Wednesday, August 31, 2005

Ég er að fíla Scooterinn minn í tætlur, ótrúlega auðvelt að komast á milli staða og svo lærir maður að rata um borgina. Ég er ekki búinn að keyra neina saklausa Dani niður og þeir hafa ekki keyrt á mig og ég held að það sé því algjörlega að þakka hversu góðir og tillitsamir bílstjórar Danir eru. Ef ég væri á Íslandi hefði verið búið að keyra á mig á degi 2.
Fékk nett menningarsjokk á sunnudaginn, fór í danskt barnaafmæli og ég hreinlega vissi ekki að það væri löglegt að halda afmæli án þess að hafa minnsta kosti eina marengs og 1 heitan rétt. Húsfreyjan bakaði rúnstykki og svo var álegg og ávextir. Svo voru tvær kökur sem voru úr búðinni og vatn, ávaxtasafi og kaffi. Þetta var mjög huggulegt en ekki alveg það sem ég er vön. Ég efast um að ég gæti haldið afmælisveislu án þess að hafa gos og baka svona 5 kökur + heita rétti +osta og eitthvað meira. Ég var að pæla hvort þetta er gamla húsfreyjusyndromið "það verður að vera til nóg og það verður að vera flott" ,svo er þetta líklega álit annara. Svo var ég að ræða þetta við systur mína og Danir kunna víst alls ekki að baka. Þeir kaupa einhverja ömurlega botna út í búð og setja eitthvað ógeðkrem á milli. Við systurnar ættum að kannski að stofna kaffihús og mennta baunana um hvernig tertur eiga að vera.

Wednesday, August 24, 2005

Scooterinn minn!

Hún á afmæli í dag!

Ég gleymi því alltaf hvað ég er gömul með reglulegu millibili, ég þarf yfirleitt að hugsa mig um. En ég er tvítug í níunda skiptið í dag, ekki misskilja mig samt. Ég hef engan áhuga að vera tvítug aftur, ég var svo vitlaus á þeim aldri. Í rauninni verður þetta betra með hverju árinu og fór ekki að verða skemmtilegt að neinu viti fyrr en eftir að ég varð 25 ára. Ég fékk alveg geðveika afmælisgjöf frá mínum heittelskaða, hann gaf mér scooter, svona lítið mótorhjól. Ég kann ekki að keyra á því en í hausnum á mér er ég kominn með mótorhjólapróf, búinn að fá mér svartan leðurgalla og Harley Davidson. Djöfull væri ég flott á Harley Davidson. Brumm,Brumm

Sunday, August 21, 2005

Ég er orðin svo geðveikt brún, ég held meira að segja að ég sé brúnni núna en þegar ég fór með mömmu og pabba til Mallorca ´89. Og það er nú mikið sagt.
Í dag er fínn dagur en minn heittelskaði vill eyðileggja það með því að þvo þvott, þrífa íbúðina og bjóða tengdamömmu í kaffi. Það er nú aðeins of mikið af því góða.!

Wednesday, August 17, 2005

sól og sumar

Og svo var sól aftur í dag,þvílík lukka.
Danir eru svo innilega fyndnir á stalínskan máta. Það er alveg rosalegur munur á íslendingum og Dönum í hugsunarhætti. Danir eru mjög uppteknir af því að það eigi allt að vera sanngjarnt og allir eigi að fá það sama, það er svona nettur kommúnismi í þeim. Sem er fínt upp að vissu marki nema ókostirnir við það eru líka að það eigi allir að vera eins og maður má ekki að skara of mikið framúr. Ég hef rekið mig á það þegar ég er að sækja um vinnu þá má ég ekki segja hversu frábær starfskraftur ég er. Það sem íslendingum finnst heilbrigt sjálfstraust, upplifa Danir sem hroka og mont. T.d þá hefur íbúðaverð þrefaldast á nokkrum árum hérna eins og heima og það er farið að tala um að skattleggja þá sem voru það heppnir að hafa keypt nógu snemma. Íslendingar myndu bara öfundast í hljóði og hugsa "En hann heppinn!"og búið mál. En Danir hugsa "afhverju á hann að fá meira en ég? er hann eitthvað betri en ég? Skattleggjum hann! Einstaklingsframtakið er ekki alveg eins metið hérna og heima. En Danir eru á hinn bóginn með eitt það besta velferðar og menntunarkerfi í heimi þannig að þeir hljóta að vera gera eitthvað rétt.
Ég er eitthvað svo ægilega hamingjusöm, ég veit að maður á ekki að vera það þegar maður er atvinnulaus en skítt með það. Ég er það bara.

