Saturday, August 11, 2007

Speltlandið góða

Ég er mætt aftur á svæðið eftir tímabil sögulegrar bloggleti! Ég var í mánuð á Íslandi og fór mestur tíminn í margvíslegar matarrannsóknir, besti sjeikinn er til dæmis í Vestmannaeyjum og besta pizzan hjá Pizza Company á Laugarveginum. Einnig var talsverðum tíma eytt í nammiát og ég verð bara að segja að íslenskt nammi er bara það besta í heimi. Það var líka smá bætt á sig í sumarfríinu, kíló fyrir mig og kíló fyrir júníor. Reyndar las ég einhversstaðar að hann bætti í "rauninni" á sig 200 grömmum á þessu tímabili en við látum það liggja milli hluta. Fór reyndar til læknisins í síðustu viku í vigtun og þrátt fyrir allt átið þá var ég í bullandi meðalmennsku, ekki of feit eða mjó miðað við bumbustærð. Speltmenningin fannst mér gífurlega skemmtileg og þegar ég fann speltpylsubrauðin frá Myllunni í Bónus þá íhugaði ég það í andartak að flytja heim. En svo las ég fasteignablaðið og hætti við. Ég hef ákveðið að stofna sjóð og fara að leggja fyrir svo að ég geti flutt heim. Ég hef reiknað út að ég þurfi svona 65 milljónir í reiðufé, 50 millur í húsið, 5 í innréttingar,5 í jeppann og seinustu 5 í hjólhýsið sem ég ætla að drösla um allt land vegna þess að ég nenni ekki að vera heima í 50 milljón krónu húsinu mínu. Ég læt ykkur vita hvernig gengur með söfnunina, þeir sem eiga einhverjar millur eftir í fasteigninni sinni(sem þeir hafa ekki eytt í Landcruiserinn og hjólhýsið) geta lagt inn á mig pening. Hafið bara samband. Ásdísi heim!!!
Þeir frestuðu hjá mér skólanum um eina viku þannig að það er auka vika í sumarfrí. Ég er búin að gera jóla og páskahreingerninguna í dag og búin að kaupa nautasteik handa mínum heittelskaða sem kemur heim á morgun eftir viku útlegð í Svíþjóð. Ég verð nú bara að segja það , það er leitun að betri eiginkonum en mér!!