá er fyrsti í skóla búinn, ég byrjaði í anatómíu í morgun og skildi mjög takmarkað það sem fór fram þar. Dönskulatínan mín er nebnilega helvíti ryðguð en þetta hlýtur að koma. Bekkurinn er hið vinalegasta fólk upp til hópa og var ekkert nema liðlegheitin. Skólinn er á frábærum stað, eiginlega út í skógi ,við stöðuvatn og umkringdur epla og perutrjám, þvílík huggulegheit. Mötuneytið fær líka toppeinkunn! Svo fékk ég þær gleðifréttir að það eru ekki próf um jólin,heldur í vor og það hentar mér mjög vel. Hérna er linkurinn ef þið viljið skoða http://www.skolenforpsykomotorik.dk/. Svo er ég í frí á þriðjudögum og þá fer ég að vinna.
Draumur í dós!

Thursday, September 14, 2006

I did not see that one coming!!!

Vá mar!!!
Ég fékk alltí einu inní skólann sem vildi mig ekki, þeir hringdu í gær og buðu mér pláss. Það datt einhver út, allir á biðlistanum voru uppteknir við eitthvað annað ,guð sé lof og þá kom bara röðin að mér!! Ég tala við yfirmanninn í vinnunni og hún er svo stórkostleg að að hleypa mér í skólann strax á mánudaginn(þó að hana vanti geðveikt starfsfólk). Ég er barasta að fara í háskóla í næstu viku, rosalegt!! Þegar það gerist þá gerist þetta hratt, mér líður eins og ég hafi fengið eldingu í hausinn. jíbí jei,jíbbí jei, djöfull er þetta æðislegt líf!!!!

Saturday, September 09, 2006

Dugleg!

Búin með seríu 5, bara ein eftir!

Friday, September 08, 2006

Sexfíkill

Mér er um megn að stjórna Sex and the city fíkninni þessa dagana. Ég fékk nebnilega kassa með öllum seríunum í afmælisgjöf og ég er algjörlega stjórnlaus. Get ekki gert neitt hérna heima nema að brjóta saman þvott(og þá bara ef hann liggur í sófanum fyrir framan imbann). Ég meika það varla að fara út úr húsi á fundi. Ég hef fengið ráðgjöf hjá nokkrum aðilum og mér líst eiginlega best á tillöguna sem hún systir mín elskuleg kom með. Hún sagði að ég ætti bara að klára kassann og þá get ég farið að lifa eðlilegu lífi aftur. Ég er komin í 4 seríu ,disk 3 þannig að það er ekki svo mikið eftir. Þetta er kannski ekki sú mest agaða leið sem ég gæti farið en hún er skemmtileg:) Ég get örugglega verið búin á mánudag ef ég er mjög hömlulaus.
Ég fékk þessa þvílíku martröð í nótt, minn heittelskaði hljóp á eftir mér með hníf og ætlaði að drepa mig og að fela svo líkið útí skógi! Ég slapp naumlega með skrekkinn og var að reyna að segja fólki hvað hafði skeð og það trúði mér enginn. Nú má einhver taka fram draumaráðningarbók og að láta mig vita hvern djöfullinn þetta þýðir. Vinn ég í lottó eða er Anders Hannibal Lecter í rauninni? Endilega láta mig vita hvort það er! Þá get ég gert viðeigandi ráðstafanir,t.d að fara að sofa með annað augað opið!

Himininn yfir Köben var æðislegur í dag , brjálæðislega blár himinn með renaissance málverka skýjum. Lífið er bara helvíti gott í dag. Guð blessi ykkur!

Thursday, September 07, 2006

kvebb

Ég fékk svo mikið áfall við komuna til Baunalandsins að ég lagðist í kvef og hálsbólgu, ég hef náð mér í danska sýkla í flugvélinni. Beta og Mikkel voru hér í gærkvöldi að horfa á ísland-Baunar og ég komst að þeirri niðurstöðu að fótbolti er aldrei skemmtilegur ekki einu þegar manns eigið föðurland er að spila. Svo við Beta þrautskoðuðum HM listann í staðinn! Og ég er ekki að tala um HM í fótbolta.
Ég keypti Draumalandið eftir Andra Snæ og las hana í flugvélinni, hún er algjör snilld. Hann hittir svo naglann á höfuðið, ég hló upphátt allan tímann og fólk var farið að glápa á mig í vélinni. Þetta er must-read fyrir alla Íslendinga.
Ég er í trylltri frestunaráráttu þessa dagana og það er ekki gott. Ég er að fresta því að finna mér annað jobb og og ligg í sex and the city safninu mínu í staðinn. Ekki vænlegt til vinnings!

Friday, September 01, 2006

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en hann hefur búið í Danaveldi í eitt ár.