Monday, August 15, 2005

Arbejdsløs!

Jæja, þá er að hefja vinnuleitina aftur, það er nú samt mjög jákvætt að vera gera þetta í annað skipti. Núna veit ég hvað ég á að gera og það er rosa plús. Svo er ég ekki eins óörugg í dönskunni. Þetta er dáldið spennandi hvar ég enda í þetta skipti.
Og vitið þið hvað! Það er búin að vera sól í allan dag, það hefur ekki gerst í mánuð:)

Saturday, August 13, 2005

gay pride

Helvíti góður dagur, var í fríi í vinnunni. Ég er búinn að vera niðri í bæ á Gay Pride og það var ógeðslega flott. Þetta er dáldið mikið stærra batterí en heima. Ég komst í þvílíkt stuð og langar út að djamma en vandamálið er að ég þekki bara óvirka alkóhólista sem eiga börn og það nennir enginn út með mér. Minn heittelskaði er á ráðstefnu í Kolding svo að það er ekkert gagn af honum.
Ég ákvað í gær að hætta í vinnunni, ég ætla að segja upp á mánudaginn, fyrir því liggja margar ástæður. Í fyrsta lagi þá hafa þeir ekki staðið við sitt launalega séð og því sem þeir hafa lofað, í öðru lagi er þetta drulluerfitt. Seinasta vika var algjörlega skelfileg, var að vinna 9-10 tíma á dag og það lítur ekki út fyrir að breyting verði á, ég tala nú ekki um hvernig það verður þegar það byrjar að snjóa. Ég játa mig sigraða, ég nenni ekki að vera hörkutól lengur. Mér hefur alltaf fundist ægilega flott að vinna erfiða vinnu, ég hlýt að hafa verið einhver togarafyllibyttutöffari í fyrra lífi með tattú á öllum útlimum sem grenjaði bara þegar hann var fullur.
Kannski fer ég að vinna á leikskóla eða verð heimavinnandi húsmóðir í bili. Ég má nú alveg láta til mín taka á húsmóðursviðinu, það hefur verið fátt um fína drætti þar síðan ég flutti út. Ekki það að ég hafi verið neitt sérstaklega dugleg áður en ég flutti hingað, þvert á móti. Ég fæ mér rúllur í hárið, bleikan slopp og inniskó í stíl , byrja að drekka martini ,þykist þrífa og hugsa um blómin allan daginn.
Svo var ég að fá gleðifréttir frá Íslandi, Sigga vinkona var að kaupa sér íbúð og Bjartur líka. Þau keyptu sér í sitthvorum stigaganginum í sömu blokkinnni, þetta er sko sönn vinátta. Eða þetta var með ráðum gert, núna þarf Sigga ekki að taka leigubíl heim þegar það er partí hjá Bjarti. Þetta er æði, það er svo gaman að eignast heimili. Til lukku með þetta bæði tvö!

Sunday, August 07, 2005

Roskilde

Þetta er búin að vera frábær helgi, vorum með Beggu og Björgvin í grillmat í gærkvöldi, þau eru í stuttri heimsókn. Þetta var virkilega skemmtileg kvöldstund. Svo fór ég til Roskilde til vinafólks sem er nýbúið að kaupa sér hús. Roskilde er mjög krúttlegur bær rétt fyrir utan Köben. Húsið er rosalega huggulegt, stór garður með flottu kirsuberjatré,3 eplatrjám,perutré og tómötum og agúrku í gróðurhúsinu. Þetta er eitthvað svo innilega ekki íslenskt. Ég fíla þetta í tætlur.

Wednesday, August 03, 2005

Heppin!