Jæja nú er þetta búið, seinasta heimsóknin búin og búið að njóta baðkarsins hennar mömmu í síðasta skipti. Ég er algjörlega agndofa yfir því að ég hafi hreinlega ekki "séð" Ísland fyrr en núna. Þetta er fallegasta land í heimi og ég þurfti að stinga af til Baunalandsins til að sjá það. Þessi ferð er búin að vera frábær, ég fór með Ernu frænku í bíltúr austur í Biskupstungur í berjamó og að skoða nýja sumarbústaðinn. Síðan enduðum við í mat hjá Ingu frænku í Reykholti og svo áttum við æðislega huggulegt kvöld út á palli fyrir framan kamínuna. Og ég féll algjörlega fyrir Reykholti, ég byggði einbýlishús þar í huganum og fannst það passa fínt, þetta er merkilegt ástand, mér fannst meira að segja Hellisheiðin algjörlega ómótstæðileg og þar hef ég keyrt milljón þúsund sinnum yfir ævina og aldrei fundist hún neitt sérstaklega spes fyrr en núna. Ég ætla ekki einu sinni að fara út í þessa stórkostlegu fjallasýn í kringum Rvk, maður þarf ekki einu sinni að fara út úr bænum.
Ég ætla rétt að vona að Íslandssýkin rjátli af mér eftir að ég kem til baka í hversdagsleikann úti.
Ég hef náð að hitta vel flesta sem ég ætlaði mér í þessari ferð og það hefur verið frábært að endurnýja kynni og finna að það breytist ekkert við smá fjarveru. Ég var reyndar að átta mig á hvað ég elska mikið af fólki og náði að telja upp í 62 manns sem ég elska út af lífinu. Og það er þá með þeim fyrirvara að ég er að gleyma alveg helling! Ég dugleg!
takk fyrir mig í þetta skipti og hafið í huga að þó að lífið sé kúkur suma daga þá gæti lífið verið kúkur á ljótari stöðum en Íslandi!

Monday, August 28, 2006

Berjamó?

Ég er alveg búin á því, það er búið að vera stanslaust prógram síðan ég kom ,alveg gegndarlaust lambakjötsát og kaffidrykkja. Ég held ég sé búin að drekka ársskammtinn af kaffi en þetta þarf bara ef amma ásdís á að vaka fram yfir miðnætti.
Ég er svo skotin í Íslandi að ég get ekki farið til Köben á morgun. Ég er búin að framlengja miðann fram á föstudag! Hver vil koma í berjamó?

Friday, August 25, 2006

Ilmurinn!

Það er góð lykt af Íslandi í dag, ég væri til að pakka niður ferska loftinu og hafa með mér til Köben. Svo fann ég krækiber og hrútaber í göngutúrnum. Namm Namm

30

jæja þá er maður orðinn þrítugur, sem er bara ekkert nema jákvætt. Núna man ég allavegana hvað ég er gömul!. Ég átti æðislegan afmælisdag sem byrjaði á sundferð, svo var klipping og svo kíkti ég á gamla vinnufélaga og félaga. Svo fékk ég langþráð lambalæri í matinn! Það gerist ekki betra.
Ég finn fyrir því að ég er búin að danskast dáldið, mér finnst íslenskir fréttamenn alveg hryllilega skýrmæltir og þegar ég er að keyra þá er ég alltaf að passa mig á hjólreiðamönnunum sem af einhverjum ástæðum láta ekki sjá sig:). Mér finnst æðislegt að vera hérna og það er svo nice að sjá langt frá mér, sjá fjöllin og sjóinn. Geggjað! Eins og alltaf er ég búin að yfirbóka mig, ég ætla mér að sjá alla á þessum stutta tíma og það er ekki alveg að gera sig.

Sunday, August 20, 2006

Jibbí!!!!

Ég fékk þá bestu ammilisgjöf sem ég hef nokkurn tímann fengið. Minn heittelskaði gaf mér flugmiða til Íslands í afmælisgjöf þannig að ég kem á klakann á miðvikudaginn!!!! Ég ætla í sund, á american style, fá mér ýsu, fara á rúntinn, horfa á Esjuna og draga djúpt andann! Ég hlakka geðveikt til! Rosalega er gott að vera vel gift!

Thursday, August 17, 2006

Til hamingju!

Það er kominn ákveðinn haustfílingur í Baunalandi, fór í sokkum og inniskóm í vinnuna í daga(það er reyndar guðlast hér í landi samkvæmt mínum heittelskaða). Mér fannst það ágætis málamiðlun, það er of heitt til að vera í alvöru skóm og of kalt fyrir að vera berfætt í sandölunum. Ég er komin með nýtt plan og er búin að skrá mig í skóla. Ég ætla að gerast "healingmassør" og ég byrja á fyrsta námskeiðinu í nóvember. Þetta verður þannig að ég tek 5 daga kúrsa svona annan til þriðja hvern mánuð og verð að vinna á meðan. Ég er að leita mér að nýrri vinnu þannig að ef þið vitið um eitthvað svaka skemmtilegt þar sem maður þénar fullt af peningum endilega láta mig vita.
Ljónynjan hún Guðmunda á ammili í dag, hún er þrítug í dag! Til hamingju með daginn krúttið mitt!

Sunday, August 13, 2006

Vitrun!

Fór í heimsókn til vinkonu minnar um daginn og fékk smá vitrun um framtíðina. Er að vinna í henni, það skýrist betur í næstu viku. Það er búið að rigna talsvert upp á síðkastið og það hefur verið mjög huggulegt, ég var orðin ágætlega þreytt á sólinni. Fór meira segja í sokkum í vinnuna á mánudaginn, það hefur nú ekki skeð síðan í maí!

Tuesday, August 08, 2006

blah

Ég er eitthvað fúl og eirðarlaus í dag og var í leiðinlegu vinnunni minni (leiðinleg vinna =updeita íslenskan læknagagnagrunn). Ég held meira segja bara að ég hætti í leiðinlegu vinnunni. Tilgangurinn með þessari vinnu var að hafa hana með skólanum(þægilegur vinnutími plús góð laun) og ég komst ekki inn í skólann þannig það er þannig séð engin ástæða til að píslarvottast hér meir! En yfirmaðurinn er í fríi og þá fæ ég að fresta uppsögn um viku. Frestun er víst góð fyrir sálina(þá getur maður notið kvíðans aðeins lengur).
Er ekki búin að fatta nýja planið ennþá, ég sit ennþá í rústunum af gamla planinu sem klikkaði og pæli í því hvern djöfullinn fór úrskeiðis
Fór með lillesøster og Bentinum til Malmø í Svíþjóð í gær og brenndi þessum ósköpum af hitaeiningum af því að þau labba hraðar en ég. Það var mjög gaman, allt ódýrara og sá allra besti caffe latte sem ég hef nogensinde fengið. Algjörlega himneskur kaffibolli! Það er alveg þess virði núna að skreppa til Svíþjóðar fyrir kaffibolla. Svo eru fötin stærri í Svíþjóð af einhverjum orsökum, ég passaði í medium og small sem ég hef nú ekki gert síðastliðin 10 ár. Sjálfsmyndin hefur gott af því að versla hjá Svíunum.
Ég er með heimþrá þessa dagana og fæ hana yfirleitt þegar koma gestir frá klakanum. Ég sé klakann í rósrauðum bjarma núna og er búin að þróa með mér jákvætt viðhorf til lífsgæðakapphlaups, verðtryggingar, vinnualkóhólisma, verðbólgu og skítaveðurs! Eins og þið sjáið þá er ég ekki með öllum mjalla í dag!

Monday, July 31, 2006

Vonbrigði ársins!

yes, þeir vildu mig ekki inn í skólann sem er nú algjörlega fyrir ofan , neðan og til hliðar við minn skilning. Ég var ægilega sár í nokkra klukkutíma. Það hlýtur þá að vera betra plan í gangi en það sem ég var með( ég var samt með helvíti gott plan:(
Þá er að snúa sér að næsta máli á dagskrá, finna sér nýja vinnu og reyna fatta hvað í andskotanum þetta nýja plan er eiginlega.
Sayonara!

Monday, July 17, 2006

Jæja þá er ég komin úr hýði aftur, ég gæti svosem reynt að kenna góðu veðri um að ég nenni ekki að blogga en það er bara léleg afsökun. Talandi um gott veður þá er bara gott veður alltaf!! Þetta er skrýtið fyrir íslending að hafa sama veðrið á hverjum einasta degi, þetta er bara eins og að búa á Spáni. Það er annars allt heitt og gott að frétta. Það eru 11 dagar í að ég fái bréf frá skólanum og ég bíð spennt. Við erum búin að fá grænt ljós á að kaupa íbúðina sem við erum í núna sem er æði. Þá hefjast sko framkvæmdir skal ég segja ykkur! Það verða máluð loft, nýtt eldhús, nýtt bað og ný stofa. Vala Matt getur alveg óhætt komið í heimsókn í október

Sunday, June 18, 2006

sumar

Ég elska þennan árstíma í Baunalandinu, kirsuberin og jarðarberin eru mætt á svæðið. Og það eru alvöru sæt jarðarber ekki þetta súra drasl sem maður fær á Íslandi. Svo eru plómur, melónur, ananas og svo framvegis mmmmm!!! Þannig að það eru ávextir í hvert mál þessa dagana , sem passar ágætlega við sumarveðrið. Ég er orðin svo aðlöguð þessu sumri hérna að mér verður bara kalt í 20 stiga hita. Ég er búin að vera í grillpartíum alla helgina og slappa af. Við fórum á ströndina í Tisvildeleje á föstudaginn og vorum svo í heimahúsi í Helsinge, ég var með stelpunum í vinnunni og ég hló svo mikið að ég er ennþá með harðsperrur í kjálkunum. Talandi um harðsperrur, ég er byrjuð í ræktinni til að vinna á majónesbumbunni minni. Ég er spennt að sjá hvort ég nái að vera lengur en í mánuð, það er nefnilega metið! En maður verður að vera vongóður í þessu lífi, það þýðir ekkert annað!

Saturday, June 10, 2006

Sugababes!

Fór á tónleika með Sugababes í gærkvöldi og þær voru þrusugóðar. Ég er búin að vera pínu fan í smá tíma og það kom mér á óvart hversu góðar þær eru live. Þær voru með sitt eigið band og það var ekkert playback í gangi. Ég sá í dag í blaðinu að Eivör páls er hérna með tónleika á fimmtudaginn og ég lýsi eftir baunabúa til að fara með mér, hún er æði.
Staðan í Baunalandinu í dag er sú að það er 19 stiga hiti kl.9 á morgnana og það er ágætt skal ég segja ykkur. Og það verður hitabylgja í næstu viku þannig að mér ætti ekki að verða kalt.
Ég hef lengi verið á pirruð á reykingarfíkn Baunana og ég hef engan tolerans fyrir þessu bulli. Ég sæki þessi 3 kaffihús í Köben sem eru reyklaus eins mikið og hægt er. Reykingar á almannafæri eru mesta sjálfselska í heimi. En þetta er allt að koma, það er stór kaffihúsakeðja hér í bæ sem er búið að lýsa sig reyklausa þannig að ég hef fleiri staði til að fara á núna. Ég var boðin í afmæli í kvöld og það var góður matur og félagsskapur. En við hjónin fórum heim fyrir desert af því að við meikuðum ekki reykingarnar. En þetta breytist hægt og rólega hérna, þeir eru í gangi með að fara að banna reykingar á vinnustöðum og þá kemur þetta.