Það hafa nokkrir aðilar minnst á það við mig undanfarið að ég sé heppin, að þetta Danmerkurdæmi gangi svo vel, komin með vinnu og svo framvegis. Ég er það að vissu leyti en það hefur ekki svo mikið með heppni að gera, ekki í eiginlegri merkingu. Ég er mjög lukkuleg með að hafa látið verða af þessu og mér finnst lífið einhvernveginn betra, mér finnst ég aðallega hafa grætt tíma. Ég upplifi að meðaldagurinn hafi lengst um 5 tíma, ég hef meiri tíma til að vera til. Ég hef mikið meiri tíma til að iðka og því meira sem ég iðka því meiri tíma hef ég(skrýtin þversögn,en samt sönn). Á síðastliðnum árum hef ég lært smám saman að treysta því að lífið verði alltí lagi og hætta að reyna stjórna útkomunni. Og þegar ég hætti að reyna að hafa kverkatak á allri minni tilveru þá fer ég að sjá alla möguleikana. Hlutirnir æxlast reyndar mjög sjaldan eins og ég held að þeir geri. T.d þessi vinna hjá póstinum, ég fékk hugdettu eitt kvöldið að það væri ágætt að vinna hjá póstinum, sótti um á netinu um laugardagsvinnu, fór í viðtal, bað um heilsdagsvinnu, fékk hana og frétti svo eftirá að þetta er ein best borgaða vinnan sem maður fær í Danmörku ómenntaður. Þeir báðu ekki um cv, þeir hafa ekki hugmynd hvar ég var að vinna áður. Eins og ég eyddi miklum tíma í þetta cv og ætlaði aldeilis að sigra Dani með flottri starfsferilsskrá! Svona er þetta, íbúðin kom uppí hendurnar á okkur, frænka hans Anders sagði okkur að kíkja í ákveðið dagblað á ákveðnum degi,þar var íbúðin. Svona hefur þetta verið í ár, eftir að ég hætti að vera svona óttaslegin yfir því að hvað gæti gerst og byrjaði að treysta því að það sem gerist er það rétta. Það eru nefnilega engar tilviljanir og það er tilgangur með öllu. Lífið mitt gengur einhvernveginn best þegar ég er ekkert að skipta mér alltof mikið af því, almættið hefur bara mikið meiri yfirsýn og ímyndunarafl en ég.

póstur

Ég er orðin opinberlega dönsk,ég gleymdi að það var verslunarmannahelgi á mánudaginn,var alveg brjáluð að reyna að hringja í bankann og náði aldrei í gegn. Ég var farinn að hafa virkilegar áhyggjur af íslendingum,ég var orðin sannfærð um að öll íslenska þjóðin væri öll í einu að hækka yfirdráttinn í gegnum símann eftir sumarfrís-mínusinn.
Fór á skemmtilega mynd um daginn A lot like love með Ashton Kutcher. Hún kom skemmtilega á óvart og þá sérstaklega hann. Mér hefur aldrei fundist hann sérstaklega sjarmerandi hingað til, en hann var bara mjög heillandi í þessari mynd. Ég tek það fram að hér er um eðal stelpumynd að ræða.
Ég var að uppgötva mjög skemmtilega fordóma sem ég hef gagnvart fólki með leiðinlega póstkassa eða póstlúgur. Ég er alveg sannfærð um það að fólk sem er með póstkassana sína út við hlið er alveg ótrúlega gott og örlátt. En fólkið sem er með þröngar og leiðinlegar póstlúgur eru skítakarakterar. Þetta er ekkert rosalega vísindaleg niðurstaða en það er örugglega eitthvað til í þessu. Hvernig er póstlúgan þín? Ertu Dalai Lama eða skítakarakter?
Ég er búinn að vera að vinna með honum Vagn undanfarnar vikur. Hann er búinn að vera póstberi í 40 ár og hann er frá Jylland. Ég skil ekki orð af því sem hann segir en það er víst allt í lagi því að það gerir það enginn annar heldur, hvort sem það eru danir eða einhverjir aðrir. Það hefur virkað fínt að kinka kolli öðru hverju. Hann Vagn vinnur svo hratt að ég á í mesta basli með að ná í skottið á honum. Hann er ótrúlegur,ég sé hann í rauninni aldrei vinna, pósturinn hverfur upp í hillur, hverfur niðri í tösku, hann er Harry Potter póstsins. Ég þarf að hafa mig alla við til að hann þurfi ekki að bíða helminginn af deginum eftir mér. En svona er þetta, maður biður um að komast í form og fær Harry Potter póstsins sem einkaþjálfa.