Wednesday, May 31, 2006

Ég komst í vinnuna á síðasta mánudag heil á húfi þökk sé lestarkerfinu. Ég er orðin fín í hnénu svo að mér hefur ekki tekist að skemma neitt mikilvægt. En þetta kostaði mig viku frá vinnu og mér tókst að gera einfaldlega ekkert af viti hérna heima fyrir(enda engin ástæða til). Það var reyndar einn jákvæður póll í þessu, þegar ég kom aftur í vinnuna þá var hún frú R. svo glöð og þakklát að sjá mig að hún hefur ekkert verið óþolandi í þessari viku(og þetta er eldri kona sem mig langar að kæfa með kodda svona einu sinni í viku). Ég ætti kannski að gera þetta reglulega, mæta ekki hjá henni í viku og þá verður hún svo auðveld viðureignar eftirá.
Pétur vinur okkar er búinn að vera í heimsókn hjá okkur og við erum búin að leika túrista út um allt. Við kíktum í anddyrið á einu nýlistasafni, tveimur höllum og einni dómkirkju. Það er ekki að við séum svona yfirborðskennd, við vorum of nísk fyrir nýlistasafnið og allt hitt var lokað. En við erum allavegana búin að sjá framan á fullt af byggingum. Svo fórum við á smörrebröd stað í gærkvöldi, svona ekta danskan, mjög gott en það vall majones út úr eyrunum á mér eftir á. Þetta er afar mikið feitmeti, það er ekkert skrýtið að Danir séu feitir.
Fór á X-men og hún var ekkert spes, það eina sem gerir hana þess virði að sjá hana eru vöðvarnir á Wolverine!

Tuesday, May 23, 2006

Hvað meinaru!

Ég lenti í slysi númer 2 í gær annan mánudaginn í röð, rann til í bleytu og tók svona Tom Cruise, Mission impossible 3 fall af hjólinu, mjög dramatískt. Mér er hreinlega ekki farið að standa á sama hérna, ég er búin að vera með bílpróf í 12 ár og aldrei lent í neinu fyrr en núna og það eru 2 vikur í röð. Og ég meiddi mig á sömu stöðum í seinustu viku bara aðeins meira í þetta skiptið. Núna er ég með bólgið hné(sömu megin og sama hné og í síðustu viku) og fasta öxl þannig að ég kemst ekki í vinnuna. Það fyndna er að ég var á leiðinni heim til að kaupa lestarmiðann af því ég er svo leið á að keyra þetta. Svo núna verður hann pottþétt keyptur eða ég verð að hætta að mæta í vinnuna á mánudögum(sem er ekki slæm hugmynd). Helvítis helvíti!

Friday, May 19, 2006

júróvisjón

ja, þetta er ekki gæfulegt ástand, íslendingar hafa ekkert verið að deyja úr velgengni hingað til í júróvisjón en ég held að ég geti fullyrt það að aldrei hafi verið búað á íslenska lagið áður en það var flutt(kannski eftir á en ef svo er þá hefur það verið verðskuldað). Eitthvað hefur hún Sylvía elskan farið fyrir brjóstið á grikkjunum. Þetta er hálfgerð synd að hún fór svona herfilega yfir strikið í húmornum vegna þess að þetta er virkilega fyndið lag. En ljósi punkturinn í þessu öllu er að það er alveg sama hvað við sendum næsta ár það getur ekki fengið verri móttökur en í ár.
Ég var hrifin af Litháen,geðveikur húmor og svo náttúrulega finnsku orkarnir. En ég held að Úkraína taki þetta, ég hafði rétt fyrir mér með Ruslönu hérna um árið þannig að ég ætla að veðja aftur á sama hest. Eigiði gleðilegt júróvísjón!

Tuesday, May 16, 2006

Ásdís Skaðvaldur

Já, mér tókst að keyra aftan á bíl í gær, alveg ekta mánudagur. Bíllinn fyrir framan bremsaði dáldið harkalega og ég var ekki nógu vakandi. En það góða við að keyra um á plasthjóli er að maður nær ekki valda neinum skemmdum af viti, bíllinn slapp með rispu á stuðaranum. Scooterinn er pínu ljótari að framan, hann brotnaði aðeins en keyrir fínt. Ég er smá aum í skrokknum eftir höggið en það gengur fljótt yfir.
Ég keypti mér sólbrillur um daginn með styrk, ég hef ekki gengið með brillur í 2 ár núna. Ég týndi seinasta pari við grunsamlegar aðstæður. Þvílíkur munur, ég sééé!!!!. Ég rata mikið betur núna af því að ég sé nefnilega hvað göturnar heita núna. En málið er að það er dáldið fáránlegt að horfa á sjónvarp og lesa bækur með sólgleraugu. Það er rosa kúl, ég sé mjög skýrt en það er dáldið dimmt svona innandyra. Svo næsta skref er að kaupa venjulegar brillur!
Fór í viðtal í dag útaf skólanum og það gekk vel. Núna er bara að bíða til 28.júlí. Þá gerast stórir hlutir. Ég og minn heittelskaði erum í meiriháttar skipulagningu þessa dagana varðandi heimilisstörf, núna gerum við matseðil fyrir heila viku og kaupum inn EINU sinni inn í viku. Það er æði, ég var alltaf úti í búð hérna áður annanhvern dag og brjótandi heilann um hvað í andskotanum við ættum að éta þetta kvöldið. Núna er ég laus við þær pælingar, dejligt!

Tuesday, May 09, 2006

sumar

Það hefur verið ákveðið í ár að sleppa vorinu og fara beint yfir í sumarið. Það er búið að vera yndislegt veður og 20 stiga hiti í viku. Það er ekki hægt að keyra á scooternum með hanska, það er of heitt. Þetta er algjör snilld, trén eru að springa út í blómum, kirsuberjatrén og magnólíutrén eru svo falleg, ég gæti eytt heilum degi í að horfa á þau. Svo er komin þessi útlandalykt í loftið, svona heit gola með blómalykt. Æði!
Mér finnst alveg gífurlega gaman að brúnkuáráttu Dana, hér í landi er samasemmerki að líta vel út og vera brúnn. Ég hef tekið eftir fullt af fólki sem er grunsamlega dökk sólbrúnt svona í byrjun sumars, það er búið að liggja í sólarbekkjum svo að það sé hægt að taka sig vel út í stuttbuxunum. Ég á ekki mikinn sjens í brúnkukeppnina með mín kríthvítu gen og verð líklega eina hvíta manneskjan í Danmörku í sumar. Ég meina ,það verður einhver að vera það!
Ég ætla að fara að þvo stofugluggana, það sér ekki til sólar fyrir skít.

Friday, May 05, 2006

Pappírsbrúðkaup

Jæja þá er maður búin að þrauka 1 ár í hjónabandi, djöfull erum við dugleg! Þessi dagur verður nú alltaf merkilegri og merkilegri. Einn af mínum fastakúnnum Vagn Lund var að fræða mig um það í dag var Danmörk var frelsuð undan nasistunum í den tid. Vagn man vel eftir þessu, það var þvílík gleði!
Ég var vakin með blómum frá mínum heittelskaða og þar með hefur hann unnið sér inn bónusstig sem ættu að endast fram á haust. Ég væri reyndar alveg til í að vakna svona á hverjum morgni. Ef maður fær blóm í rúmið þá verður maður svakalega glaður.
Við ætlum að fara og borða besta sushi í heimi í kvöld og hygge okkur
knús

Wednesday, May 03, 2006

Sumarið komið!

Haldið ekki að sumarið sé komið í Baunalandinu. Það var 20 stiga hiti í dag,alveg ótrúlegt! Ég verð að fara að kaupa sumarföt bráðum. Hafið þið séð þátt sem heitir Felicity,undarlegur þáttur sem virðist snúast um samband tveggja háskólakrakka og vina þeirra. Ég sá þátt um daginn sem var bara absúrd, allir voru búnir að vera með öllum og voru í því að spurja hvorn annan hvort þeir mættu deita þeirra fyrrverandi sem þeir þó höfðu verið með áður. Afar undarlegt en þetta er eins og með bílslys, maður verður að horfa.
Fór á nýjustu Woody Allen myndina, og hún var bara helvíti góð, rosalega öflugir leikarar

Friday, April 28, 2006

yyyeeeeessssss!!!!!

Ég kemst í viðtal í skólann sem ég sótti um !!!! Djöfull er ég ánægð, núna er ég komin í 45 manna hópinn. Djöfull skal ég kjafta mig inn í þennan skóla!!!! ííhhhhaaaaaaa!!!!!

Tuesday, April 25, 2006

HÆ!

Þá er ég flutt! Núna vakna ég við fuglasöng á morgnana í staðinn fyrir umferðarnið, mjög huggó. Ég verð víst aðeins að útskýra hvar og afhverju og hvernig ég flutti hingað ,fólk er ekki alveg að fylgjast með. Það er líka dáldið snúið, ég er búin að flytja oft upp á síðkastið.
Sko! Við erum flutt til Rødovre(hræðilega erfitt að bera fram, það er búið taka mig ár að læra það). Rødovre er í áttina að Roskilde, svona sunnan megin í Köben, dáldið útúr en samt ekki. Það tekur mig 15-20 min að hjóla niður í bæ, 10 min með strætó. Íbúðin er í fjölbýlishúsi í rólegu hverfi og það er stórt vatn hérna við hliðina á, alveg hrikalega sjarmerandi. Við erum á efstu hæð(semsagt íslenskri þriðju) og íbúðin er að hluta til undir súð. Hún er 55 fermetrar og það er stofa og tvö svefnherbergi. Við erum hér af því að besti vinur hans Anders sem á íbúðina náði sér í konu með tvö börn (eða hún í hann, löng saga). Þau eru nýbyrjuð að búa saman og ef þau hanga saman í hálft ár á nýja staðnum þá ætlar besti vinur hans Anders að selja okkur íbúðina. Þetta er hlutaíbúð, svona svipað system og búseti bara 4 sinnum ódýrari leiga. Hluturinn kemur líklega til með að kosta 3 milljónir íslenskar og svo er það um 20.000 ísl í leigu á mánuði(sem er by the way ekki neitt!!!). Svo þurfum við að gera nýtt eldhús og bað og þá verður íbúðin rosa fín. Myndir eru á leiðinni!

Friday, April 21, 2006

Afsakið hlé!

Smá updeit hérna! Er að flytja á morgun til Rødovre á morgun, erum búin að fá hlutaíbúð sem við eigum möguleika á að kaupa eftir hálft ár þannig að við sjáum fram á að geta hætt að flytja. Við máluðum allt seinustu helgi þannig að það er allt voða hvítt og huggó, eldhúsið og bað eru reyndar algjör horror og það er ekkert við því að gera fyrr en við kaupum. Þá ætlum við að taka smá auka lán og gera nýtt bað og eldhús. Þar sem þetta verður framtíðarhúsnæði þá fáið þið myndir bráðum. Ég er ennþá að bíða eftir svari frá skólanum, heyri líklega frá þeim í maí.
Vorið er komið í Danmörkinni, spáin er 18 stiga hiti á mánudag. Úllalala!
Over and out!

Sunday, March 19, 2006

Beta og Mikkel voru hjá okkur að spila Settlers, þetta er svo skemmtilegt spil. Það tók reyndar 2 ár fyrir mig að byrja að vinna einstaka leik en það skiptir ekki máli. Stundum verður maður bara að vera eins og maður sé að keppa í ungfrú Reykjavík og bara "vera með"! Ég og Beta áttum snilldarmove í gær þegar við rústuðum verslunarleiðinnni fyrir mínum heittelskaða. Hann var ekkert sérlega sáttur en svona er þetta bara. Amma Ásdís náði að halda sér vakandi til hálftvö í nótt með hjálp Settlers adrenalíns og helling af kaffi og þar afleiðandi að sofa til hálfníu í morgun! Dugleg

Saturday, March 18, 2006

ammili!

Minn heittelskaði átti afmæli í gær, ég eldaði þessa þvílíku nautasteik handa honum, hún var ekkert smá góð. Svo var vídeókvöld dauðans, þar að segja til svona tíu, þá var hún amma Ásdís búin á því og þurfti að fara að sofa. Ég er ótrúleg, það slökknar á mér kl 10 á kvöldin ,ég er orðin gömul. Svo er það ótrúlega pirrandi, ég vaknaði kl hálfsjö í morgun, mig langaði svo að sofa út, ég bara gat það ekki. Þannig að ég hringdi í foreldrana, þau eru þau einu sem ég þekki sem eru vakandi á þessum tíma. Það er 10 stiga hiti á Íslandi, djöfull er þetta hallærislegt, það eru 0 gráður hér!

Thursday, March 16, 2006

list og lífið

Fór á listasafn í gær , það gerist nú mjög sjaldan. Tilefnið var Rembrandt sýning sem ég fór að kíkja á með konu úr vinnunni. Við fengum fyrirlestur um málarann og verkin og þetta var þrælskemmtilegt. Ég fékk alveg nýja sýn á þetta allt saman, ég hafði aldrei pælt neitt sérstaklega í Rembrandt og afhverju hann er svona spes. Afhverju verður maður ekki snilli fyrr en eftir að maður drepst! Það eru tæplega 400 ár síðan hann málaði þessi verk og það slefa allir yfir þessu í dag og ég tala ekki um hvað verkin hans kosta. Bara þessi 20 verk sem voru á sýningunni kosta samanlagt milljarða í dag. Pant vera snilli í að mála og finna svo upp tímavél, það kann örugglega einhver að meta mig eftir 300 ár!!
En það var mjög gaman að gera eitthvað sem ég er ekki vön að gera og ég kíki pottþétt þarna inn aftur.

Tuesday, March 14, 2006

Loksins

Nú er umsóknin í skólann komin á áfangastað! Þvílíkur léttir, ég er búin að vera í þráhyggju út af þessari umsókn í mánuð og það hefur voða lítið annað komist að. Á endanum fékk ég Betu snilling systur mína til að skrifa hana fyrir mig, ég hefði átt að fatta það mikið fyrr. Ég er hreinlega ekki nógu sleip í dönskunni. Núna þarf ég bara að bíða fram í maí til að fá að vita hvort ég kemst í viðtal eða ekki. Spennó!
Ekkert nýtt að frétta af flutningum, flytjum kannski seinni part apríl. Það kemur allt í ljós. Ég er í svakalegum matarræðispælingum þessa dagana, ég er hjá biopata og það gengur vel. Ég var hjá henni áðan og er nú orðin candidalaus sem er ánægjulegt. Ég er að lesa "Borðaðu eftir þínum blóðflokk" og finnst þessi kenning áhugaverð. Og ég komst líka að því að ég borða nokkurn veginn eins og ég á að gera samkvæmt þessari bók án þess að fatta það. Ég virðist ekki fíla að borða þá hluti sem eru ekki hollir fyrir mína blóðtýpu sem er dáldið fyndið. Það var þvílíkt félagslíf hjá mér seinustu helgi, var út að borða með stórusystur og Kristínu Maríu frænku á föstudagskvöld, svo vorum við að hanga með sigrúnu tengdó, Ollu og Stulla á laugardags og sunnudagskvöld. Svo vorum við með hitt tengdafólkið og bróður Anders og konuna hans í mat í gærkvöldi. Brjálað að gera! Hér er ennþá fáránlega kalt, ég er farin að missa trúna á því að það hlýni nokkurn tímann. Ég er orðin ágætlega þreytt á þessu.

Monday, February 27, 2006

Oooohhhh!

Það er allt að gerast þessa dagana, við erum ekki búin að klára að taka uppúr kössunum og það er búið að bjóða okkur aðra íbúð, mikið ódýrari og með möguleikann á að kaupa seinna meir. Undir venjulegum kringumstæðum þá væru þetta gleðifréttir en ég hreinlega meika ekki einu sinni tilhugsunina um að flytja eftir 3 mánuði. Ég þarf alltaf ágætis tíma á milli flutninga til að geta gleymt því aðeins hvað það er drulluleiðinlegt að flytja. En við þurfum framtíðarhúsnæði og íbúðin sem við erum í núna er það ekki. Svona er þetta bara!

Saturday, February 25, 2006

Ennþá allt í rúst,American Idol er tekið við af Beverly Hills, við eigum svo mikið drasl það er eiginlega ekki fyndið. Fólkið sem hjálpaði okkur með að flytja fékk brjóstklos bara við að sjá hrúguna sem þurfti að flytja á milli bæjarhluta. Annaðhvort okkar hjónakornanna er með söfnunaráráttu og það er ekki ég! Til dæmis komst ég að því að við eigum 5 borð, 1 stofuborð,2 borðstofuborð og 2 skrifborð og þetta fluttum við allt frá Íslandi. Þetta er nú eitthvað grunsamlegt og það er ótrúlegt að ég hafi ekki tekið eftir þessu þegar við fluttum á milli landa. Nýja íbúðin er að venjast en mér finnst skrýtið að eiga nágranna alltí einu og svo er svo mikill umgangur við götuna,það eru alltaf einhver hljóð í gangi sem ég er ekki vön.
Ég fór á kynningarkvöld hjá skólanum sem ég ætla að sækja og ég varð ennþá sannfærðari um að þetta er það rétta fyrir mig. Ef ég kemst ekki inn þá verð ég brjáluð. Á þessari kynningu sá ég þessa stelpu sem ég kannaðist við og ég var eiginlega pottþétt á því strax að þetta var íslensk stelpa. Ég fer og spjalla við hana og kemst að við vorum saman í Flensborg og svo þekkir hún vinkonu mína hérna úti og býr í gömlu íbúðinni hennar. Ég held að ég hafi aldrei hitt íslending í Baunalandi sem þekkti ekki einhvern sem ég þekkti. Við erum svo sveitó! Minn heittelskaði kemur heim á morgun og ég hlakka geðveikt til!

Wednesday, February 22, 2006

Hafernir

Það er svo langt síðan ég bloggaði seinast að það mætti halda að ég væri dauð. Ég er það samt ekki,bara dáldið þreytt. Við fluttum seinustu helgi og búum núna á Austurbrú niðri í bæ. Það er nú ekki oft sem að maður flytur í niður í bæ í stærri íbúð og sparar þvílíkt í leigu. En við vorum heppin. Það er allt í rúst í nýju íbúðinni og aðalástæðan fyrir því er að ég get ekki hætt að horfa á sjónvarp. Við keyptum sjónvarp þegar við fluttum eftir 8 mánaða fráhald og núna er rassinn á mér heftaður við sófann. Þeir eru að endursýna Beverly hills 90210 frá 1995,get ekki misst af því!
Annars er allt gott að frétta, ég er að vinna í skólaumsókninni þessa dagana,ég þarf að skila henni fyrir 15 mars. Ég þarf að skrifa meistarastykki um sjálfa mig sem lýsir því hversu æðisleg ég er og afhverju skólinn ætti að vera þakklátur fyrir að ég hef áhuga á þessu námi. Það er fínt í vinnunni, rólegt eins og venjulega. Minn heittelskaði er á skíðum í Svíþjóð með börnin í ungdómsklúbbnum þannig að ég er dáldið lónlý. En Beverly Hills reddar þessu! Ég lærði nýtt danskt orðatiltæki um daginn "að vera hress eins og haförn" þeir segja þetta í alvöru;). En ég veit ekki hvernig Danir hafa komist að því að hafernir séu hressari en aðrir fuglar. Hérna hljóta að liggja einhverjar rannsóknir að baki!

Monday, February 06, 2006

Allah

Jæja nú er þessari bloggleti lokið, ég er orðin kvefuð aftur og ég bara fatta þetta ekki. Það eru rétt komnar 3 vikur síðan ég var veik síðast. Þetta er reyndar aðeins mildari útgáfa af flensunni sem ég var með seinast þannig að ég býst ekki við ég liggi eins lengi núna. Úti er reyndar íslensk snjókoma þannig að þetta er ekki með öllu illt!
Hér er allt búið að vera að ganga af göflunum út af þessum teikningum. Danir eru orðnir óvinsælli en Bush í miðausturlöndum(og það þarf nú heilmikið til!). O g allt þetta vesen er vegna þess að einhver skítableðill á Norður Jótlandi ákvað að vera fyndinn eina helgina og gera grín að Múhammeð til tilbreytingar. Hér er búið að diskútera málið til helvítis, það er enginn fær um að diskútera eins lengi og ítarlega eins og Danir.
Ég hef oft kvartað yfir gúbbífiskaminni íslendinga, Davíð hækkaði skattana í dag en á morgun kjósum við hann samt af því að við erum búin að steingleyma hvað hann gerði í gær. En jákvæði póllinn í því er kannski að þá þurfum við ekki að hlusta á fjölmiðla nauðga sama málefninu í margar vikur.
En mér finnst persónulega að Norður Jótarnir hefðu aðeins átt að hugsa sig um áður en þeir gerðu þetta. Að sjálfsögðu hefur maður rit og tjáningarfrelsi til að birta næstum því hvað sem er. En það þýðir ekki að maður eigi að birta hvað sem bara af því bara"bara af því að enginn segir mér hvað ég má og ekki má".
Þeir voru örugglega ekki búnir að búast við því að þetta myndi setja eitt stærsta fyrirtæki landsins á hliðina eða hvað þetta myndi skapa mikla hættu fyrir Dani í útlöndum. En þeir hljóta nú að hafa búist við ansi hörðum viðbrögðum. En þetta snýst í rauninni ekki um þessar teikningar, teikningarnar voru dropinn sem fyllti mælinn. Þetta sýnir einfaldlega hvernig samskipti Dana og útlendinga(sér í lagi múslima) eru í þjóðfélaginu og ástandið er bara helvíti slæmt.

Monday, January 23, 2006

Glöð!

Æi hvað ég er glöð í dag! Ég mætti samviskusamlega í vinnuna í morgun og fékk að vita það að ég átti að vera á kúrsus í dag sem mér fannst ekkert nema sniðugt. Þannig að ég fékk að sitja inní í hitanum í dag og hafa það huggulegt að hlusta á fyrirlestra. Það gerist bara ekki betra held ég.
Ég ætla að rölta niður í bæ og kaupa andlitskrem, andlitið er við það að detta af mér vegna þurrks og kulda. Þegar eiginmaðurinn er farin að kommenta að maður líti ekki eins vel út eins og maður gerir vanalega(hann tekur aldrei eftir neinu) þá þarf maður að fara að gera eitthvað í þessu. Ég ætla að finna mér krem sem yngir mig um 10 ár og gerir mig geðveikt hamingjusama(þar að segja hamingjusamari:).
Það er örugglega ekkert mál!

Friday, January 20, 2006

brr!

Danskur vetur er ekkert grín, ég held ég hafi aldrei upplifað að hafa verið svona kalt áður. Og þó hef ég ágætis reynslu í vera kalt í gegnum þetta hjálparsveitabrölt á árum áður. Allar þessar vetrarferðir og útköll ,þar náði maður ágætis reynslu en það fölnar í minningunni miðað við veturinn hérna. Reyndar var þarna skiptið þegar Markús henti mér á bólakaf í Skógará í nóvember, það var helvíti kalt en það góða var að það stóð ekkert sérlega lengi. Danskur kuldi nístir í gegnum merg og bein, það hvarflar ekki að mér að fara út fyrir hússins dyr nema í neyðartilfellum, t.d að fara í vinnuna. Eftirlaun og að flytja til Kanarí hljómar alveg rosalega vel þessa dagana, það er bara verst að það eru minnsta kosti 33 ár í það!
Við hjónin erum að fara að skipta um húsnæði ,við flytjum 1. mars. Það vantar leigjendur í íbúðina sem við erum í núna .Ef þið vitið um einhverja greindarskerta íslendinga sem finnst það góð hugmynd að flytja til lands sem er kaldara en Ísland endilega láta vita!

Saturday, January 14, 2006

Jæja,nú er horið að mestu búið og ég er farin að geta andað í gegnum nefið. Það finnst mér mjög gott, þetta er svona einn af þessum hlutum sem maður tekur sjálfsagðan dags daglega. Ég er búin að horfa á aðeins fleiri bíómyndir og verð að komast út úr þessari íbúð! Ég er búin að múta systur minni til að fara með mér út að borða í kvöld og bíó. Hún vorkenndi mér svo mikið að hún sagði já.

Thursday, January 12, 2006

bíó

Er ennþá heima í horinu og yfirmaðurinn bannaði mér að mæta í vinnuna á morgun. Ég á að æfa mig á að fara út í búð og ryksuga stofuna á morgun, ef það gengur þá má ég kannski mæta um helgina!
Ég er búin að horfa á fáránlega mikið af myndum þessa vikuna og ég ætla að vera með smá kvikmyndagagnrýni.
1.Princess Bride: uppáhald, alltaf skemmtileg, geðveikt sexý aðalhetjan
2.E.T : náði bara helming, hún var eiginlega bara leiðinleg
3.Snatch : ágætis krimmamynd, hún fær auka stjörnu fyrir Brad Pitt beran að ofan í 3 atriðum
4.Danny the Dog: Hún var eiginlega mjög góð, ég vissi ekki að Jet li gæti leikið, blanda af hasar og mannlegu drama
5.Moulin Rouge: Uppáhald, búin að sjá hana svo oft, græt alltaf í endann
6.Evil: sænsk mynd sem er alveg svakalega góð, sætur leikari
7.American Pie, the bandcamp: Titillinn segir allt sem segja þarf,amerísk highschool mynd eins vond og þær geta orðið
8.Calendar girls: Bresk gamanmynd, skemmtileg kellingarmynd
9.The prince and me: amerísk ástarvella en sætir leikarar
10.Prozac nation: mynd um þunglyndi, mjög góð
11. The touch: hræðileg, meikaði korter og svo gafst ég upp

Wednesday, January 11, 2006

horfréttir

Ég er við það að fremja sjálfsmorð úr leiðindum og hori. Búin að horfa á allar myndir í tölvunni og les mbl.is á korters fresti. Ekki gott! Hvaðan kemur þetta hor allt saman og hvað er hor eiginlega? Einhvern tímann heyrði ég að hor væri dauðar kvefbakteríur. Ef svo er þá er ekki ein einasta kvefbaktería eftir í skrokknum á mér. Kannski er þetta heilinn á mér að leka út hægt og rólega. Ég er nú samt aðeins skárri í dag en í gær en það er alveg svakalega ömurlegt að hanga svona heima.

Monday, January 09, 2006

væliskítur

Svei mér þá, ég held að ég sé bara að deyja, ég er búin að ná mér í flensu dauðans. Ég var heima á föstudaginn og í dag, það gengur víst ekki að klína hor í gamla fólkið. Svona er þetta, ég er ekki búin að sleppa orðinu um hvað ég er búin að vera hraust síðan ég flutti til baunalandsins. Þetta fær maður í hnakkann um leið!
Týpískt!

Tuesday, January 03, 2006

Nýja árið leggst alveg svakalega vel í mig , ég er alveg rífandi hamingjusöm þessa dagana.
Skemmtilegt!